Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11307/2021)

Kvartað var yfir að Skipulagsstofnun og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefðu ekki brugðist við erindi vegna stjórnsýslu Kópavogsbæjar.

Í ljósi viðbragða Skipulagsstofnunar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns, þar sem brugðist var við erindinu taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar 13. september sl., en með því fylgdi bréf yðar 8. apríl sl. til Skipulagsstofnunar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna stjórnsýslu Kópavogsbæjar. Í erindinu gerðuð þér athugasemdir við að ekki hefði verið brugðist við bréfinu, auk þess sem þér óskuðuð eftir fundi með mér um málið.

Líkt og kom fram í símtali yðar við starfsmann minn 23. september sl. var í tilefni af erindi yðar ákveðið að rita Skipulagsstofnun og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu bréf áður en framhald málsins yrði ákveðið. Í bréfum til stjórnvaldanna 24. sama mánaðar var óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig brugðist hefði verið við áðurnefndu bréfi yðar.

Mér bárust svör frá ráðuneytinu með bréfi 8. október sl. þar sem m.a. kom fram að það hefði upplýst yður um afstöðu þess sem nánar var rakin í bréfinu. Þá barst mér svarbréf Skipulagsstofnunar 25. sama mánaðar, en með því fylgdu afrit af bréfum til yðar og sveitarfélagsins, dags. sama dag. Í síðarnefnda bréfinu, sem ráðið verður að þér hafið verið sent afrit af, kom fram að stofnunin óskaði eftir skýringum Kópavogsbæjar á tilteknum þætti málsins. Þá vísaði stofnunin öðrum þáttum málsins til úrlausnar ráðuneytisins í bréfi hennar til yðar, en ráðuneytið fékk sent afrit af því. 

Í ljósi þess að erindi yðar til mín laut einkum að því að umrædd stjórnvöld hefðu ekki brugðist við bréfi yðar og þar sem nú liggur fyrir að málið er að hluta til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, auk þess sem ráðuneytið hefur boðað athugun á því, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu. Það skal þó áréttað að þér getið leitað aftur til mín ef þér teljið að síðar gefist tilefni til þess.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á erindi yðar frá 13. september sl., sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.