Opinberir starfsmenn. Auglýsingar á lausum störfum. Leiðbeiningarskylda. Rökstuðningur.

(Mál nr. 2992/2000)

A kvartaði yfir því að henni hefði ekki enn borist fullnægjandi rökstuðningur fyrir ráðningu í afleysingastarf félagsráðgjafa á Sjúkrahúsi Reykjavíkur en hún hafði sótt um starfið í kjölfar auglýsingar. Beindist athugun umboðsmanns að því hvort þau svör sem A hafði fengið teldust fullnægjandi.

Umboðsmaður taldi að ekki hefði verið skylt að auglýsa starfið laust til umsóknar samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, enda um afleysingastarf að ræða. Eftir sem áður yrði að telja ákvörðun um slíka ráðningu stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bar því sjúkrahúsinu m.a. að veita þeim sem aðild áttu að málinu leiðbeiningar í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga. Gagnrýndi hann að í tilkynningu til A um niðurstöðu sjúkrahússins hefði henni ekki verið leiðbeint um rétt hennar til að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Þá vék umboðsmaður að skyldu stjórnvalds til að rökstyðja stjórnvaldsákvörðun og rakti athugasemdir við V. kafla frumvarps til stjórnsýslulaga um ástæður þess að stjórnvöldum er gert að rökstyðja ákvarðanir sínar. Dró hann m.a. þá ályktun að sú skylda tengdist kröfunni um vandaðan undirbúning að töku stjórnvaldsákvörðunar þar sem grundvöllur niðurstöðu stjórnvalds verður að vera skýr og glöggur. Þá rakti hann 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákveðnar kröfur eru gerðar til efnis rökstuðnings. Taldi hann ljóst að í bréfum sjúkrahússins til A hefði ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem réðu niðurstöðu þess um það hvern skyldi ráða til starfans. Þá hefði engin grein verið gerð fyrir því hvaða atriði skiptu mestu varðandi starfshæfni B með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem byggt var á við matið. Var það niðurstaða umboðsmanns að enn hefði sjúkrahúsið ekki veitt A rökstuðning fyrir ákvörðuninni sem gæti talist fullnægjandi með hliðsjón af kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Landspítala-háskólasjúkrahúss að leitast yrði við að svara beiðni A um rökstuðning, kæmi fram ósk um það frá A, með hliðsjón af þeim kröfum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 15. maí 2000 leitaði A til mín og kvartaði yfir því að Sjúkrahús Reykjavíkur hefði þá ekki enn svarað ósk hennar, þrátt fyrir ítrekanir, um rökstuðning fyrir því „á hvern hátt staðið var að ákvörðun um veitingu afleysingastöðu félagsráðgjafa“ á sjúkrahúsinu og „hvaða faglegar ástæður“ lágu til grundvallar ráðningu í starfið.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 18. apríl 2001.

II.

Málsatvik eru þau að starf félagsráðgjafa á öldrunardeild Sjúkrahúss Reykjavíkur var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 31. janúar 1999. A sótti um starfið með umsókn, dags. 14. febrúar s.á. Umsókn hennar var svarað með svohljóðandi bréfi, dags. 24. febrúar 1999:

„Í janúar s.l. auglýsti Sjúkrahús Reykjavíkur starf félagsráðgjafa á öldrunarsviði laust til umsóknar. Um er að ræða afleysingastarf til eins árs. Þeir umsækjendur sem sóttu um starfið voru metnir hæfir. Ráðið hefur verið í starfið. Með bréfi þessu er þakkað fyrir umsókn þína og áhuga fyrir starfinu. Umsókn þín er jafnframt endursend.“

Með bréfi, dags. 4. mars 1999, bar A fram fyrirspurn vegna ráðningarinnar. Henni var svarað af hálfu sjúkrahússins með bréfi, dags. 12. mars 1999, og hljóðaði það svo:

„Samkvæmt fyrirspurn í bréfi þínu frá 4. mars 1999 um ráðningu félagsráðgjafa til afleysingastarfa á öldrunarsvið Sjúkrahúss Reykjavíkur er hér með upplýst að báðir umsækjendur voru taldir ágætlega hæfir en eftir viðtal var ákveðið að ráða [B], félagsráðgjafa, til starfa frá og með 15. apríl n.k. í eitt ár.“

Í kjölfar þessa svars leitaði A atbeina Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa. Ritaði félagið sjúkrahúsinu bréf fyrir hennar hönd, dags. 19. apríl 1999, þar sem þess var farið á leit að það rökstyddi með skriflegum hætti „á hvern hátt staðið var að ákvörðun um veitingu“ starfsins. Ennfremur var óskað upplýsinga um „hverjar faglegar ástæður“ lægju til grundvallar ráðningunni. Svarbréf sjúkrahússins, dags. 16. júní 1999, var svohljóðandi:

„Vegna fyrirspurnar Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, dags. 19. apríl sl, um rökstuðning fyrir ráðningu í afleysingastöðu félagsráðgjafa hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur skal það áréttað, sem áður hefur komið fram í bréfi til [A], að umsækjendur um stöðuna voru báðir taldir hæfir til að gegna henni. Báðir uppfylltu því fagleg skilyrði til að gegna umræddu starfi. Annar umsækjandi var hins vegar valinn til að gegna starfinu.

Það er að mínu mati óumdeilt að sjúkrahúsið hefur fullt vald til að velja á milli umsækjenda þegar þannig háttar til.

Af hálfu félagsins hefur ekki verið dregið í efa að sá starfsmaður sem ráðinn var í umrætt starf sé til þess hæfur. Hafi félagið hins vegar eitthvað við ráðningu í umrætt starf að athuga er þess vinsamlegast óskað að undirrituð verði upplýst um þær athugasemdir til að unnt sé að svara þeim beint.“

Í bréfi, dags. 23. september 1999, ítrekaði félagið beiðni sína um að sjúkrahúsið rökstyddi ráðningu í starfið með skriflegum hætti. Var þar vísað til 21. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og talið að sjúkrahúsinu bæri að gera í rökstuðningi sínum grein fyrir þeim sjónarmiðum sem það hefði lagt til grundvallar er það komst að þeirri niðurstöðu að B væri hæfari en A. Í bréfi félagsins var talið að þau svör sem þegar hefðu verið veitt væru ófullnægjandi. Beiðni um rökstuðning var ítrekuð af hálfu félagsins með bréfi, dags. 9. febrúar 2000. Svar sjúkrahússins hafði enn ekki borist er A leitaði til mín.

III.

Með bréfi til Landspítalans-háskólasjúkrahúss, dags. 31. maí 2000, óskaði ég eftir upplýsingum með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um hvað liði afgreiðslu sjúkrahússins á ósk A um rökstuðning sem síðast var ítrekuð 9. febrúar 2000. Í svarbréfi sjúkrahússins, dags. 23. júní 2000, kom fram að 12. maí 2000 hefði Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa verið sent bréf í tilefni af ósk þess um rökstuðning fyrir hönd A. Var bréf sjúkrahússins meðfylgjandi og þar segir eftirfarandi:

„Mér hefur borist ítrekun félagsins vegna óska um nánari rökstuðning vegna ráðningar í afleysingastöðu félagsráðgjafa á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, sem auglýst var þann 31. janúar 1999. Skýringin á því að ég hef dregið að svara þessari nýju fyrirspurn er sú að ég taldi mig í raun ekki hafa neitt við svar mitt frá 16. júní 1999 að bæta.

Við ráðningu starfsmanna tel ég mig hafa framkvæmt starf mitt eftir bestu kunnáttu og sannfæringu um að ég væri að framfylgja mínum skyldum sem yfirmaður, með hagsmuni sjúkrahússins og skjólstæðinga þess að leiðarljósi. Í anda þessara sjónarmiða framkvæmdi ég val á milli tveggja hæfra umsækjenda í því tilviki sem hér er til umfjöllunar. Ég lagði þá vinnu í könnun á innsendum umsóknum og viðtöl við umsækjendur um afleysingastöðu þessa, sem ég taldi þurfa í þeim tilgangi að ganga úr skugga um hæfni umsækjenda. Nánari rök get ég hins vegar ekki fært fyrir því vali sem síðan var framkvæmt enda ekki við það miðað í vinnu við upplýsingaöflun og í ákvörðunarferlinu að þurfa að rökstyðja ákvörðunina nánar en gert hefur verið. Með vísan til fyrirspurnar minnar í bréfi dags. 16. júní 1999 og síðan nýs fyrirspurnarbréfs félagsins dags. 23. september 1999, dreg ég þá ályktun að stéttarfélagið dragi ekki í efa að starfsmaður sá sem ráðinn var í umrætt starf sé til þess hæfur og að það hafi að öðru leyti ekkert við ráðninguna að athuga. Ég er hins vegar ágætlega upplýst nú um lagatúlkun og afstöðu sem Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa hefur ákveðið að taka á málum sem þessum.“

Hinn 27. júní 2000 ritaði ég Landspítala-háskólasjúkrahúsi á ný og óskaði, með vísan til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir viðhorfi sjúkrahússins til þess hvort sá rökstuðningur sem fram kæmi í framangreindu bréfi uppfyllti skilyrði ákvæðis 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði ég skýringa á því hvers vegna A var ekki leiðbeint um rétt hennar til að fá ákvörðunina rökstudda þegar henni var tilkynnt um að ráðið hefði verið í starfið. Að lokum óskaði ég eftir því að sjúkrahúsið lýsti að öðru leyti viðhorfum sínum til kvörtunar A.

Svarbréf Landspítala-háskólasjúkrahúss barst mér 1. nóvember 2000. Þar segir eftirfarandi:

„Svör Landspítala-háskólasjúkrahúss við fyrirspurnum þínum eru eftirfarandi:

1. Þess er óskað að Landspítali-háskólasjúkrahús lýsi viðhorfi sínu til þess hvort rökstuðningur fyrir ákvörðun um veitingu afleysingastöðu félagsráðgjafa við Sjúkrahús Reykjavíkur, sem settur er fram í tilgreindu bréfi forstöðufélagsráðgjafa, dags. 23. júní 2000, til Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, uppfylli ákvæði 22.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings.

Svar: Vísað er til bréfa forstöðufélagsráðgjafa Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 16. júní 1999 og 12. maí 2000, sem svar við þessari fyrirspurn. Frekari rök eða skýringar liggja ekki fyrir varðandi það val sem framkvæma þurfti milli tveggja hæfra umsækjenda. Varðandi spurningu þína um viðhorf sjúkrahússins til þess hvort umræddur rökstuðningur uppfylli tilvitnað ákvæði 22.gr. stjórnsýslulaga er það að segja að viðkomandi yfirmaður taldi sig ekki ganga á svig við lög með því að velja milli tveggja hæfra umsækjenda með þeim hætti sem raun ber vitni. Sjá nánar almenna umfjöllun um málið hér á eftir.

2. Þá er þess jafnframt óskað að upplýst verði af hverju [A] var ekki leiðbeint um heimild hennar til að fá framangreinda ákvörðun rökstudda, sbr. 1.tl. 2.mgr. 20.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar henni var með bréfi dags. 24. febrúar 1999, tilkynnt að ráðið hefði verið í stöðuna.

Svar: Það er vissulega rétt að þessi ábending er ekki í tilvitnuðu bréfi, dags. 24. febrúar 1999. Þetta virðist þó ekki hafa komið að sök í því máli sem hér er til umfjöllunar. Annars vísast til nánari umfjöllunar hér á eftir sem varðar m.a. þessa spurningu.

Nauðsynlegt er að hafa í huga eðli þeirrar ráðningar sem um var að ræða. Eins og fram kemur í gögnum málsins var um að ræða afleysingastöðu félagsráðgjafa á öldrunarsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur til eins árs, frá og með 15. apríl 1999. Starfið var auglýst þrátt fyrir að auglýsingaskylda væri ekki til staðar, sbr. 2.tl., 2.gr. reglna um auglýsingar á lausum störfum, nr. 464/1996, sem settar eru með stoð í 2.mgr. 7.gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Með vísan til þessara ákvæða er slakað á kröfu um aðferðir og form þar sem um skammtímaráðningar er að ræða. Stjórnvöld hafa frjálsari hendur en ella til að velja á milli hæfra starfsmanna til að gegna slíkum störfum. Þar sem auglýsingaskylda er ekki til staðar er ekki gert ráð fyrir að utanaðkomandi einstaklingar geti gert athugasemd við að hafa ekki haft tækifæri til að fá ráðningu í viðkomandi starf. Hafa ber þessi sjónarmið í huga til viðbótar við þau rök sem fram hafa komið af hálfu vinnuveitanda í því máli sem hér er til umfjöllunar.“

Með bréfi, dags. 2. nóvember 2000, gaf ég A kost á því að koma að athugasemdum þeim sem hún teldi ástæðu til að gera við framangreindar skýringar Landspítala-háskólasjúkrahúss. Athugasemdir A bárust mér 20. nóvember 2000. Þar kemur fram sú afstaða hennar að enn séu ekki komin fram rök eða skýringar sem réttlæti ákvörðun sjúkrahússins. Þá kemur þar fram sú afstaða að þótt ekki hafi verið skylt að auglýsa starfið þá hafi það verið gert og ekkert hafi komið fram í auglýsingu að til stæði að slaka á kröfum til umsækjenda vegna þess að um afleysingastöðu væri að ræða.

IV.

1.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda lögin þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga kemur fram að í lögfræðinni hafi ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna verið flokkaðar sem stjórnvaldsákvarðanir. Gengju lögin út frá þessari hefðbundnu skilgreiningu og því féllu ákvarðanir þessar undir gildissvið þeirra. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283.)

Í 2. tölulið 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, kemur fram að ekki sé skylt að auglýsa laus störf við afleysingar enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt. Ákvæði þetta er sett með stoð í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem lagðar hafa verið fyrir mig verður að telja að starf það sem hér er til umfjöllunar hafi fallið undir þessa undantekningu. Á sjúkrahúsinu hvíldi því ekki sú skylda að auglýsa starfið laust til umsóknar. Það var hins vegar gert og tveir umsækjendur voru um starfið.

Þótt unnt sé að beita heimild til undanþágu frá skyldu til þess að auglýsa laust starf bendir ekkert til þess að ráðning í það skuli ekki teljast til stjórnvaldsákvarðana í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Öndverð niðurstaða fær hvorki stoð í athugasemdum við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum né í ákvæðum laga nr. 70/1996 eða athugasemdum við frumvarp til þeirra laga. Sé afleysingastarf ekki auglýst í slíkum tilvikum á sá sem ráðinn er að jafnaði einn aðild að því stjórnsýslumáli enda öðrum umsækjendum þá oftast ekki til að dreifa. Hafi fleiri umsækjendur verið um afleysingastarfið, t.d. í kjölfar þess að það hafi verið auglýst laust til umsóknar, ber viðkomandi stjórnvaldi hins vegar að fylgja stjórnsýslulögum gagnvart umsækjendum sem aðild eiga að því máli. Þannig ber stjórnvaldinu meðal annars að tilkynna þeim sem ekki voru ráðnir í starfið um niðurstöðu þess og veita þær leiðbeiningar sem því er skylt að veita samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga. Sé þess krafist af aðila máls er stjórnvaldinu ennfremur skylt að rökstyðja ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

Ákvörðun um ráðningu í afleysingastarf félagsráðgjafa á Sjúkrahúsi Reykjavíkur var birt A með bréfi, dags. 24. febrúar 1999, sbr. kafla II hér að framan. Þar var henni ekki leiðbeint um rétt hennar til þess að fá ákvörðun sjúkrahússins rökstudda skriflega svo sem skylt var samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Var það annmarki á málsmeðferð sjúkrahússins að þessa var ekki gætt.

Í athugasemdum við V. kafla frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum segir eftirfarandi um rökstuðning stjórnvaldsákvörðunar:

„Þegar teknar eru ákvarðanir í stjórnsýslunni eru þær byggðar á tilteknum réttarheimildum, sjónarmiðum o.s.frv. Það eru því ávallt rök sem liggja til grundvallar því hvers vegna niðurstaða máls verður sú sem raun er á. Úrlausn þess hvort stjórnvaldi beri að rökstyðja ákvörðun snýst því ekki um það hvort ástæður eða rök þurfi að liggja að baki ákvörðun, heldur um það hvort stjórnvaldi beri að láta í té skriflegan rökstuðning um þau atriði sem réðu við úrlausn máls og leiddu til niðurstöðu í því.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3298.)

Þá er rétt í þessu sambandi að benda á þær ástæður sem tilgreindar eru í athugasemdunum og liggja að baki kröfunni um að veita skuli skriflegan rökstuðning þegar þess er krafist:

„Út frá sjónarmiðum um réttaröryggi og traust almennings á stjórnsýslunni verður að telja mikilvægt að stjórnvaldsákvörðunum fylgi rökstuðningur. Það sem helst mælir með almennri reglu um rökstuðning er að slík regla er almennt talin auka líkur á því að ákvarðanir verði réttar þar sem hún knýr á um það að stjórnvald vandi til undirbúnings að ákvörðun og leysi úr máli á málefnalegan hátt.

Þegar rökstuðningur fylgir ákvörðun stuðlar hann einnig að því að aðili máls fái í raun skilið niðurstöðu þess þar sem hann getur staðreynt að ákvörðun eigi sér stoð í lögum og sé í samræmi við þau. Rökstuðningur fyrir ákvörðun getur því orðið til þess að aðili máls uni ákvörðun þótt hún sé honum óhagstæð. Af rökstuðningi getur aðila líka orðið ljóst að starfsmaður, sem tekið hefur ákvörðun, hafi verið í villu um staðreyndir máls eða að ákvörðun sé haldin öðrum annmarka. Þegar rökstuðningur fylgir ákvörðun á aðili máls auðveldara með að taka ákvörðun um það hvort leita eigi eftir endurupptöku málsins, hvort kæra eigi ákvörðunina til æðra stjórnvalds eða bera málið undir dómstóla eða umboðsmann Alþingis ef skilyrði eru til þess.

Þá er einnig ljóst að til þess að eftirlit æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis sé sem virkast verður að vera ljóst á hvaða grundvelli stjórnvaldsákvörðun er byggð. Oft getur verið erfitt að staðreyna hvort ákvörðun er t.d. byggð á ólögmætum sjónarmiðum, rangri túlkun réttarheimilda o.s.frv., ef henni hefur ekki fylgt rökstuðningur.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3299).

Samkvæmt framansögðu tengist skylda stjórnvalds til að rökstyðja ákvörðun sína kröfunni um vandaðan undirbúning að töku stjórnvaldsákvörðunar þar sem grundvöllur niðurstöðu stjórnvalds á að vera skýr og glöggur. Þá stuðlar rökstuðningur að trausti almennings og aðila máls á að ákvörðun sé rétt eða kann að leiða í ljós annmarka sem getur gefið aðila máls tilefni til að leita eftir því að hlutur hans verði réttur. Verður því að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau hagi meðferð mála með þeim hætti að þeim sé unnt að gera skilmerkilega grein fyrir því hver sé grundvöllur niðurstöðu þess í rökstuðningi til aðila máls.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um efni rökstuðnings. Þar segir eftirfarandi í 1. mgr.:

„Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.“

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að þar sem ástæða er til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Ekki er vikið að því í ákvæðinu hversu ítarlegur rökstuðningur skuli vera að öðru leyti. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga sagði þó að rökstuðningur ætti að meginstefnu til að vera stuttur en þó það greinargóður að búast mætti við því að aðili máls gæti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls varð sú sem raun varð á. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.)

Ákvörðun um hvern skuli ráða til opinbers starfs er ákvörðun sem byggist á mati. Lög eða stjórnvaldsfyrirmæli mæla jafnan ekki fyrir um þau sjónarmið sem slíkar ákvarðanir skulu byggjast á og ber handhafa veitingarvalds því almennt að ákveða að hvaða marki byggja skuli ákvörðunina á menntun, starfsreynslu, hæfni eða öðrum persónulegum eiginleikum umsækjenda sem hafa þýðingu við rækslu starfans. Önnur sjónarmið geta haft áhrif á mat handhafa veitingarvalds að því tilskildu að þau séu málefnaleg. Við rökstuðning til umsækjanda ber handhafa veitingarvalds að geta þeirra meginsjónarmiða sem niðurstaða hans byggðist á, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá tel ég að það leiði af 2. mgr. 22. gr. laganna að handhafa veitingarvalds sé skylt að gera í stuttu máli grein fyrir atriðum sem skiptu mestu varðandi starfshæfni þess umsækjanda sem varð fyrir valinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem byggt var á.

Í kafla II hér að framan voru tvö bréf Sjúkrahúss Reykjavíkur rakin orðrétt en þar er beiðni A og Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa fyrir hennar hönd um rökstuðning svarað. Í bréfi sjúkrahússins, dags. 12. mars 1999, kemur fram að báðir umsækjendurnir voru taldir ágætlega hæfir en eftir viðtal hafi verið ákveðið að velja B. Í bréfi sjúkrahússins, dags. 19. apríl 1999, er það áréttað að báðir umsækjendur hafi uppfyllt fagleg skilyrði en annar hins vegar valinn til að gegna því. Í kafla III í áliti þessu er rakið bréf Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 12. maí 2000, sem barst A eftir að hún hafði kvartað til mín. Þar kemur fram að sá starfsmaður sjúkrahússins sem tók ákvörðunina hafi við meðferð málsins tekið mið af hagsmunum sjúkrahússins og skjólstæðinga þess. Gekk hann úr skugga um hæfni umsækjenda með könnun á umsóknum og viðtölum við umsækjendur. Síðan segir orðrétt:

„Nánari rök get ég hins vegar ekki fært fyrir því vali sem síðan var framkvæmt enda ekki við það miðað í vinnu við upplýsingaöflun og í ákvörðunarferlinu að þurfa að rökstyðja ákvörðunina nánar en gert hefur verið.“

Í framangreindum bréfum er að mínu áliti ekki gerð fullnægjandi grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem réðu þeirri niðurstöðu að velja skyldi B í starfið. Óljóst er hvaða sjónarmið voru leidd af hagsmunum sjúkrahússins og skjólstæðinga þess. Þá verður það að teljast ófullnægjandi að vísa til þess í rökstuðningnum að báðir umsækjendur hafi talist hæfir en að annar hafi verið valinn í kjölfar viðtals. Engin grein er gerð fyrir því í bréfum sjúkrahússins hvaða atriði leitast var við að upplýsa með viðtölunum og hvaða þýðingu þau höfðu fyrir niðurstöðuna. Þá er í bréfunum ekkert vikið að þeim atriðum sem skiptu mestu varðandi starfshæfni B með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem byggt var á við matið. Er það því niðurstaða mín að sjúkrahúsið hafi ekki enn veitt A rökstuðning sem getur talist fullnægjandi með hliðsjón af þeim kröfum sem fram koma í 22. gr. stjórnsýslulaga.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að A hafi ekki verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar um rétt hennar til að fá ákvörðun Sjúkrahúss Reykjavíkur um ráðningu í starf félagsráðgjafa á sjúkrahúsinu rökstudda, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá tel ég að sá rökstuðningur sem A var veittur í kjölfar ráðningar í starfið hafi ekki verið fullnægjandi með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru til efnis rökstuðnings samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga. Beini ég þeim tilmælum til Landspítala-háskólasjúkrahúss að leitast verði við að svara beiðni A um rökstuðning, komi fram ósk um það frá henni, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Með bréfi til Landspítala-háskólasjúkrahúss, dags. 26. nóvember 2001, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til sjúkrahússins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða málið væri enn til meðferðar. Í svari sjúkrahússins, dags. 3. janúar 2001, segir meðal annars svo:

„Í framhaldi af áliti embættisins ritaði [A] LSH bréf, dags. 8. maí sl. (mótt. 11. maí), þar sem hún fór fram á rökstuðning stofnunarinnar með vísan til álits embættisins í máli nr. 2992/2000.

Var [A] svarað með bréfi [X] yfirfélagsráðgjafa öldrunarsviðs (f.v. forstöðufélagsráðgjafi SHR), dags. 8. júní 2001. Í þessu bréfi er að finna þann rökstuðning sem bréfritari fór fram á í áðurnefndu bréfi 8. maí sl.

Ekki hefur verið um frekari samskipti milli aðilanna vegna málsins og er litið svo á af hálfu LSH, að máli þessu sé lokið.“