Fjöleignarhús. Andmælaréttur.

(Mál nr. 11355/2021)

Kvartað var yfir áliti kærunefndar húsamála sem komst að þeirri niðurstöðu að viðkomandi væri óheimilt að leggja og/eða geyma húsbíl á sameiginlegum bílastæðum fjöleignarhúss. Álitið hefði ekki verið byggt á réttum og öruggum heimildum þar sem viðkomandi hefði ekki notið andmælaréttar.

Ágreiningur um hvort leggja má eða geyma húsbílinn á ofangreindum stæðum er einkaréttarlegur og féll því ekki sem slíkur undir starfssvið umboðsmanns. Hvað andmælaréttinn snerti gaf kærunefndin viðkomandi í tvígang kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ekki varð því annað séð en tækifæri hefði gefist til að koma athugasemdum á framfæri. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til nánari athugunar á kvörtuninni. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar frá 19. október sl. yfir áliti kærunefndar húsamála frá 31. ágúst sl. í máli nr. [...]. Þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að yður væri óheimilt að leggja og/eða geyma húsbíl yðar í sameiginlegum bílastæðum við fjöleignarhúsið að [...] í Reykjavík en krafa þess efnis kom frá húsfélaginu.

Í erindi yðar er óskað eftir því að álit nefndarinnar verði ógilt þar sem yður hafi ekki verið veittur andmælaréttur. Teljið þér að álitið hafi ekki verið byggt á réttum og öruggum heimildum vegna þessa. Þá er jafnframt óskað eftir því að tekið verði til nánari skoðunar hvort álit nefndarinnar stangist á við lög.

  

II

Framangreindur ágreiningur, þ.e. hvort yður sé heimilt að leggja og/eða geyma húsbíl yðar í sameiginlegum bílastæðum við fjöleignarhúsið, er einkaréttarlegur og fellur sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfs­­­svið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga auk starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús, var farin sú leið að stofna til sjálfstæðrar kærunefndar sem eigendur fjöleignarhúsa geta leitað til með ágreiningsmál sín og fengið rökstutt álit. Í 3. mgr. 80. gr. laganna segir að kærunefndin skuli gefa gagnaðila kost á að tjá sig og koma sjónarmiðum sínum og kröfum á framfæri. Skuli gefa honum stuttan frest í því skyni. Telji kærunefndin að lög nr. 26/1994 hafi verið brotin og að á rétt aðila sé hallað beinir hún tilmælum til gagnaðila um úrbætur, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ekki er því um það að ræða að kærunefndin kveði upp úrskurði sem eru bindandi fyrir aðila. Þá er tekið fram að aðilar geti lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laganna. Um málsmeðferð nefndarinnar eru nánari ákvæði í reglugerð nr. 1355/2019, um kærunefnd húsamála.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 er það hlutverk umboðs­manns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum. Kærunefnd húsamála er sem slík hluti af stjórnsýslu ríkisins en úrlausnir hennar samkvæmt 80. gr. laga nr. 26/1994 eru ekki stjórnvalds­ákvarðanir og falla ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Þar sem nefndin er hluti af stjórnsýslu ríkisins ber henni hins vegar að gæta almennra stjórnsýslureglna í störfum sínum eftir því sem við getur átt.

Í ljósi þess sem að framan segir um stöðu nefndarinnar og eðli þess ágreinings sem hún fjallar um beinist eftirlit umboðsmanns Alþingis með störfum nefndarinnar fyrst og fremst að því hvort hún hafi við úrlausn einstakra mála gætt þeirra almennu stjórnsýslureglna sem við eiga í hverju tilviki, hinna sérstöku reglna sem settar hafa verið um störf nefndarinnar og að hún hafi að öðru leyti hagað störfum sínum í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.     Að því marki sem úrlausn nefndarinnar í einstöku máli byggist á mati á atvikum er umboðsmaður almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar liggi fyrir að nefndin hafi við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu.

  

III

Kvörtun yðar beinist fyrst og fremst að því að álit nefndarinnar hafi ekki verið byggt á réttum og öruggum heimildum þar sem yður hafi ekki verið veittur andmælaréttur.

Í áliti nefndarinnar kemur fram að húsfélagið að [...] hafi óskað eftir álitsbeiðni með bréfi 15. apríl sl. Þá verður ráðið að í framhaldinu hafi yður verið gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum yðar og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 sem þér gerðuð 28. apríl sl. Í tilefni af því að frekari athugasemdir bárust frá álits­beiðanda 12. maí sl. var yður gefinn kostur á að koma að frekari athuga­semdum með bréfi 14. sama mánaðar.

Í kvörtun yðar til mín kemur m.a. fram að í framangreindu bréfi kærunefndar húsamála frá 14. maí sl. hafi yður verið veittur frestur til 17. sama mánaðar. Bréfið hafi hins vegar ekki verið póstlagt fyrr en síðarnefnda daginn og ekki borist yður fyrr en þremur dögum síðar. Þá hafi bréfið verið póstlagt en ekki sent með tölvupósti eins og fyrra bréf.

Líkt og það sem hér hefur verið rakið ber með sér gaf kærunefnd húsamála yður tvívegis kost á að koma sjónarmiðum yðar á framfæri, annars vegar í tilefni af álitsbeiðninni og hins vegar athugasemdum álitsbeiðanda. Það verður því ekki annað séð en að málsmeðferðin hafi að þessu leyti uppfyllt þær lágmarkskröfur sem kveðið er á um í 80. gr. laga nr. 26/1994, sbr. einnig ákvæði áðurnefndrar reglugerðar nr. 1355/2019. Sem fyrr greinir liggur ekki annað fyrir en að fresturinn samkvæmt bréfi nefndarinnar 14. maí sl. hafi verið liðinn þegar bréfið barst yður. Þrátt fyrir það tel ég að líta verði til þess að bréfið barst yður aðeins þremur dögum eftir að téður frestur var liðinn og málið var ekki leitt til lykta fyrr en á fundi nefndarinnar 31. ágúst sl. Það verður því ekki annað séð en að þér hafið getað komið athugasemdum yðar á framfæri ef þér tölduð tilefni til þess, eftir atvikum að undangenginni beiðni um að kærunefndin veitti yður lengri frest, sbr. til hliðsjónar þá almennu reglu sem hefur lögfest í 2. mgr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir að aðili máls geti á hvaða stigi málsmeðferðar sem er krafist þess að afgreiðslu máls sé frestað uns honum hefur gefist tími til þess að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Máli skuli þó ekki frestað hafi það í för með sér að farið sé fram úr lögmæltum fresti til afgreiðslu málsins.

Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna tel ég ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á kvörtun yðar og lýk því umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.