Fangelsismál.

(Mál nr. 11382/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun forstöðumanns fangelsisins Litla-Hrauni um flutning á öryggisdeild.

Þar sem ákvörðun forstöðumannsins hafði ekki verið skotið til dómsmálaráðuneytisins og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 10. nóvember sl., yfir ákvörðun forstöðumanns fangelsisins Litla-Hrauni, dags. 1. nóvember sama árs, um að flytja yður á öryggisdeild.  

Í upphafi tek ég fram að til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns verður hún að upp­fylla ákveðin lagaskilyrði sem kveðið er á um í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðs­manns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggir á því sjónarmiði að afstaða stjórnvalda til erindis verður að liggja fyrir og stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að í umræddri ákvörðun er tekið fram að samkvæmt 95. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, og 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé heimilt að kæra ákvörðunina til dómsmálaráðneytisins innan þriggja mánaða frá því að yður var tilkynnt um hana, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þér hafið kært ákvörðunina til ráðuneytisins og að úrskurður þess liggi fyrir. Af þeim sökum brestur lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað um málið að svo stöddu á grundvelli kvörtunar yðar. Þér getið hins vegar freistað þess að leita með kæru til dómsmálaráðuneytisins. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég meðferð minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.