Póst- og fjarskiptamál. Póstþjónusta.

(Mál nr. 11050/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem framlag ríkisins til Íslandspósts ohf. vegna alþjónustu á árinu 2020 var ákveðin.

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar snerti hvorki beinlínis hagsmuni eða réttindi félagsins sem kvartaði né var kvörtunin lögð fram á grundvelli sérstaks umboðs frá aðila sem ákvörðunin varðaði. Ekki voru því uppfyllt skilyrði laga til að umboðsmaður tæki málið til meðferðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 23. apríl sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1/2021 frá 16. febrúar sl. Með henni ákvað stofnunin framlag ríkisins til Íslandspósts ohf. vegna alþjónustu á árinu 2020.

Af kvörtuninni sem og gögnum sem fylgdu henni verður ráðið að afstaða A sé að ákvörðunin sé meðal annars í andstöðu við 3. mgr. 17. gr. laga nr. 98/2019, um póstþjónustu. Þar kemur fram að gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga, skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Þá liggur fyrir að félagið hefur sömu afstöðu um gjaldskrá Íslandspósts ohf. sem tók gildi 1. janúar 2020. Í úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frá 20. júlí sl. í máli nr. 1/2020 var fjallað um kæru A á þeirri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar að vísa frá kvörtun félagsins yfir gjaldskrá Íslandspósts ohf. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar. Sú niðurstaða byggðist á því að aðeins fjórir af 180 félagsmönnum A gætu átt einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Því væri ekki uppfyllt skilyrði fyrir aðild félagsins um að umtalsverður fjöldi félagsmanna þess ætti einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Félag atvinnurekenda hefur ekki kvartað til umboðsmanns Alþingis yfir þessum úrskurði og ekki liggur fyrir að félagið hafi látið reyna á gildi hans á öðrum vettvangi.

Í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um hlutverk umboðsmanns. Þar segir að hlutverk hans sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1997 kemur meðal annars fram að allir einstaklingar geti kvartað til umboðsmanns og sama gildi um félög. Því næst segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi geti þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Sé umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Að lokum segir að beri maður fram kvörtun fyrir hönd annars aðila skuli skriflegt umboð að jafnaði fylgja kvörtun. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.)

Um hagsmuni A af ákvörðuninni, sem kvartað er yfir, er vísað til þess að félagið sé í forsvari fyrir fyrirtæki sem séu í beinni samkeppni við Íslandspóst ohf. og ákvörðunin hafi því mikil áhrif á hagsmuni þeirra. Samkvæmt því sem liggur fyrir er því ljóst að sú ákvörðun snertir ekki beinlínis hagsmuni eða réttindi A. Af kvörtuninni verður heldur ekki ráðið að hún sé lögð fram á grundvelli sérstaks umboðs frá aðila sem ákvörðunin varðar með framangreindum hætti. Þegar kvörtun berst umboðsmanni Alþingis frá félagi sem byggist á því hlutverki þess að gæta hagsmuna félagsmanna sinna er hverju sinni metið hvort uppfyllt séu skilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar. Með vísan til þess sem er rakið að framan tel ég ekki uppfyllt lagaskilyrði til að þetta mál verði tekið til meðferðar í tilefni af kvörtun Félags atvinnurekenda, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Þess skal jafnframt getið að Póst- og fjarskiptastofnun telur unnt að kæra umrædda ákvörðun til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, eins og leiðbeint er um í niðurlagi ákvörðunarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis að æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þess hafi verið freistað að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar. Þrátt fyrir það er þess getið í kvörtuninni að félagsmenn A séu „ekki aðilar máls að ákvörðuninni“ og því sé þeim ekki unnt að kæra hana til nefndarinnar.

Af þessu tilefni skal þess getið að hagsmunir samkeppnisaðila af ákvörðun kunna að leiða til þess að hann geti átt kæruaðild þrátt fyrir að hann hafi ekki verið aðili máls á lægra stjórnsýslustigi. Ég árétta að með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort félagsmenn A, sem kunna að eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af efni málsins, geti kært umrædda ákvörðun til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Ef þeir ákveða að freista þess geta þeir leitað til umboðsmanns Alþingis að fengnum úrskurði nefndarinnar og verður þá metið hvort uppfyllt séu lagaskilyrði til að taka kvörtun þeirra til meðferðar.

Að lokum skal þess getið að samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þar segir einnig að hann geti jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Í samræmi við það sem kemur fram í athugasemdum við 4. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögunum og rakið er hér að framan lít ég svo á að með kvörtun yðar hafi Félag atvinnurekenda bent á mál sem félagið telur tilefni fyrir umboðsmann að taka til meðferðar að eigin frumkvæði. Þessari ábendingu, eins og öðrum ábendingum sem umboðsmanni Alþingis berast, verður haldið til haga.

Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis þá er verklagið þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildarinnar. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar fyrir hönd Félags atvinnurekenda verði tekin til meðferðar og lýk ég því athugun minni á henni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

      

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson