Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Framsending máls. Málshraði.

(Mál nr. 11038/2021)

Kvartað var yfir töfum á svörum frá dómsmálaráðuneytinu.

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns svaraði ráðuneytið viðkomandi og því ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

    

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 14. apríl sl., þar sem þér kvartið yfir töfum á að dómsmálaráðuneytið svari erindi yðar frá 20. mars 2020. Í kvörtuninni kemur fram að þrátt fyrir fyrirheit dómsmálaráðuneytisins um að svara erindi yðar fyrir lok marsmánaðar sl., sbr. fyrri kvörtun yðar sem hlaut málsnúmerið 10960/2021 í málaskrá skrifstofu umboðsmanns, hafi enn ekkert svar borist frá ráðuneytinu.

Í tilefni af kvörtun yðar var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf, dags. 16. apríl sl., þar sem óskað var eftir að ráðuneytið upplýsti um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindis yðar. Mér hefur nú borist svar frá dómsmálaráðuneytinu, dags. 26. apríl sl., þar sem fram kemur að erindi yðar hafi verið svarað. Þá barst mér afrit af svarbréfi ráðuneytisins til yðar dagsett sama dag.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á að dómsmálaráðuneytið svari erindi yðar og því hefur nú verið svarað tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni. Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég hef þó ritað dómsmálaráðuneytinu bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti þar sem ég kem á framfæri tilteknum ábendingum. Þá tek ég fram að teljið þér yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu Persónuverndar getið þér leitað til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

  


  

Bréf setts umboðsmanns til dómsmálaráðuneytisins, dags. 30. apríl 2021, hljóðar svo:

  

Það tilkynnist hér með að ég hef lokið athugun minni á kvörtun A með bréfi því sem fylgir í ljósriti með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tel meðferð ráðuneytisins á máli hans gefa mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri.

Fyrir liggur að í mars á síðasta ári leitaði A til dómsmálaráðuneytisins með erindi sem sneri að ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að synja beiðni hans um leiðréttingu á skráningu upplýsinga um skilorðsrof hans. Hinn 23. febrúar sl. lagði A fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem erindi hans hafði ekki verið afgreitt eða svarað að öðru leyti af hálfu dómsmálaráðuneytisins tæpu ári eftir að hann sendi það. Málið hlaut málsnúmer 10960/2021 í málaskrá skrifstofu umboðsmanns Alþingis. Ég lauk því máli í ljósi fyrirætlunar ráðuneytisins um að svara erindi A eigi síðar en 31. mars sl.

Erindi A var svarað af hálfu dómsmálaráðuneytisins 26. apríl sl. en þar vekur ráðuneytið athygli á því að vinnsla persónuupplýsinga í því skyni að fullnægja refsiviðurlögum eigi undir lög nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/2019 hafi sérhver skráður einstaklingur eða fulltrúi hans rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur að persónuupplýsingar um hann hjá lögbæru yfirvaldi brjóti í bága við ákvæði laganna. Ráðuneytið muni því framsenda erindið til Persónuverndar.

Af þessu tilefni vek ég athygli dómsmálaráðuneytisins á framsendingarreglu 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þeim grunnrökum sem hún er byggð á, en þar kemur meðal annars fram að erindi skuli framsent „svo fljótt sem unnt er“. Að þessu leyti horfi ég til þess að það leið rúmt ár frá því að erindi A barst ráðuneytinu og þar til honum var bent á að það heyrði undir Persónuvernd, sbr. lög nr. 75/2019. Ég fæ ekki séð að efnis erindisins hafi verið slíkt að það gefið tilefni til svo þessa málsmeðferðartíma.

Með hliðsjón af framangreindu kem ég þeirri ábendingu á framfæri að betur verði hugað að þessum atriðum við meðferð og afgreiðslu sambærilegra erinda sem ráðuneytinu berast frá borgurunum í framtíðinni.

                          

                         

                                     Kjartan Bjarni Björgvinsson