Samgöngumál. Vegamál. Kostnaður aðila við rekstur stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 11029/2021)

Kvartað var yfir stjórnsýslu Vegagerðarinnar sem m.a. hefði valdið kostnaði fyrir viðkomandi.

Í ljósi kvörtunarinnar fór umboðsmaður ítarlega yfir hvert sitt hlutverk væri og hverjar gætu orðið lyktir mála sem fyrir hann væru lögð. Þar sem ekki varð annað ráðið en niðurstaða Vegagerðarinnar hefði verið í samræmi við óskir viðkomandi taldi umboðsmaður ekki nægt tilefni til að taka kvörtunina til meðferðar. Benti hann á að freista mætti þess að koma athugasemdum við stjórnsýslu Vegagerðarinnar á framfæri við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Þá vakti hann athygli á að í undantekningartilvikum kynni ófullnægjandi málsmeðferð stjórnvalds að leiða til skaðabótaskyldu hins opinbera. Það væri almennt ekki sitt hlutverk að taka afstöðu til slíks heldur dómstóla. Þar sem ekki varð séð að afstaða stjórnvalda til þess hvort bæri að girða meðfram tilteknum vegi lægi fyrir tók umboðsmaður það atriði ekki til umfjöllunar en veitti tilteknar leiðbeiningar þar að lútandi.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar 12. apríl sl. yfir stjórnsýslu Vegagerðarinnar. Samkvæmt gögnum málsins féllst Vegagerðin á umsókn A um nýjan héraðsveg að bænum [...] 24. október 2019. Af ýmsum ástæðum, sem nánar greinir í gögnunum, var vegurinn hins vegar ekki skráður á vegaskrá fyrr en með ákvörðun 19. nóvember sl.

Kvörtun yðar beinist að stjórnsýslu Vegagerðarinnar á þessu tímabili. Eru gerðar athugasemdir við ýmis atriði í þeim efnum. Af þeim athugasemdum verður meðal annars ráðið að þér teljið að meðferð málsins í kjölfar fyrri ákvörðunarinnar hafi verið óþörf og valdið yður kostnaði.

Í símtali við starfsmann umboðsmanns Alþingis 28. apríl sl. upplýsti A annars vegar að þess hefði ekki verið freistað af hálfu tiltekins landeiganda að kæra ákvörðunina 19. nóvember sl. til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og hins vegar að Vegagerðin hefði ekki girt meðfram veginum.

  

II

Samkvæmt gögnum málsins ákvað Vegagerðin 19. nóvember sl. að verða ekki við kröfu tiltekins landeiganda um að fjarlægja áðurnefndan héraðsveg sem A hafði sótt um og síðan lagt eftir að umsóknin hafði verið samþykkt. Niðurstaða stjórnvaldsins var því í samræmi við óskir yðar, þótt þér hafið sem fyrr segir athugasemdir við stjórnsýsluna í aðdraganda hennar.

Í ljósi framangreinds tel ég rétt að fjalla um hlutverk umboðsmanns Alþingis og hverjar geta orðið lyktir mála hjá honum. Um þessi atriði eru ákvæði í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og þær siðareglur sem tilgreindar eru í lögunum. Í 2. mgr. 4. gr. er svo kveðið á um að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í 10. gr. laga nr. 85/1997 er fjallað um lyktir máls. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu. Í b-lið 2. mgr. 10. gr. segir að hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar geti hann látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða þeim siðareglum sem nánar eru tilgreindar í lögunum. Þá segir að sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns geti hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Í c-lið 2. mgr. 10. gr. kemur svo fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Á grundvelli 10. gr. laga nr. 85/1997, sbr. einnig 5. gr. sömu laga, hefur umboðsmaður Alþingis svigrúm til að ákveða hvaða mál hann telur tilefni til að fjalla nánar um og þá með hvaða hætti, meðal annars með tilliti til mikilvægis þeirra, fjölda mála og þeirra takmörkuðu fjárveitinga og mannafla sem umboðsmaður hefur til umráða. Hér kann einnig að skipta máli hvort og þá hvaða möguleikar eru á að umboðsmaður geti beint tilmælum til stjórnvalds sem kunna að hafa þýðingu fyrir réttarstöðu þess sem hefur kvartað til umboðsmanns. Ef stjórnvald hefur fallist á afstöðu þess sem kvartar til umboðsmanns Alþingis er að jafnaði ekki tilefni fyrir umboðsmann að taka málsmeðferð stjórnvaldsins til sérstakrar athugunar þótt undantekningar geti verið á því.

Með vísan til þess sem er rakið að framan og þar sem ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að niðurstaða Vegagerðarinnar hafi sem fyrr segir verið í samræmi við óskir yðar tel ég ekki nægt tilefni til að taka kvörtunina til meðferðar. Ég bendi yður þó á að Vegagerðin heyrir undir yfirstjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 120/2012, um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála. Af því leiðir að ráðuneyti hans fer með ákveðnar heimildir gagnvart stjórnvaldinu, sbr. til dæmis IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Án þess að þér eigið rétt á að ráðuneytið fjalli efnislega um mál yðar getið þér því freistað þess að koma athugasemdum yðar við stjórnsýslu Vegagerðarinnar á framfæri við ráðuneytið.

Í samhengi við framangreint vek ég að lokum athygli yðar á að í undantekningartilvikum kann ófullnægjandi málsmeðferð stjórnvalds að leiða til skaðabótaskyldu hins opinbera. Ef þér teljið yður hafa orðið fyrir tjóni sökum ólögmætrar og saknæmrar háttsemi Vegagerðarinnar kann því að vera að þér eigið rétt á skaðabótum, sjá til hliðsjónar til dæmis dóma Hæstaréttar frá 30. október 2008 í máli nr. 70/2008 og 4. maí 2016 í máli nr. 585/2015 og dóm Landsréttar frá 5. febrúar 2021 í máli nr. 772/2019.

Það fellur hins vegar almennt ekki að hlutverki umboðsmanns að taka afstöðu til skaðabótaskyldu stjórnvalda þar sem yfirleitt er þörf á sönnunarfærslu í því skyni, svo sem um atvik máls og tilvist og umfang skaðabótaskyldu. Því hefur verið litið svo á að það verði að vera hlutverk dómstóla að leysa úr slíkum ágreiningi, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég árétta að með framangreindu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé fyrir yður að krefjast skaðabóta vegna málsins.

  

III

Í niðurlagi ákvörðunar Vegagerðarinnar 19. nóvember sl. er þess getið að hún muni setja hlið á umræddan veg á eignamörkum í samráði við aðila málsins. Í bréfi lögmanns fyrir hönd yðar, dags. 23. sama mánaðar, eru meðal annars gerðar athugasemdir við þetta og tekið fram að ekki verði séð hvernig Vegagerðin telji hentugra að setja hlið frekar en að girða veginn af.

Þrátt fyrir að ekki verði séð að kvörtun yðar beinist sérstaklega að þessu tel ég rétt að lokum að víkja stuttlega að því að samkvæmt 1. mgr. 51. gr. vegalaga nr. 80/2007 skal veghaldari girða báðum megin vegar sem lagður er í gegnum tún, ræktarland, engjar eða girt beitiland eða leggja til ristarhlið ásamt grindarhliði telji hann það hentugra. Ef afstaða yðar er að Vegagerðinni sé skylt samkvæmt vegalögum að girða meðfram umræddum vegi, sbr. jafnframt reglugerð nr. 930/2012, um girðingar meðfram vegum, getið þér beint erindi til stjórnvaldsins þar að lútandi. Að fenginni ákvörðun Vegagerðarinnar og að uppfylltum skilyrðum laga nr. 85/1997 kann að vera að þér getið leitað til umboðsmanns Alþingis með kvörtun yfir ákvörðun um þá beiðni. Þar sem ekki verður séð að afstaða stjórnvalda til slíkrar beiðni liggi fyrir læt ég umfjöllun minni hins vegar lokið.

  

IV

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

                          

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson