Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11270/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu landlæknis á erindi.

Samkvæmt upplýsingum frá landlækni mátti ráða að viðkomandi hefði leitað til heilbrigðisráðuneytisins vegna afgreiðslu landlæknis á málinu. Þar sem gert er ráð fyrir að umboðsmaður fjalli að jafnaði ekki um mál sem enn eru til meðferðar hjá stjórnvöldum voru ekki skil­yrði til að hann fjallaði frekar um þetta að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. ágúst sl. þar sem þér gerið athugasemdir við afstöðu landlæknis 10. ágúst sl. Af kvörtun yðar til mín, og þeim gögnum sem henni fylgdu, má ráða að þér hafið lagt fram kvörtun til landlæknis með vísan til 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, vegna meintrar vanrækslu og mistaka eða ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu. Eftir nánari skoðun hafi landlæknir hins vegar talið eðlilegra að líta á erindi yðar sem athugasemdir vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun, sbr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.

Í tilefni af kvörtun yðar til umboðsmanns var landlækni ritað bréf 24. september sl. þar sem óskað var eftir gögnum málsins hjá embættinu auk þess sem farið var fram á tilteknar skýringar á afgreiðslu málsins. Svarbréf barst 14. október sl. og athugasemdir yðar bárust mér 22. sama mánaðar. Þar sem þér hafið fengið afrit af framangreindum bréfum tel ég ekki þörf á að rekja efni þeirra frekar.

Í II. kafla laga nr. 41/2007 er fjallað um kvartanir til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðis­þjónustu. Þá segir í sömu málsgrein að notendum heilbrigðis­þjónustunnar sé jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg. Í 12. gr. eru síðan nánari ákvæði um meðferð landlæknis á kvörtunum samkvæmt þeirri grein, þ.á m. um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til heilbrigðisráðherra.

Ástæða þess að þetta er rakið er sú að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafa lokið umfjöllun sinni um það. Mál skuli því ekki tekið til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum úrskurður æðra stjórnvalds. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða athafnir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórn­kerfis þeirra með kvartanir.

Af áðurnefndu svarbréfi landlæknis má ráða að þér hafið leitað til heilbrigðisráðuneytisins vegna afgreiðslu landlæknis á máli yðar. Í því ljósi og samkvæmt athugasemdum yðar er málið því til skoðunar hjá ráðuneytinu og af hálfu þess hefur verið óskað eftir nánari rökstuðningi frá landlækni fyrir því að kvörtun yðar hafi ekki verið tekin til meðferðar á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007. Þar sem gert er ráð fyrir að umboðsmaður fjalli að jafnaði ekki um mál sem enn eru til meðferðar hjá stjórnvöldum eru ekki skil­yrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins getið þér hins vegar leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.