Sveitarfélög.

(Mál nr. 11045/2021)

Kvartað var yfir tilkynningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem birt var á vef þess um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar í tilteknu máli. Með tilkynningunni hafi Reykjavíkurborg verið veitt undanþága frá því að skila ársreikningi í samræmi við lög án þess að ráðuneytið hefði til þess lagaheimild.

Af gögnum málsins varð ekki ráðið að efni tilkynningarinnar snerti hagsmuni viðkomandi umfram annarra íbúa landsins nema að því marki sem hún snerti þá opinberu hagsmuni sem tengdust störfum viðkomandi í endurskoðunarnefnd borgarinnar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um ágreining milli stjórnvalda í tilefni af kvörtun frá stjórnvaldi. Hið sama á að jafnaði við um kvartanir frá einstaklingum sem varða aðeins þá opinberu hagsmuni sem tengjast störfum þeirra í stjórnsýslunni. Þar sem ekki varð ráðið að annað ætti við um kvörtunina voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður tæki hana til meðferðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 16. þessa mánaðar yfir tilkynningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem var birt á vefsíðu þess 19. mars sl. um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar frá október sl. í máli nr. 1/2020.

Í tilkynningunni er rakið að nefndinni hafi borist ábendingar um að þrátt fyrir álitið sé óskýrt hvort sveitarfélögum sé heimilt að beita „samanteknum reikningsskilum“ í stað „hefðbundinna samstæðureikningsskila“. Því næst er fjallað um að nefndinni sé kunnugt um innbyrðis ósamræmi í löggjöf og reglum er lúti að reikningsskilum sveitarfélaga. Þá kemur fram að endurskoðun á fjármálahluta sveitarstjórnarlaga standi yfir. Þar sem þeirri vinnu sé ekki lokið líti „nefndin svo á að sveitarfélög geti beitt sambærilegum reikningsskila- og matsaðferðum og undanfarin ár þar til veittar [verði] leiðbeiningar um annað“.

Samkvæmt kvörtuninni er afstaða yðar sú að Reykjavíkurborg hafi með tilkynningunni verið veitt undanþága frá því að skila ársreikningi í samræmi við lög án þess að ráðuneytið hafi til þess lagaheimild. Af kvörtuninni verður ekki annað ráðið en að hagsmunir yðar af því að kvarta til umboðsmanns Alþingis yfir þessu byggist á að þér séuð aðalmaður í endurskoðunarnefnd borgarinnar og að innan skamms verði ársreikningur hennar lagður fram til samþykktar kjörinna fulltrúa.

Í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um hlutverk umboðsmanns. Þar segir meðal annars að hlutverk hans sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt „borgaranna“ gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að stjórnvöld geti ekki kvartað við umboðsmann yfir ákvörðunum og athöfnun annarra stjórnvalda eða óskað lögfræðilegs álits umboðsmanns á máli. Þá segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi geti þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Sé umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. frumvarpsins. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.)

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að efni fyrrnefndrar tilkynningar snerti hagsmuni yðar umfram hagsmuni annarra íbúa landsins, nema að því marki sem hún snertir þá opinberu hagsmuni sem tengjast störfum yðar í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Eins og rakið er að framan er hins vegar ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður Alþingis fjalli um ágreining milli stjórnvalda í tilefni af kvörtun frá stjórnvaldi. Hið sama á að jafnaði við um kvartanir frá einstaklingum sem varða aðeins þá opinberu hagsmuni sem tengjast störfum þeirra í stjórnsýslunni. Þar sem ekki verður ráðið að annað eigi við um kvörtun yðar brestur lagaskilyrði til að umboðsmaður taki hana til meðferðar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Ég vek hins vegar athygli yðar á að samkvæmt 5. gr. laganna getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þá segir að hann geti jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Í samræmi við það sem kemur fram í athugasemdum við 4. gr. í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1997 og rakið er hér að framan lít ég á kvörtun yðar sem ábendingu um mál sem þér teljið tilefni fyrir umboðsmann til að taka til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar 5. gr. laganna. Henni, eins og öðrum ábendingum sem berast umboðsmanni Alþingis, verður haldið til haga.

Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis þá er verklagið þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildarinnar. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar og lýk ég því athugun minni á henni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson