Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11364/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun og málsmeðferð við ráðningu í starf hjá Listaháskóla Íslands.

Þar sem skólanum, sem er sjálfseignarstofnun, var komið á fót með einkaréttarlegum gerningi og að ekki verður ráðið að heimild til að ráða starfsfólk feli í sér opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna féll kvörtunarefnið utan starfssviðs umboðsmanns.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. október sl. vegna ákvörðunar og málsmeðferðar við ráðningu í starf [...] Listaháskóla Íslands fyrr á þessu ári.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns að jafnaði til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að þetta er rakið er að í framkvæmd umboðsmanns hefur verið lagt til grundvallar að Listaháskóli Íslands sé ekki hluti af stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga, heldur einkaréttarlegur aðili, og að ákvarðanir skólans um ráðningar í störf séu ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í framangreindum skilningi, sbr. t.d. bréf umboðsmanns 29. febrúar 2000 í máli nr. 2830/1999. Samantekt á efni bréfsins hefur verið birt á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is. Þessi niðurstaða byggist einkum á því að skólanum, sem er sjálfseignarstofnun, var komið á fót með einkaréttarlegum gerningi og að ekki verður ráðið að heimild skólans til að ráða til sín starfsmenn feli í sér opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna þótt um þá ráðningu gildi ákveðnar lagareglur, sbr. einkum VI. kafla laga nr. 63/2006, um háskóla.

Samkvæmt framangreindu fellur kvörtunarefnið ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997. Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. sömu laga.