Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Heilbrigðismál.

(Mál nr. 10848/2020)

Kvartað var yfir töfum hjá landlækni á afgreiðslu umsóknar um leyfi til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu.

Landlæknir upplýsti umboðsmann um að áformað væri að afgreiða umsóknina innan nokkurra daga og því ekki tilefni til að aðhafast frekar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar fyrir hönd A ehf. til umboðmanns Alþingis sem beinist að landlækni og lýtur að töfum á afgreiðslu á umsókn félagsins um leyfi til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu frá 27. mars 2020.

Í tilefni af kvörtun félagsins var landlækni ritað bréf, dags. 28. desember sl., þar sem óskað var eftir tilteknum upplýsingum vegna málsins. Nú hefur borist bréf frá landlækni, dags. 17. mars sl., þar sem meðal annars kemur fram að með vísan til þess að hinn 17. febrúar sl. hafi legið fyrir staðfesting á öryggisúttekt frá viðurkenndum aðila sem fylgja hafi átt umsókn A ehf. til landlæknis um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu, hafi landlæknir gefið út staðfestingu til A ehf. á veitingu fjarheilbrigðisþjónustu. Jafnframt segir í bréfi landlæknis að unnið sé að afgreiðslu umsóknar A ehf. og vonast sé til að afgreiðslu hennar ljúki innan nokkurra daga.

Í ljósi þess að kvörtun félagsins laut að töfum á afgreiðslu umsóknar þess um leyfi til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu og  landlæknir hefur upplýst um þau áform að afgreiða hana innan nokkurra daga tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna hennar. Ég hef þó sent landlækni ábendingu um tiltekin atriði með bréfi sem fylgir hér í ljósriti til upplýsingar. Ég tek jafnframt fram að gangi áform  landlæknis um afgreiðslu umsóknarinnar ekki eftir er félaginu frjálst að leita til mín á nýjan leik.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson