Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11007/2021)

Kvartað var yfir barnaverndarnefnd Eyjafjarðar sem synjaði um aðgang að gögnum.

Ekki hafði verið leitað til úrskurðarnefndar velferðarmála með erindið líkt og umboðsmaður hafði áður leiðbeint um. Því voru ekki skilyrði til að fjalla frekar um kvörtunina. 

    

Settu umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til erindis yðar til mín, dags. 25. mars sl., þar sem þér kvartið yfir barnaverndarnefnd Eyjafjarðar. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að því að yður hafi verið synjað um aðgang að gögnum hjá nefndinni. Með kvörtun yðar fylgdu engin gögn. Jafnframt vísa ég til fyrri samskipta í tilefni af eldri kvörtun yðar sem hlaut málsnúmerið 10924/2021 í mála­skrá umboðsmanns.

Í kjölfar kvörtunar yðar nú hafði starfsmaður skrifstofu umboðsmanns Alþingis samband við yður símleiðis og óskaði eftir upp­lýsingum um samskipti yðar við barnaverndarnefnd Eyjafjarðar og gögnum sem varpað gætu nánari ljósi á synjun nefndarinnar. Þér upplýstuð um að þér hefðuð raunar ekki átt frekari samskipti við nefndina frá því að þau samskipti sem eldri kvörtun yðar laut að áttu sér stað í janúar sl. heldur mætti ráða af skráningu á „mínum síðum“ hjá sveitarfélaginu að málinu væri lokið. Starfsmaðurinn óskaði í kjölfarið eftir gögnum um framangreint sem þér senduð skrifstofu umboðsmanns í kjölfar símtalsins. Auk framangreinds óskaði starfsmaðurinn eftir upplýsingum um hvort þér hefðuð leitað til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru eins og yður var leiðbeint um í bréfi mínu til yðar, dags. 10. febrúar sl. Þér svöruðuð því neitandi en upplýstuð um að þér hyggist leita til nefndarinnar með kæru.

Eins og fram kom í áðurnefndu bréfi frá 10. febrúar sl. segir í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í ljósi þess að þér hafið á þessu stigi ekki freistað þess að leita til úrskurðarnefndar velferðarmála eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til alls framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég ítreka þó það sem fram kom í samtali yðar við starfsmann umboðsmanns og bréfi mínu frá 10. febrúar sl. að ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni úrlausn úrskurðarnefndar velferðarmála er yður að sjálfsögðu heimilt að leita til mín á ný innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson