Samgöngumál.

(Mál nr. 10997/2021)

Kvartað var yfir  reglum Reykjavíkurborgar um bílastæðakort íbúa

Ljóst var að sá munur sem  gerður er í reglunum á þeim sem fara með umráð bifreiðar og þeim sem eiga bifreið byggðist á hlutlægum atriðum og málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við það markmið að vera ívilnandi úrræði fyrir íbúa með lögheimili á ákveðnum svæðum og við tilteknar aðstæður. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við fyrirkomulagið.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til erindis yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 18. mars sl., og lýtur að reglum Reykjavíkurborgar um bílastæðakort íbúa í Reykjavík nr. 591/2015, og bréfs sem yður var sent, dags. 18. febrúar sl., vegna kvörtunar yðar til umboðsmanns frá 14. febrúar sl. sem laut að sömu atriðum. Líkt og fram kom í bréfi mínu til yðar fæ ég ráðið af erindum yðar að þér gerið athugasemdir við það skilyrði reglnanna að sé umsækjandi umráðamaður þeirrar bifreiðar sem umsókn um íbúakort lýtur að, en ekki skráður eigandi hennar, skuli aðrir meðeigendur eða umráða­menn eiga sama lögheimili og hann. Teljið þér skilyrði reglnanna að þessu leyti fela í sér mismunun miðað við þá íbúa, sem búsettir eru í sama fjöleignarhúsi og þér, sem eru skráðir eigendur bifreiða. Verður ráðið að þér teljið þetta fyrirkomulag brjóta í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með erindi yðar frá 18. mars sl. fylgdi afrit af svari Bílastæðasjóðs Reykjavíkur við fyrirspurn yðar frá 27. nóvember sl. sem laut að samræmi ofangreinds fyrirkomulags við 2. mgr. 11. gr. stjórn­sýslu­laga. Þar er þeirri afstöðu sjóðsins lýst að umrætt skilyrði reglna um bílastæðakort íbúa brjóti ekki í bága við jafnræðisreglu stjórn­sýslu­laga og banni við mismunun enda séu ákvarðanir um úthlutun íbúa­kortanna byggðar á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

Líkt og kom fram í bréfi mínu til yðar er mér kunnugt um að umsóknarform vegna íbúakortanna á vefsíðu sjóðsins er þannig úr garði gert að sé umsækjandi hvorki skráður eigandi né umráðamaður þeirrar bifreiðar sem umsóknin lýtur að getur viðkomandi ekki lokið við umsóknarferlið og komið umsókn sinni á framfæri. Að þessu leyti tek ég fram að eins og atvikum er háttað hér hef ég, og þá með hliðsjón af ofangreindu svari Bílastæðasjóðs og tilhögun umsóknarformsins, litið svo á að umleitunum yðar um að fá útgefið íbúakort hafi í reynd verið synjað.

Samkvæmt 4. gr. reglna um bílastæðakort þarf umsækjandi um íbúakort að vera annaðhvort skráður eigandi eða umráðamaður þeirrar bifreiðar sem sótt er um kort fyrir. Sé umsækjandi umráðamaður bifreiðarinnar verður hann jafnframt að eiga sama lögheimili og eigandi eða eigendur hennar. Í jafnræðisreglunni felst öðrum þræði að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sambærilega úrlausn. Ljóst er að staða þeirra sem eru eigendur bifreiðar er önnur en þeirra sem aðeins fara með umráð hennar.

Að þessu leyti virðist einnig ljóst að sá munur sem gerður er í reglunum um bílastæðakort íbúa á þeim sem fara umráð bifreiðar og þeim sem eiga bifreið byggist á hlutlægum atriðum, sem lúta að skráðu eignarhaldi þeirra bifreiða sem sótt er um kort vegna, og málefnalegum sjónar­miðum enda í samræmi við það markmið íbúakortanna að vera ívilnandi úrræði fyrir íbúa sem eiga lögheimili á ákveðnum svæðum í Reykjavík, sem eiga bifreið en hafa ekki aðgang að bílastæði þar sem ekki er gert ráð fyrir gjaldskyldu. Að ofangreindu virtu og með tilliti til atvika málsins að öðru leyti tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þetta fyrirkomulag.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson