Almannavarnir. COVID-19.

(Mál nr. 11011/2021)

Kvartað var yfir ákvæðum reglugerðar um för yfir landamæri sem bætt var við til bráðabirgða og fólu í sér takmarkanir á komu útlendinga til landsins vegna COVID-19. Dómsmálaráðherra hefði ekki verið heimilt að mæla fyrir um slíkar takmarkanir þar sem heilbrigðisráðherra fari með þann málaflokk er lyti að sóttvörnum.  

Engin gögn fylgdu kvörtuninni og ekki varð séð að hún lyti að athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalda sem beindust sérstaklega að viðkomandi eða vörðuðu hagsmuni hans eða réttindi. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 25. mars sl. og lýtur að ákvæðum reglugerðar nr. 866/2017, um för yfir landamæri, sem sett er með stoð í lögum nr. 80/2016, um útlendinga. Af kvörtuninni fæ ég ráðið að hún lúti að ákvæðum sem bætt hefur verið við reglugerðina til bráðabirgða undanfarið ár og fela í sér takmarkanir á komu útlendinga til landsins vegna heimsfaraldurs COVID-19. Gerið þér athugasemdir við það að dómsmálaráðherra mæli fyrir um slíkar takmarkanir þar sem ekki verði leitt af lögum nr. 80/2016 að dómsmálaráðherra, sem fer með málaflokkinn, sé heimilt að takmarka komu útlendinga til landsins vegna sóttvarna, enda fari heilbrigðisráðherra með þann málaflokk sem lýtur að sóttvörnum, sbr. ákvæði sóttvarnalaga nr. 19/1997. Með kvörtun yðar fylgdu engin gögn.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafn­ræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns og skal hann þá lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalds sem er tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Lögin gera þó ráð fyrir að nýttar séu þær kæruleiðir sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, áður en kvartað er til umboðsmanns.

Af framangreindum ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar, þótt öllum sé frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um atriði af því tagi, heldur eru slík mál eftir atvikum tekin til umfjöllunar á grundvelli heimildar umboðsmanns samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Kvörtun í máli einstaklings eða lögaðila verður hins vegar að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. Ekki er heldur gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Ég fæ ekki séð af erindi yðar að kvartað sé yfir tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi, þ.e. þau atriði sem þér tilgreinið í kvörtun yðar varða ekki hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti eða umfram aðra, heldur varðar það, líkt og að ofan greinir, bráðabirgðaákvæði sem bætt hefur verið við reglugerð nr. 866/2017, nú síðast með reglugerð nr. 305/2021 sem tók gildi 26. mars sl. Er því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

 Kjartan Bjarni Björgvinsson