Skipulags- og byggingarmál. Leiðbeiningarskylda. Málshraði. Rannsóknarregla. Andmælaréttur.

(Mál nr. 11008/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og beindust athugasemdir einkum að málsmeðferð nefndarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá nefndinni hafði málið verið endurupptekið og kærandi í kjölfarið afturkallað stjórnsýslukæru sína. Þar sem sá úrskurður sem kvörtunin beindist að var ekki lengur í gildi lét umboðsmaður athugun sinni lokið. Benti umboðsmaður á að ef viðkomandi teldi sig hafa orðið fyrir tjóni kynni hann að eiga rétt á skaðabótum en það væri verkefni dómstóla að skera úr um slíkt.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2021, sem hljóðar svo: 

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 24. mars sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 12. sama mánaðar í máli nr. 112/2020. Samkvæmt kvörtuninni beinast athugasemdir yðar einkum að málsmeðferð nefndarinnar.

Í tilefni af kvörtuninni var nefndinni ritað bréf 7. þessa mánaðar sem hún svaraði 28. sama mánaðar. Í bréfi nefndarinnar, sem fylgir hér í ljósriti, segir meðal annars að mál nr. 112/2020 hafi verið endurupptekið og kærandi í kjölfarið kallað aftur stjórnsýslukæru sína. Þar sem sá úrskurður, sem kvörtun yðar beinist að, er ekki lengur í gildi tel ég rétt að láta athugun minni á kvörtun yðar lokið.

Í þeim efnum hef ég meðal annars haft í huga að umboðsmaður Alþingis fjallar að jafnaði ekki um mögulega skaðabótaskyldu hins opinbera, enda krefst yfirleitt sönnunarfærslu fyrir dómstólum að taka afstöðu til ágreinings um hana, svo sem um tilvist og umfang skaðabótaskyldunnar.

Ef afstaða yðar er að málsmeðferð nefndarinnar hafi verið í andstöðu við lög og að hún hafi valdið yður tjóni kann að vera að þér eigið rétt á skaðabótum af þeim sökum, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar frá 16. nóvember 1995 í máli nr. 331/1993, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 2664. Í samræmi við það sem áður segir verður hins vegar að vera hlutverk dómstóla að taka afstöðu til ágreinings þar að lútandi, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég árétta að með framangreindu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort skaðabótaréttur sé fyrir hendi í þessu máli.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a- og c-liði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég vek þó athygli yðar á að athugun mín á þessu máli hefur orðið mér tilefni til að rita úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála meðfylgjandi bréf.

Undirritaður fór með þetta mál sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson

  

 


 

Bréf setts umboðsmanns til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2021, hljóðar svo:

   

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A ehf. yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 12. mars sl. í máli nr. 112/2020.

Eins og kemur fram í bréfi mínu til félagsins, sem fylgir hér í ljósriti, hef ég ákveðið að fjalla ekki frekar um kvörtun þess, sbr. a- og c-liði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu mái orðið mér tilefni til að fjalla um nokkur atriði í málsmeðferð nefndarinnar í því skyni að þau sjónarmið verði framvegis höfð í huga hjá nefndinni.

Svo sem gögn málsins bera með sér var stjórnsýslukæran til nefndarinnar ekki alls kostar skýr um hvaða ákvörðun hefði verið kærð. Nefndin er ekki bundin af reglu sem svipar til málsforræðisreglu einkamálréttarfars og er þess vegna rétt og eftir atvikum skylt að taka til athugunar önnur atriði en kæra beinist að og líta til annarra röksemda en þar koma fram. Þrátt fyrir það samræmist að jafnaði betur skyldum nefndarinnar sem leiða af 7., 9. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að hún leiðbeini kæranda um hlutverk sitt og afli þegar í upphafi málsmeðferðar upplýsinga frá honum um efni stjórnsýslukærunnar ef hún er óskýr, eins og var í þessu máli.

Slíkt er jafnframt í betra samræmi við kröfur sem leiða af 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, enda er forsenda þess að aðili máls fái notið andmælaréttar að erindi stjórnvalds sé skýrt og glöggt um efni þess máls sem honum er tilkynnt um að sé til meðferðar. Þrátt fyrir að komið hafi fram í tilkynningu nefndarinnar til A ehf. 10. nóvember sl. að kærð væri tiltekin ákvörðun var efni stjórnsýslukærunnar, sem félaginu var tilkynnt um og gefinn kostur á að tjá sig um, ekki í samræmi við það og bera svör fyrirsvarsmanns félagsins þess merki.

Það verður því ekki séð að þessi málsmeðferð hafi fyllilega samrýmst framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga. Í því sambandi bendi ég jafnframt á að í kjölfar þess að nefndin aflaði frekari upplýsinga frá kæranda um efni kærunnar hefði verið í betra samræmi við framangreint að kynna fyrir A ehf. að nefndin liti svo á að gerðar væru aðrar kröfur en um greiðslu skaðabóta.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson