Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11363/2021)

Kvartað var yfir heilbrigðisþjónustu vegna slyss árið 1978.

Landlæknir hafði vísað erindinu frá á þeim forsendum að meira en tíu ár væru liðin frá því atvikin gerðust. Þar sem þess hafði ekki verið freistað að kæra þá ákvörðun til heilbrigðisráðherra hafði kæruleið ekki verið tæmd. Þar með brast lagaskilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. október sl. yfir heilbrigðisþjónustu vegna slyss árið 1978. Líkt og fram kemur í erindi yðar og meðfylgjandi gögnum vísaði landlæknir máli yðar frá 22. október sl. með vísan til 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Í því ákvæði er kveðið á um að séu meira en tíu ár liðin frá því að atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar til landlæknis sé honum rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að kvörtun sé tekin til meðferðar. Samkvæmt 6. mgr. 12. gr. sömu laga er heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til heilbrigðisráðherra.

Ástæða þess að þetta er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ekki liggur fyrir að þér hafið freistað þess að kæra málsmeðferð landlæknis til heilbrigðisráðherra með vísan til kæruheimildar 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér ákveðið að freista þess að bera málið undir heilbrigðisráðuneytið og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.