Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11334/2021)

Kvartað var yfir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefði ekki virt munnlegt samkomulag við viðkomandi.

Lögreglustjórinn lýsti þeirri afstöðu sinni að ekki væri rétt að samkomulagið hefði komist á. Þar sem ekki varð ráðið af fyrirliggjandi gögnum hver málsatvik hefðu verið taldi umboðsmaður að það yrði að vera hlutverk dómstóla að leysa úr ágreiningnum kysi viðkomandi að fylgja málinu eftir.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. október sl. er lýtur að því að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi ekki virt munnlegt samkomulag við yður um að veita yður tiltekið starf.

Í tilefni af kvörtuninni var lögreglustjóranum ritað bréf 19. október sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði um hvort rétt væri að áðurnefnt samkomulag hefði komist á, auk þess sem óskað var eftir því að afrit af öllum gögnum um framangreint yrðu afhend. Í svari lögreglustjórans 2. nóvember sl. er þeirri afstöðu lýst að ekki sé rétt að samkomulagið hafi komist á.

Af framangreindu leiðir að ágreiningur er um hvort téð samkomulag hafi komist á, en í ljósi ákvæða laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru verulegar takmarkanir á því að umboðsmaður geti tekið afstöðu til mála þar sem málsatvik eru umdeild. Af hálfu umboðsmanns hefur verið litið svo á að það verði fremur að vera verkefni dómstóla, sem eru betur í stakk búnir til að leysa úr álitaefnum um hvað teljist sannað, og þá að því marki sem það kann að vera nauðsynlegt til að fá leyst úr dómkröfu sem borin er fram á þeim vettvangi. Þar sem ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að ég geti fullyrt um hver málsatvik hafi verið tel ég að það verði að vera hlutverk dómstóla að leysa úr þeim ágreiningi sem kvörtun yðar lýtur að, ef þér kjósið að fylgja máli yðar frekar eftir. Í þessu sambandi skal áréttað að ég hef þó enga afstöðu tekið til þess hvort rétt sé af yðar hálfu að leggja málið fyrir dómstóla.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.