Stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði. Heimagisting.

(Mál nr. 10995/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, að leggja á stjórnvaldssekt að fjárhæð 300.000 kr. vegna óskráðrar gististarfsemi í Reykjavík, sem atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið staðfesti.

Að virtum atvikum máls og rökstuðningi ráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka ákvörðun sýslumannsins eða úrskurðinn til frekari athugunar. Þá væri ekki tilefni til að gera athugasemdir hvað snerti fjárhæð sektarinnar enda ljóst af úrskurðinum að við ákvörðun fjárhæðarinnar var tekið mið af umfangi gististarfseminnar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar sem þér hafið komið á framfæri f.h. umbjóðanda yðar, A, og lýtur að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 26. október 2018 að leggja á umbjóðanda yðar stjórnvaldssekt að fjárhæð 300.000 kr. vegna óskráðrar gisti­starfsemi í Reykjavík. Með úrskurði frá 23. mars 2020 staðfesti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þá ákvörðun sýslumanns.

Eftir því sem fram kemur í úrskurði ráðuneytisins og stjórn­sýslu­kæru virðist óumdeilt að umbjóðandi yðar hafði í samstarfi við fyrir­tækið X með höndum óskráða gististarfsemi að [...] í Reykja­vík að minnsta kosti frá og með júlí 2018. Eftir skoðun sýslumanns á vettvangi 10. október 2018 mun umbjóðanda yðar hafa verið tilkynnt með bréfi frá 11. sama mánaðar að fyrirhugað væri að leggja á hann stjórnvaldssekt að upphæð 300.000 kr. vegna starfseminnar á grundvelli 1. mgr. 22. gr. a. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald. Þegar atvik málsins áttu sér stað hljóðaði ákvæðið svo:

„Sýslumaður getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar skv. 13. gr., stundar útleigu lengur en 90 daga á hverju almanaksári eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt.“

Af kvörtuninni verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við túlkun og beitingu ákvæðisins af hálfu sýslumanns í málinu, þ.e. að því leyti að það húsnæði sem umbjóðandi yðar nýtti undir starfsemina hafi ekki uppfyllt skilyrði til skráningar heimagistingar. Þar með hafi ekki verið um heimagistingu að ræða. Í ljósi orðalags 1. mgr. 22. gr. a., þ.e. að þar er einungis vísað til þess að sekta megi þann sem reki heimagistingu án skráningar, eigi ákvæðið ekki við um gististarfsemi umbjóðanda yðar. Fyrir liggur að sýslumaður synjaði 26. október 2018 beiðni umbjóðanda yðar um skráningu heimagistingar. Í úrskurði ráðuneytisins kemur að þessu leyti eftirfarandi fram:

„[...] félag í eigu kæranda sótti einnig um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II með umsókn dags. 19. október 2018. Með bréfi dags. 30. nóvember 2018 synjaði sýslumaður umsókn kæranda með vísan til neikvæðrar umsagnar Reykjavíkurborgar. Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að gististaðurinn sé staðsettur í íbúðarbyggð Íb11, þar sem óheimilt sé að reka gististað í flokki II.

Hefur ákvörðun sýslumanns um synjun rekstrarleyfis ekki verið hnekkt. [...] Ráðuneytið tekur því undir með sýslumanni að kærandi geti ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki stundað heimagistingu eingöngu á þeim grundvelli að húsnæðið hafi brostið lagaskilyrði til skráningar starfseminnar.“

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 er heimagisting „gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu.“ Í 13. gr. er mælt fyrir um skráningarskyldu vegna heimagistingar. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal hver sem hyggst bjóða upp á heimagistingu í samræmi við 1. mgr. 3. gr., hvort sem um er að ræða lögheimili eða aðra fasteign viðkomandi, tilkynna það sýslumanni. Við skráningu ber aðila að stað­festa að viðkomandi húsnæði uppfylli kröfur um brunavarnir, hafi hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta.

Í 3. mgr. 3. gr. er kveðið á um að sýslumaður úthluti við skráningu heimagistingar aðila skráningarnúmeri og ber aðila að nota númerið í allri markaðssetningu og kynningu, þ.m.t. á vefsíðum og bókunarsíðum. Þá segir í 2. mgr. 22. gr. laganna að hver sá sem rekur heimagistingu án skráningar skuli sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Ofangreind ákvæði laga nr. 85/2007 bættust við lögin við gildistöku laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007, en með þeim voru gerðar margvíslegar breytingar á fyrirkomulagi heimagistingar. Af athuga­semdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 67/2016 verður ráðið að tilefni þeirra breytinga hafi m.a. verið að bregðast við fjölda óskráðra gististaða. Þá kemur eftirfarandi fram í athugasemdum við b-lið 1. gr. frumvarpsins, sem varð 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna:

„Í b-lið greinarinnar er breyting á skilgreiningu heima­gistingar. Samkvæmt gildandi lögum er heimagisting skilgreind sem gisting á heimili leigusala gegn endurgjaldi. Ekki hefur verið ljóst af lagaákvæðinu hvort krafa er gerð um lögheimili leigusala eður ei en með breytingu þessari er sá skilningur festur í sessi. Í því felst að til þess að um heimagistingu sé að ræða verði hið leigða húsnæði að vera lögheimili einstaklings. Þá er enn fremur bætt við skilgreiningu á flokknum og heimilað að einstaklingar leigi einnig út eina aðra fasteign sem er í persónulegum notum og í eigu viðkomandi einstaklings. Er þannig komið til móts við þá aðila sem eiga t.d. tiltekið lögheimili og síðan aðra fasteign, svo sem sumarhús eða íbúð til nota í frítíma, en nokkuð algengt er að einstaklingar eigi tvær fasteignir. Þess ber að geta að markmið ákvæðisins er að veita einstaklingum heimild til takmarkaðrar útleigu á annarri fasteign en lögheimili og er þá átt við eign sem getur verið í öðru sveitarfélagi en lögheimili, í öðrum þéttbýliskjarna eða öðru póstnúmeri þó að ekki sé það beint skilyrði. Skilyrt er hins vegar að um sé að ræða fasteign sem eigandi hefur persónuleg not af, þ.e. að eignin sé ekki notuð í atvinnuskyni.“ (Sjá þskj. 731 á 145. löggjafarþingi 2015-2016.)

Af ofangreindum ákvæðum laga nr. 85/2007, eins og þau voru þegar atvik málsins áttu sér stað, og að virtum athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 67/2016, og þá einkum við b-lið 1. gr., virðist ljóst að skráning er forsenda þess einstaklingur geti rekið heima­gistingu sem er í samræmi við ákvæði laganna. Líkt að ofan greinir virðist ágreiningslaust að umbjóðandi yðar hafði með höndum gisti­starf­semi án þess að hún væri skráð. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 22. gr. a. varðar það sektum.

Að þessu gættu, og að virtum þeim rökstuðningi sem fram kemur í úrskurði ráðuneytisins, tel ég ekki tilefni til að taka ákvörðun sýslu­manns um álagningu stjórnvaldssektar eða úrskurð ráðuneytisins til frekar athugunar. Þá tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þau atriði sem fram koma í kvörtuninni og lúta að fjárhæð sektar­innar. Í því sambandi vísa ég til þess að af úrskurðinum er ljóst að við ákvörðun fjárhæðarinnar tekið var mið af umfangi gististarfseminnar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson