Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 10991/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Menntasjóðs námsmanna um að synja beiðni um að fella niður námslán.

Af gögnum varð ekki ráðið að ákvörðunin hefði verið kærð til sérstakrar málskotsnefndar og þar með ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar f.h. A eiginmanns yðar, dags. 15. mars sl., yfir ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna um að synja beiðni yðar um að námslán A verði felld niður. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni er A með Alzheimers-sjúkdóminn og hefur hann ekki haft launatekjur síðastliðin fjögur ár.

Af gögnum málsins má ráða að stjórn Menntasjóðs námsmanna hafi synjað beiðni yðar með bréfi, dags. 30. október 2020, á þeim grundvelli að sjóðurinn hefði ekki lagaheimild til að fella niður lán í einstaka tilfellum. Í framhaldinu var yður meðal annars leiðbeint um að þér gætuð óskað eftir undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Þá var athygli yðar vakin á því að ákvörðun Menntasjóðs námsmanna væri kæranleg til sérstakrar málsskotsnefndar, sbr. 32. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna. Tekið var fram að kæran yrði að berast innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfsins, sbr. skilyrði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeim gögnum sem bárust með kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið kært ofan­greinda synjun til málsskotsnefndarinnar.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta lagaákvæði er m.a. reist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er með kvörtun til aðila á borð við umboðsmann Alþingis sem stendur utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindu leiðir að almennt getur ákvörðun stjórnvalds ekki komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald, sem unnt er að skjóta henni til, hefur a.m.k. fengið tækifæri til að taka afstöðu til hennar og eftir atvikum leiðrétta hana ef tilefni er til þess.

Í ljósi þess að ákvörðun Menntasjóðs námsmanna er dagsett 30. október 2020 er ljóst að þriggja mánaða frestur til að kæra ákvörðunina er liðinn. Af þeim sökum tek ég fram að ég hef litið svo á að regla 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 gildi jafnframt um þau tilvik þar sem kærufrestur hefur liðið án þess að kæruheimild hafi verið nýtt, nánar tiltekið að umboðsmanni sé ekki heimilt að taka mál til athugunar á grundvelli kvörtunar þegar sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórnvalds en kærufrestur hefur liðið án þess að kæra hafi komið fram.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti fjallað um erindi yðar og lýk ég því meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson