Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11336/2021)

Kvartað var yfir að ríkislögreglustjóri hefði ekki svarað beiðni um rökstuðning fyrir ráðningu í starf.

Í ljós kom að starfsmaður ríkislögreglustjóra sem fékk beiðnina senda hafði hætt störfum og tæknileg mistök orðið til að hlutaðeigandi fékk ekki leiðbeiningar um hvert ætti að beina erindinu. Því hefði nú  verið svarað. Ekki var því tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. október sl. yfir því að beiðni yðar 26. ágúst sl. um rökstuðning fyrir ákvörðun ríkislögreglustjóra um ráðningu í tiltekið starf, þar sem þér voruð meðal umsækjenda, hafi ekki verið svarað.

Í tilefni af kvörtun yðar var þess óskað að ríkislögreglustjóri upplýsti hvort erindi yðar hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Mér hefur nú borist svarbréf 4. nóvember sl. þar sem fram kom að starfsmaðurinn, sem þér senduð beiðnina um rökstuðning til, hafði hætt störfum og tæknileg mistök hefðu orðið til þess að yður barst ekki sjálfvirkt svar með upplýsingum og leiðbeiningum um hvert ætti að beina erindinu. Jafnframt kom fram að embættið myndi leitast við að koma í veg fyrir að slíkt gæti gerst aftur og að yður hefði nú verið svarað. 

Í ljósi þess að ríkislögreglustjóri hefur nú svarað erindi yðar tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna málsins og læt athugun minni lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.