Menntamál.

(Mál nr. 11003/2021)

Kvartað var yfir stjórnsýslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hugsanlegu broti á jafnræðisreglu gagnvart Myndlistarskólanum í Reykjavík.

Athugasemdir um hugsanlegt útboð vegna starfsemi skólans lutu efnislega að ákvörðun stjórnvalds sem ekki hefði verið tekin. Umfjöllun umboðsmanns um þær hefði falið í sér lögfræðilega álitsgerð sem ekki er gert ráð fyrir í lögum að hann veiti. Ekki voru því skilyrði að lögum til að fjalla um þessi atriði. Hvað snerti fjárframlög til reksturs einstaka framhaldsskóla er gert ráð fyrir að þau séu ákveðin með fjárlögum frá Alþingi. Í ljósi þess að starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa þess voru ekki heldur skilyrði að lögum til að taka það til frekari meðferðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 22. mars sl., yfir mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að stjórnsýslu ráðuneytisins og hugsanlegu broti á jafnræðisreglu gagn­vart Myndlistarskólanum í Reykjavík. Í þeim efnum byggið þér meðal annars á að framlög til skólans hafi dregist saman á undanförnum árum þrátt fyrir að framlög til skólastigsins í heild hafi verið aukin til muna. Þá gerið þér athugasemdir við að ráðuneytið hyggist bjóða starfsemi skólans út þrátt fyrir að EFTA-dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að samningur við einkaaðila sem taka að sér að rækja sam­félagslegar, menningarlegar og menntunarlegar skyldur ríkisins við þegna landsins falli ekki undir útboðsskyldu, sbr. dóm EFTA-dómstólsins frá 10. desember 2020 í máli nr. E-13/19.

Ég lít svo á að kvörtun yðar sé tvíþætt, þ.e. hún lúti annars vegar að fjárframlögum til Myndlistarskólans í Reykjavík og hins vegar að hugsanlegu útboði er tengist starfsemi skólans sem ekki hefur komið til framkvæmda.

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins. Í 3. gr. sömu laga er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað en samkvæmt ákvæðinu nær það einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr. Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðs­manns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. þó 11. gr.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Af því leiðir að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin varði tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar umfram aðra. Umboðsmanni er hins vegar ekki ætlað samkvæmt lögum að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Ástæða þess að ég rek framangreind ákvæði í lögum um starfssvið umboðsmanns Alþingis er sú að athugasemdir yðar um hugsanlegt útboð lúta efnislega að ákvörðun stjórnvalds sem ekki hefur verið tekin og þar með máli sem óvissa ríkir um hvernig ráðuneytið muni afgreiða. Af þeim sökum myndi umfjöllun mín um athugasemdir yðar að þessu leyti fela í sér lögfræðilega álitsgerð af minni hálfu til þess hvort mennta- og menningarmálaráðuneytinu sé heimilt að bjóða umrædda starfsemi út. Ekki eru því að lögum uppfyllt skilyrði til þess að ég geti tekið athugasemdir yðar til nánari athugunar sem kvörtun að þessu leyti.

  

2

Um framhaldsskóla er fjallað í samnefndum lögum nr. 92/2008. Í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. segir að ráðherra geti veitt skólum, öðrum en þeim sem falla undir II. kafla, þ.e. opinberum framhaldsskólum, viður­kenningu til kennslu á framhaldsskólastigi. Í 3. mgr. 12. gr. segir að í viðurkenningu felist ekki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi skóla eða ábyrgð á skuldbindingum hans.

Um fjárframlög til framhaldsskóla er fjallað í 43. og 44. gr. laganna. Í 1. mgr. 43. gr. segir að ríkissjóður greiði samkvæmt lögunum rekstrarframlög til þeirra framhaldsskóla sem njóta framlaga í fjár­lögum. Skólar sem njóti framlaga í fjárlögum séu opinberir framhalds­skólar og aðrir framhaldsskólar sem ráðherra gerir þjónustusamninga við um kennslu á framhaldsskólastigi, enda hafi þeir hlotið viðurkenningu, sbr. 12. gr. Hver skóli hefur sérstaka fjárveitingu í fjárlögum og gerir ráðherra tillögur til fjárveitingar í fjárlögum til hvers skóla, til kennslu og eftir atvikum annarra verkefna, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. er umfang starfsemi framhaldsskóla, að svo miklu leyti sem hún er fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði, ákveðið í fjárlögum. Þá er í 2. og 3. mgr. 44. gr. laganna fjallað um þjónustu­samninga ráðherra við framhaldsskóla.

Í 41. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í 1. mgr. 42. gr. segir að fyrir hvert reglulegt Alþingi skuli leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld. Fjárlög eru þannig samþykkt einu sinni á ári en með þeim veitir Alþingi heimild fyrir hinum ýmsu útgjöldum ríkisins.

Samkvæmt framangreindu er gert ráð fyrir því í lögum nr. 92/2008 að fjárframlög úr ríkissjóði til reksturs einstakra framhaldsskóla séu ákveðin með fjárlögum frá Alþingi. Í ljósi þess að starfssvið umboðs­manns tekur ekki til starfa Alþingis eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið þann hluta kvörtunar yðar er lýtur að fjárframlögum til skólans til frekari meðferðar.

  

III

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið um starfssvið og hlut­verk umboðsmanns Alþingis eru ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Er umfjöllun minni um mál yðar því hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson