Foreldrar og börn. Rökstuðningur úrskurðar í forsjármáli. Forsjá til bráðabirgða. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Andmælaréttur. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 640/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 20. apríl 1993.

A kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um forsjá barna hans til bráðabirgða. Eiginkona A, B, hafði krafist skilnaðar að borði og sæng og var þeim veittur skilnaðurinn með úrskurði, jafnframt því, að úrskurðað var um forsjá barnanna. Kvörtun A var þríþætt.

Í fyrsta lagi kvartaði A yfir því, að málið hefði ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt. Umboðsmaður tók fram, að ekki yrðu gerðar jafn strangar kröfur um rannsókn til undirbúnings bráðabirgðaráðstafana á borð við skipan forsjár til bráðabirgða og almennt gilti um rannsókn stjórnsýslumáls. Stafaði það af eðli ákvörðunar og tímabundnu gildi hennar svo og af nauðsyn sérstaks málshraða. Með tilliti til þeirra gagna og upplýsinga, sem aflað hafði verið, áður en umræddur úrskurður var upp kveðinn, taldi umboðsmaður, að rannsóknin hefði verið viðhlítandi, enda yrði ekki séð, að sérstakar ástæður hefðu legið fyrir, sem krafist hefðu ítarlegri rannsóknar.

Í öðru lagi kvartaði A yfir því, að hann hefði ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins, þ. á m. læknisvottorðum. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið studdi niðurstöðu sína m.a. við það, að A hefði átt við geðræn veikindi að stríða. Umboðsmaður vísaði til skýrslu sinnar fyrir árið 1989 bls. 68-71, þar sem fjallað væri um skyldu stjórnvalda til að kynna foreldrum gögn í forsjármálum og rakti almennar reglur um aðgang að upplýsingum og gögnum. Þá gerði hann grein fyrir þýðingu geðrænna haga foreldris í forsjármálum og tók fram, að skilja yrði rökstuðning í úrskurði ráðuneytisins svo, að upplýsingar um þetta hefðu skipt máli fyrir niðurstöðu málsins. Slíkar upplýsingar um heilsufar A, sem aðeins snertu hann sjálfan, hafi verið honum í óhag og verið til þess fallnar að hafa verulega þýðingu við úrlausn málsins. Því yrði að telja, að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefði borið að kynna A upplýsingarnar, svo að hann ætti kost á að gæta réttar síns. Hefðu upplýsingarnar meðal annars getað gefið honum tilefni til að afla sér læknisvottorðs um heilbrigði sína og hæfni til að fara með forsjá barna sinna.

Í þriðja lagi taldi A, að rökstuðningur úrskurðar ráðuneytisins stæðist ekki, þar sem hann væri byggður á því að hann ætti við geðræn veikindi að stríða. Umboðsmaður vísaði til umfjöllunar í skýrslu sinni fyrir árið 1989, bls. 70-71, um rökstuðning úrskurða í forsjármálum. Umboðsmaður mat umræddan úrskurð í ljósi krafna um rökstuðning og taldi hann uppfylla þau skilyrði, sem gera yrði til þess háttar úrskurða, þegar tillit væri tekið til þess, að um var að ræða úrskurð um forsjá til bráðabirgða. Þá yrði ekki séð, að úrskurðurinn hefði verið byggður á röngum forsendum eða ólögmætum sjónarmiðum.

I. Kvörtun.

Hinn 24. júlí 1992 leitaði til mín A, og kvartaði yfir úrskurði, sem kveðinn var upp í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 30. júní 1992 um forsjá barna hans til bráðabirgða. Taldi A sig ekki hafa fengið aðgang að öllum gögnum málsins, þ. á m. læknisvottorðum. Þá taldi hann, að málið hefði ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt, áður en ákvörðun var tekin í málinu. Loks taldi hann, að rökstuðningur úrskurðarins stæðist ekki, þar sem úrskurðurinn væri byggður á því, að hann hefði átt við geðræn veikindi að etja.

