Tafir. Umhverfismál. Almannaréttur. Umferðarréttur.

(Mál nr. 11018/2021)

Kvartað var yfir töfum hjá Umhverfisstofnun á afgreiðslu máls sem laut að umferð og för um náttúru landsins og eftir atvikum, land í einkaeigu.

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns svaraði stofnunin erindum viðkomandi og því ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar vegna tafa sem orðið hafa á afgreiðslu Umhverfisstofnunar á máli yðar sem lýtur að umferð og för um náttúru landsins og, eftir atvikum, land í einkaeigu.

Í tilefni af erindi yðar var Umhverfisstofnun ritað bréf 30. mars sl. og þess óskað að stofnunin upplýsti um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Með tölvupósti frá 29. apríl hefur stofnunin upplýst mig um að yður hafi verið sent bréf, dags. 27. apríl sl., þar sem yður var greint frá stöðu málsins. Afrit bréfsins fylgdi tölvupósti stofnunarinnar. Þar kemur fram að stofnunin muni taka gjaldtöku vegna ferða ferðamanna um land í einkaeigu, þ.e. við Horn þar sem þér munuð hafa komið við á ferðum yðar um Ísland, til nánari athugunar á næstunni. Þá er þess óskað að þér veitið stofnuninni nánar tilteknar upplýsingar vegna málsins. Í ljósi þessa, og að því gættu að kvörtun yðar laut að því að erindum yðar hefði ekki verið svarað og að nú hefur það verið gert, tel ég ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Gangi fyrirætlanir Umhverfisstofnunar um meðferð málsins ekki eftir getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Undirritaður fór með þetta mál sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson