Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11301/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að synja beiðni um endurupptöku kærumáls.

Nefndin vísaði til þess að kæran hefði borist að liðnum fresti og ekki hefðu verið skilyrði til að taka hana til efnislegrar meðferðar. Þótt umboðsmaður teldi að rökstuðningur nefndarinnar hefði mátt vera fyllri með tilliti til vandaðra stjórnsýsluhátta væri sá annmarki ekki þess eðlis að hann gæfi sér tilefni til nánari athugunar á kvörtuninni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf. 12. september sl. yfir þeirri ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 8. sama mánaðar að synja beiðni félagsins um endurupptöku á kærumáli nr. [...] sem úrskurðað var af hálfu nefndarinnar 15. júlí sl. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við þessa afstöðu nefndarinnar og einnig við það að hún hafi ekki gefið yður kost á að koma á framfæri sjónarmiðum vegna umsagnar Borgarbyggðar um endurupptökubeiðnina. Af kvörtuninni verður einnig ráðið að þér séuð ósáttir við að mál yðar hafi ekki fengið efnislega skoðun hjá nefndinni, en hún vísaði stjórnsýslukæru yðar frá með fyrrgreindum úrskurði.

Samkvæmt því sem greinir í téðum úrskurði nefndarinnar 15. júlí sl. var kæru yðar vísað frá með vísan til þess að hún hefði borist að liðnum kærufresti samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var jafnframt vísað til þess að yður hefði verið leiðbeint um kæru í þeirri ákvörðun sem þér skutuð til nefndarinnar og yður hafði verið send 17. febrúar sl. Þá verður ráðið af úrskurðinum að nefndin hafi hvorki talið uppfyllt skilyrði 1. né 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að taka kæruna til efnislegrar meðferðar að liðnum kærufresti. Með tilliti til vandaðra stjórnsýsluhátta er það álit mitt að rökstuðningur úrskurðarnefndarinnar hefði mátt vera fyllri um þetta atriði. Að virtum þeim gögnum sem fylgdu kvörtun yðar og atvikalýsingu í úrskurðinum tel ég þennan annmarka þó ekki þess eðlis að hann gefi tilefni til nánari athugunar.

Í tilefni af athugasemdum yðar við að beiðni yðar um endurupptöku hafi verið synjað verður að horfa til þess að um endurupptöku stjórnsýslumála er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. sömu málsgreinar.

Í téðri ákvörðun nefndarinnar um synjun endurupptöku kemur fram að þær forsendur sem þér tölduð að leiða ættu til endurupptöku hafi þegar legið fyrir er úrskurðurinn 15. júlí sl. var kveðinn upp. Taldi nefndin þar af leiðandi að fyrrgreindum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku væri ekki fullnægt. Eins og atvik málsins liggja fyrir tel ég ekki nægileg efni til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Eins og málið lá fyrir nefndinni get ég heldur ekki fallist á að henni hafi verið skylt að gefa yður kost á að gera sérstakar athugasemdir við umsögn Borgarbyggðar um endurupptökuþátt málsins.

Með vísan  til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.