II. Málavextir.

Hinn 15. apríl 1992 krafðist eiginkona A, B, skilnaðar að borði og sæng hjá borgardómaraembættinu í Reykjavík. Þá krafðist hún meðal annars forsjár barna þeirra hjóna. Samkvæmt bókun fulltrúa yfirborgardómarans í Reykjavík í hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur var A boðaður til fyrirtöku með bréfi, dags. 21. apríl 1992, 12. maí og síðast 20. maí, en A fékkst ekki til að hlýða á kröfur eiginkonu sinnar og taka afstöðu til þeirra. Hinn 26. maí 1992 var málið sent dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til ákvörðunar og skiptarétti Reykjavíkur til búskipta.

Með bréfi, dags. 21. apríl 1992, gerði B kröfu um að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fæli henni forsjá barna þeirra til bráðabirgða, sbr. 2. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 9/1981. Með bréfi hennar fylgdi bréf Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, dags. 13. apríl 1992. Í því segir meðal annars:

"Það er mat undirritaðs og [Y], að starfsmenn Félagsmálastofnunar geti ekki mælt með flutningi barnanna til föður að svo komnu máli. Það verður að skoðast í ljósi heilsufarssögu föður er átt hefur við geðræn veikindi að stríða og er 75% öryrki vegna þeirra. Í viðtölum við starfsmenn Félagsmálastofnunar hefur hann virst mjög ör og tætingslegur."

Með bréfi, dags. 22. apríl 1992, gerði A einnig kröfu um að fá bráðabirgðaforsjá barnanna. Samkvæmt gögnum málsins var A kynnt krafa konunnar um forsjá barna þeirra til bráðabirgða hinn 20. maí 1992, þegar hann var staddur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu af öðru tilefni. Var honum þá boðið að koma til viðtals um hjónaskilnaðarmálið og kröfuna um forsjá barna þeirra til bráðabirgða. Í minnisblaði starfsmanns ráðuneytisins er skráð, að A hafi svarað því til, að það myndi hann ekki gera, "þar sem hann ætlaði ekki að ræða við löglærða aðila í tengslum við málið þar sem þeim væri ekki að treysta".

Með vísan til læknisvottorðs [...], dags. 1. júní 1992, og á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga, samþykkti dóms- og kirkjumálaráðuneytið hinn 1. júní 1992, að A yrði gegn vilja sínum vistaður á sjúkrahúsi til meðferðar.

Hinn 16. júní 1992 var A afhent svohljóðandi bréf ráðuneytisins:

"Ráðuneytið hefur til meðferðar kröfu eiginkonu yðar [B] um skilnað að borði og sæng. Jafnframt hefur ráðuneytið til meðferðar kröfu konunnar um að henni verði falin forsjá barna ykkar... til bráðabirgða.

Jafnframt því að senda yður í ljósriti bréf [X] hdl., dags. 21. apríl 1992, og endurrit úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur, dags. 15. apríl, 18. og 26. maí sl., er þess hér með farið á leit, að þér gerið ráðuneytinu grein fyrir afstöðu yðar til eftirtaldra atriða:

1. Skilnaðarkröfu konunnar.

2. Kröfu konunnar um að henni verði til bráðabirgða falin forsjá barnanna.

3. Kröfu konunnar um að henni verði falin endanleg forsjá barnanna.

4. Meðlagsgreiðslna með börnunum.

5. Lífeyriskröfu konunnar.

6. Eignaskipta.

Er yður hér með gefinn frestur til þess að tjá yður skriflega um ofangreind atriði við ráðuneytið til 25. júní nk. en að þeim tíma liðnum verður mál þetta tekið til afgreiðslu."

Með bréfi, dags. 24. júní 1992, gerði A dóms- og kirkjumálaráðuneytinu grein fyrir afstöðu sinni til málsins.

Með úrskurði, uppkveðnum 30. júní 1992, var B og A veittur skilnaður að borði og sæng. Jafnframt var B falin forsjá barna þeirra til bráðabirgða með úrskurði uppkveðnum sama dag.

Þar sem A og B voru ekki sammála um að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skæri úr ágreiningi þeirra um framtíðarskipan forsjár barna þeirra, báru þau málið undir dómstóla.

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 27. júlí 1992 óskaði ég þess með bréfi, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið léti mér í té gögn málsins og veitti mér upplýsingar um, hvaða gögn hefðu verið afhent A.

Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 28. september 1992. Þar segir meðal annars:

"1. Aðgangur mannsins að gögnum málsins.

Ráðuneytið getur ekki fallist á, að maðurinn hafi ekki fengið aðgang að öllum þeim gögnum, sem úrskurður þess er byggður á. Honum voru kynnt öll þau gögn, er ráðuneytið hafði undir höndum og vörðuðu forsjárágreining hans og konunnar. Ráðuneytið kynnti honum hins vegar ekki gögn er fylgdu áðurgreindu bréfi lögmanns konunnar, dags. 21. apríl 1992. Gögn þessi eru: Bréf Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar til Félagsmálaráðs [Z-kaupstaðar], dags. 13. apríl 1992, en bréfið ber með sér að manninum hafi verið sent afrit þess, og gögn er varða kyrrsetningu barna hans, enda var manninum kunnugt um kyrrsetningu þeirra.

Ráðuneytið vill sérstaklega taka fram, að engin læknisvottorð eru meðal gagna máls þessa.

2. Rannsókn málsins.

Fram kemur í bréfi yðar, að maðurinn telur að málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt, áður en ákvörðun var tekin í því.

Ráðuneytið bendir í þessu sambandi á, að ákvörðun um bráðabirgðaforsjá er ætlað að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli dvelja meðan á meðferð ágreiningsmáls foreldra um forsjá stendur. Um eiginlega rannsókn máls er því ekki að ræða við slíka ákvörðun, nema sérstaklega standi á. Ákvörðun um bráðabirgðaforsjá, er ávallt byggð á þeim staðreyndum máls er fyrir liggja er ákvörðun er tekin. Oft byggist úrskurður um bráðabirgðaforsjá á því, hjá hvoru foreldra barn/börn hafa dvalið frá samvistarslitum þeirra, enda sé ekkert fram komið er bendi til annars en að þar fari vel um barnið/börnin.

Ráðuneytið taldi, þegar það kvað upp fyrrgreindan úrskurð, málið nægilega vel upplýst til þess að unnt væri að ákveða hjá hvoru foreldra forsjá til bráðabirgða ætti að liggja.

3. Rökstuðningur úrskurðar ráðuneytisins.

Þá kemur fram í bréfi yðar, að maðurinn telur, að rökstuðningur úrskurðar ráðuneytisins standist ekki þar sem hann sé byggður á því, að hann hafi átt við geðræn veikindi að etja.

Eins og fram kemur í úrskurðinum er ákvörðun ráðuneytisins, um að börnin skuli til bráðabirgða lúta forsjá móður, byggð á þeirri staðreynd, að þau hafi dvalið hjá móður frá samvistarslitum foreldra. Það er síðan talið styðja (feitletrun ráðuneytisins) þessa niðurstöðu, að maðurinn hefur átt við geðræn veikindi að etja.

Það var af hlífisemi við báða aðila máls þessa, að niðurstaða ráðuneytisins var byggð á dvöl barnanna hjá móður. Starfsmaður ráðuneytisins, sem fer með mál þetta, sá sér hins vegar ekki annað fært en að víkja að veikindum mannsins, m.a. vegna þess, að eftir er að fjalla um skipan forsjár barnanna til frambúðar. Tilvísun ráðuneytisins til veikinda mannsins í úrskurði þess er ekki byggð á neinum sérstökum gögnum, sem manninum voru ekki kynnt. Tilvísunin er byggð á vitneskju starfsmanna ráðuneytisins um veikindi hans og sú vitneskja er grundvölluð á gögnum, sem fyrir liggja í ráðuneytinu, viðtölum við félagsráðgjafa, sem þekkja málefni aðila málsins og viðtölum við lækni og hjúkrunarfólk, sem annast hafa manninn."

Með bréfi, dags. 9. október 1992, óskaði ég þess, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, að því leyti sem það hefði ekki þegar verið gert í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 28. september 1992. Ég óskaði þess sérstaklega, að ráðuneytið upplýsti, hvort gengið hefði verið úr skugga um það, þegar A voru kynnt gögn máls, að honum hefði borist bréf félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar til félagsmálaráðs X-kaupstaðar, dags. 13. apríl 1992. Þá óskaði ég þess að upplýst yrði, hvort A hefði verið kynnt að fyrir lægju gögn í ráðuneytinu um veikindi hans og honum kynnt efni viðtala við lækni, hjúkrunarfólk og félagsráðgjafa um veikindi hans. Loks óskaði ég þess að send væru þau gögn, sem ráðuneytið hefði um veikindi mannsins og vísað væri til í bréfi ráðuneytisins, dags. 28. september 1992.

Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 17. desember 1992, og segir þar m.a. svo:

"... ekki var gengið sérstaklega úr skugga um, þegar manninum voru kynnt gögn máls, að honum hefði borist afrit bréfs félagsmálastofnunar Reykjavíkur, dags. 13. apríl 1992. Ráðuneytið tekur fram, að það hefur ekki fyrir starfsreglu að kanna það sérstaklega hvort aðilum máls hafi borist bréf eða afrit bréfa. Hvað varðar hið umrædda bréf félagsmálastofnunar, vill ráðuneytið benda á, að á því var ekki byggt í bráðabirgðaforsjárúrskurði ráðuneytisins.

Varðandi síðara atriðið tekur ráðuneytið fram, að manninum var ekki kynnt sérstaklega að fyrir lægju gögn í ráðuneytinu um veikindi hans. Hins vegar vissi maðurinn að gögn varðandi nauðungarvistun hans í sjúkrahúsi hinn 1. júní 1992 lágu fyrir í ráðuneytinu. [...] Ráðuneytið kynnti manninum heldur ekki sérstaklega efni viðtala við lækni, hjúkrunarfólk og félagsráðgjafa. Manninum var hins vegar kunnugt um að ýmsir aðilar, er höfðu með mál hans og konunnar að gera, hefðu að fyrra bragði haft samband við ráðuneyti bæði vegna veikinda hans og forsjárágreinings hans og eiginkonu hans. Undirritaður starfsmaður ráðuneytisins átti nokkrum sinnum viðræður við manninn áður en úrskurður gekk í bráðabirgðaforsjármálinu, bæði símleiðis og eins þegar maðurinn mætti óboðaður í ráðuneytið. Telur starfsmaður sig hafa gert manninum grein fyrir stöðu málsins eins ítarlega og kostur var, þ. á m. gert grein fyrir, að aðilar sem höfðu mál hjónanna til meðferðar hefðu haft samband við ráðuneytið, án þess þó að manninum væri gerð sérstaklega grein fyrir efni hvers samtals fyrir sig.

Í fyrrgreindu bréfi yðar, herra umboðsmaður, dags. 9. október sl., óskið þér eftir því, að ráðuneytið skýri viðhorf sitt til kvörtunar [A], að því leyti sem það var ekki gert í bréfi ráðuneytisins, dags. 28. september sl. Af því tilefni tekur ráðuneytið fram eftirfarandi:

Í máli [A] liggur fyrir að hann hefur átt við geðræn veikindi að etja um árabil og dvalið í sjúkrahúsum vegna þess. Þá liggur einnig fyrir, að maðurinn hafnar því alfarið að hann eigi við geðræn veikindi að stríða, þ.e. hann virðist ekki hafa innsæi í sjúkdóm sinn. Þetta hefur margoft komið fram í viðtölum starfsmanns ráðuneytisins við manninn. Það er því áleitin spurning hvaða tilgangi það hefði þjónað að greina manninum efnislega frá viðtölum er starfsmaður átti við aðila, sem koma að máli hans, um sjúkdóm hans og hegðun sem talin er vera afleiðing sjúkdómsins.

Sem dæmi um samtal er starfsmaður ráðuneytisins átti við aðila er koma að málinu, reyndar það eina sem starfsmaður minnist að hafa átt frumkvæði að, að því er varðar lækna, hjúkrunarfólk og félagsráðgjafa, og manninum var ekki kynnt efnislega, er samtal er starfsmaðurinn átti við lækni hinn 16. júní sl., [...] Þennan dag, þ.e. 16. júní sl., hafði starfsmaðurinn samband símleiðis við lækni á vakt á geðdeild þeirri er maðurinn dvaldi á, en heimild til vistunar hans rann út þann dag. [...] Af þessu samtali fékk starfsmaður ráðuneytisins greinargóðar upplýsingar um heilsufar mannsins [...] Eins og geðrænum högum mannsins var háttað á þessu tímamarki er það mat starfsmanns ráðuneytisins, að það hefði haft takmarkaðan tilgang að kynna manninum samtalið efnislega og reyndar annarra svipaðs efnis.

[...]

Ráðuneytið vill taka fram, að mál þetta var afar erfitt í vinnslu, vegna veikinda mannsins, sem m.a. ollu því, að hann fékkst ekki til að mæta og undirrita formlegar fyrirtökur í hjónaskilnaðarmáli aðila, hvorki hjá embætti yfirborgardómarans í Reykjavík né ráðuneytinu. Hins vegar telur undirritaður starfsmaður sig hafa átt ágætar viðræður við manninn bæði símleiðis og í eigin persónu, þó vissulega hafi gætt hjá honum tortryggni í garð ráðuneytisins, og veitt honum þær upplýsingar er hann óskaði eftir og jafnframt komið á framfæri við hann öllum þeim upplýsingum er hann taldi manninn þurfa að fá vitneskju um.

Að lokum vill ráðuneytið ítreka það, sem fram kemur í bréfi þess hinn 28. september sl., að niðurstaða úrskurðar ráðuneytisins í bráðabirgðaforsjármáli mannsins og eiginkonu hans er fyrst og fremst byggð á þeirri staðreynd, að börnin hafi dvalið hjá móður frá samvistarslitum foreldra og m.a. kyrrsett þar með úrskurðum Félagsmálaráðs [Z-kaupstaðar]. Það studdi hins vegar þá niðurstöðu, að maðurinn hefur átt við geðræn veikindi að stríða.

Að öðru leyti en að ofan greinir, og jafnframt með vísun til fyrrgreinds bréfs ráðuneytisins, dags. 28. september sl., óskar ráðuneytið ekki eftir að skýra frekar viðhorf sitt til kvörtunarinnar."

IV. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 20. apríl 1993, var svohljóðandi:

"1. Rannsókn málsins.

Í fyrsta lagi kvartar A yfir því, að málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt, áður en dóms- og kirkjumálaráðuneytið úrskurðaði hinn 30. júní 1992, að B skyldi falin forsjá barna þeirra til bráðabirgða.

Í 2. mgr. 38. gr. þágildandi barnalaga nr. 9/1981 er kveðið svo á, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið geti ákveðið til bráðabirgða, hvernig fara skuli um forsjá barns foreldra, sem krafist hafa skilnaðar að borði og sæng. Þá segir einnig, að ákvörðun til bráðabirgða bindi ekki hendur handhafa úrskurðarvalds, þegar skipa skuli forsjá barns til frambúðar. Við ákvörðun um bráðabirgðaforsjá skal máli ráðið til lykta eftir sanngirni og því, sem best hentar hag og þörfum barns, sbr. 2. og 1. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 9/1981.

Áður en ákvörðun er tekin í máli, ber stjórnvaldi að sjá til þess að málsatvik séu nægjanlega upplýst, þannig að rétt ákvörðun verði tekin í málinu. Það fer síðan meðal annars eftir eðli og mikilvægi málsins svo og réttarheimild þeirri, sem verður grundvöllur ákvörðunar, hve ítarleg rannsókn þarf að vera. Þegar um er að ræða bráðabirgðaráðstafanir, eins og skipan forsjár til bráðabirgða, sem aðeins er ætlað að gilda á meðan mál er til úrlausnar, verða hins vegar ekki gerðar jafn strangar kröfur um rannsókn til undirbúnings slíkri ákvörðun. Stafar það af eðli ákvörðunar og tímabundnu gildi hennar svo og af því, að mikilvægt er að hún sé tekin sem fyrst við upphaf meðferðar máls.

Með tilliti til þeirra gagna og upplýsinga, sem aflað hafði verið hinn 30. júní 1992, er úrskurður var upp kveðinn, verður að telja rannsókn hafa verið viðhlítandi, enda verður ekki séð að sérstakar ástæður hafi legið fyrir í málinu, sem lögðu skyldu á dóms- og kirkjumálaráðuneytið um ítarlegri rannsókn.

2. Aðgangur að gögnum málsins.

Þá kvartar A yfir því, að hann hafi ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins, þ. á m. læknisvottorðum.

Af gögnum málsins er ljóst, að A voru send helstu gögn málsins með bréfi, dags. 16. júlí 1992. Þá kemur fram í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 17. desember 1992, að starfsmaður ráðuneytisins hafi rætt nokkrum sinnum við A og gert honum "grein fyrir stöðu málsins eins ítarlega og kostur var", eins og segir í fyrrnefndu bréfi. Af kvörtun A að dæma og gögnum málsins virðist því aðeins vera deila um það, hvort átt hafi að kynna honum, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði upplýsingar og gögn um veikindi hans, þar sem til greina gat komið að byggt yrði á þeim.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 28. september 1992 segir, að engin læknisvottorð hafi verið meðal gagna málsins. Tilvísun ráðuneytisins til veikinda mannsins í rökstuðningi úrskurðar ráðuneytisins frá 30. júní 1992 hafi ekki verið byggð á neinum sérstökum gögnum, heldur á vitneskju starfsmanna ráðuneytisins um veikindi hans, sem grundvölluð sé á "gögnum, sem fyrir liggja í ráðuneytinu, viðtölum við félagsráðgjafa... lækni og hjúkrunarfólk, sem annast hafa manninn." Þá segir í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 17. desember 1992, að "manninum [hafi] ekki [verið] kynnt sérstaklega að fyrir lægju gögn í ráðuneytinu um veikindi hans... Ráðuneytið kynnti manninum heldur ekki sérstaklega efni viðtala við lækni, hjúkrunarfólk og félagsráðgjafa."

Heimild til handa aðila til að kynna sér gögn máls, sem er til úrlausnar í stjórnsýslu, byggist meðal annars á því, að hann eigi rétt á að koma að sjónarmiðum sínum, leiðrétta upplýsingar og verja hagsmuni sína, áður en ákvörðun er tekin í máli, sem snertir mikilvæga hagsmuni hans. Eins og nánar greinir í skýrslu minni fyrir árið 1989, bls. 68-71, tel ég að stjórnvaldi, sem fjallar um forsjá barna við skilnað foreldra, sé að lögum skylt að kynna foreldrum þau gögn, sem fyrir liggja hjá því vegna slíkra mála og ber stjórnvöldum að hafa frumkvæði í því efni. Frá þessari grundvallarreglu er sú þrönga undantekning, að þegar sérstaklega stendur á, má takmarka aðgang aðila að gögnum, sem varða viðkvæm einkamál, og þá einkum ef ætla má, að aðgangur að upplýsingum geti reynst barni skaðlegur eða sambandi barns og foreldris, en í slíkum tilvikum ber þá að kynna aðila útdrátt eða niðurstöðu umrædds skjals, komi til greina að á því verði byggt.

Þegar aðila er ókunnugt um, að ný gögn og upplýsingar um málsatvik hafa komið fram í máli hans, og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins, er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en aðila hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Í þessu sambandi er rétt að árétta það, að ekki hefur þýðingu þó að aðila sé kunnugt að upplýsingarnar séu til. Reglan á við, ef aðila er ókunnugt um að umrædd gögn og upplýsingar séu komin fram í máli hans, þannig að til greina komi að byggt verði á þeim í málinu.

Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 9/1981 skal skipan forsjár barna ráðið til lykta eftir sanngirni og því, sem best hentar hag og þörfum barns. Í barnalögum er ekki að finna frekari fyrirmæli um það, hvaða atriði skuli leggja til grundvallar mati á því, hvað henti best hag og þörfum barna. Eitt af þeim atriðum, sem þar verður að leggja til grundvallar, eru geðrænir hagir foreldris. Liggi fyrir í máli, að annað foreldri sé haldið alvarlegum geðsjúkdómi, sem skerði mjög hæfni þess til að fara með forsjá, hlýtur það jafnan að vega þungt við mat á því, hvað telst henta hag og þörfum barnsins. Skiptir í því sambandi ekki máli, hvort verið er að úrskurða forsjá til bráðabirgða eða frambúðar. Fyrir liggur að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafði upplýsingar og gögn um heilsufar A. Skilja verður rökstuðning í úrskurði ráðuneytisins svo, að fyrir niðurstöðu málsins hafi þessar upplýsingar skipt máli. Upplýsingar þessar um heilsufar A, sem snertu aðeins hann sjálfan, voru honum í óhag og til þess fallnar, út frá framangreindum sjónarmiðum, að hafa verulega þýðingu við úrlausn málsins. Verður því að telja, að ráðuneytinu hafi borið að kynna A upplýsingarnar í samræmi við fyrrgreind sjónarmið, svo hann ætti kost á að gæta réttar síns, en upplýsingarnar gátu orðið honum tilefni til þess meðal annars, að afla læknisvottorðs um heilbrigði sína og hæfni til þess að fara með forsjá barna sinna.

3. Rökstuðningur úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um forsjá barnanna til bráðabirgða.

Loks kvartar A yfir því, að rökstuðningur úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 30. júní 1992, standist ekki, þar sem úrskurðurinn sé byggður á því, að hann hafi átt við geðræn veikindi að etja.

Eins og nánar greinir í skýrslu minni fyrir árið 1989, bls. 70-71, tel ég að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu beri að rökstyðja skriflega úrskurði sína í forsjármálum. Í niðurstöðu minni í málinu nr. 596/1992 frá 9. nóvember 1992 hef ég gert grein fyrir þeim kröfum, sem almennt verður að gera til rökstuðnings úrskurða í forsjármálum.

Rökstuðningur í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 30. júní 1992 hljóðar svo:

"Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 9/1981 getur dómsmálaráðuneytið ákveðið til bráðabirgða, hvernig fara skuli um forsjá barns foreldra, sem krafist hafa skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar. Skal, samkvæmt 1. mgr. 38. gr. barnalaga, við þá úrlausn ráða málefni til lykta eftir því sem best hentar hag og þörfum barns.

Í máli þessu liggur fyrir, að drengirnir... hafa frá samvistarslitum foreldra dvalið hjá móður og hafa þeir verið kyrrsettir hjá henni með úrskurðum Félagsmálaráðs [Z-kaupstaðar]. Með vísun til framanritaðs, og þar sem telja verður að best henti hag þeirra og þörfum að móðir fari með forsjá þeirra meðan ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um forsjána, er hér með ákveðið, með heimild í 2. mgr. 38. gr. barnalaga, að drengirnir skuli lúta forsjá hennar til bráðabirgða. Það styður einnig framangreinda niðurstöðu, að maðurinn hefur átt við geðræn veikindi að etja.

Þá er ennfremur, með heimild í 2. mgr. 38. gr. barnalaga, ákveðið, að yngsta barn hjónanna, drengur sem fæddur er hinn [...] 1992, skuli lúta forsjá móður til bráðabirgða, þar til endanleg ákvörðun hefur verið tekin um forsjá þess.

Úrskurðarorð:

[B] skal til bráðabirgða fara með forsjá drengjanna... og óskírðs drengs, barna hennar og [A]."

Í úrskurði ráðuneytisins er getið þeirrar réttarheimildar og meginsjónarmiða, sem hann er byggður á. Loks eru raktar þær staðreyndir máls, sem þyngst voru taldar vega á metunum. Að framansögðu athuguðu og með tilliti til þess, að um er að ræða úrskurð um forsjá barna til bráðabirgða, sem almennt er þörf á, að sé kveðinn fljótt upp, verður að telja að rökstuðningur úrskurðarins uppfylli þau skilyrði, sem almennt ber að gera til þessháttar úrskurða.

Að því er efni úrskurðarins snertir, verður ekki séð af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, að hann hafi verið byggður á röngum forsendum eða ólögmætum sjónarmiðum.

4. Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi borið að vekja athygli A á þeim upplýsingum, sem ráðuneytið hafði í vörslum sínum um andlega heilbrigði hans og til greina kom, að byggt yrði á í úrskurði ráðuneytisins um forsjá barna hans til bráðabirgða, svo að honum gæfist færi á að tjá sig um umræddar upplýsingar og gæta réttar síns, áður en ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn. Að öðru leyti tel ég ekki tilefni til athugasemda í tilefni af kvörtun A."