Skattar og gjöld. Skattskylda. Heimilisfesti. Barnabætur.

(Mál nr. 11059/2021)

Kvartað var yfir úrskurði yfirskattanefndar sem staðfesti ákvörðun ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti og skattskyldu á tilteknu tímabili. Þá var kæru viðkomandi vísað frá nefndinni að því leyti sem hún varðaði ákvörðun og fyrirframgreiðslu barnabóta.

Samkvæmt gögnum málsins var viðkomandi með skráð lögheimili erlendis á tilteknu tímabili og sýndi ekki fram á fasta búsetu hér á landi þeim tíma sem málið varðaði. Í ljós þess og annars sem fram kom í úrskurði yfirskattanefndar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Ekki yrði séð að úrskurðurinn gæfi heldur tilefni til að taka kvörtunina til meðferðar að öðru leyti. Umboðsmaður benti viðkomandi þó á að ef hann hefði ekki sótt um fyrirframgreiðslu barnabóta fyrir tekjuárið 2020 gæti hann freistað þess að gera það hjá ríkisskattstjóra.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 26. apríl sl. yfir úrskurði yfirskattanefndar nr. 41/2021 frá 24. mars sl. í máli nr. 7/2021. Samkvæmt úrskurðarorði var niðurstaða málsins að ákvörðun ríkisskattstjóra um skattalegt heimilisfesti og skattskyldu yðar á tímabilinu 14. janúar 2017 til 31. desember 2018 stæði óhögguð. Þá var kæru yðar vísað frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðaði ákvörðun og fyrirframgreiðslu barnabóta.

Af kvörtuninni sem og úrskurðinum að ráða er ósætti yðar að rekja til þess að þér hafið ekki fengið greiddar barnabætur frá því í september árið 2017. Um barnabætur er fjallað í A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. þess ákvæðis skal ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barns með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. sömu laga. Í 8. mgr. A-liðar 68. gr. er svo meðal annars mælt fyrir um að barnabætur skuli ákveðnar á grundvelli skattframtals við álagningu og að úrskurður ríkisskattstjóra um fyrirframgreiðslu barnabóta skuli vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.

Það var niðurstaða ríkisskattstjóra, sem yfirskattanefnd staðfesti, að þér uppfylltuð ekki skilyrði samkvæmt. 1. gr. laga nr. 90/2003, enda hefðuð þér verið með skráð lögheimili [erlendis] frá 4. janúar 2017 til janúar 2020 og ekki sýnt fram á að þér hefðuð átt fasta búsetu hér á landi á þeim tíma sem málið varðaði. Í ljósi þess sem kemur að öðru leyti fram í úrskurði yfirskattanefndar tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu. Þá fæ ég ekki séð að úrskurðurinn gefi mér tilefni til að taka kvörtun yðar til meðferðar að öðru leyti.

Að því er varðar niðurstöðu nefndarinnar um að vísa frá málinu að því er varðar „ákvörðun“ ríkisskattstjóra um fyrirframgreiðslu barnabóta minni ég á að slíkt styðst við ákvæði 8. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Þar kemur fram að úrskurður ríkisskattstjóra um fyrirframgreiðslu barnabóta skuli vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi. Ég nefni þó að af úrskurðinum verður ekki ráðið að þér hafið sótt sérstaklega um fyrirframgreiðslu barnabóta fyrir tekjuárið 2020, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta. Ef þér hafið ekki sótt um slíka fyrirframgreiðslu bendi ég yður á að þér getið freistað þess að gera það með umsókn til ríkisskattstjóra. Að fenginni niðurstöðu hans getið þér leitað til umboðsmanns Alþingis á ný með kvörtun yfir henni, ef þér teljið tilefni til og að uppfylltum skilyrðum fyrir því að kvörtun verði tekin til meðferðar samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Með vísan til þess sem er rakið að framan tel ég ekki ástæðu til að taka kvörtun yðar til meðferðar og lýk því athugun minni á henni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson