Skattar og gjöld.

(Mál nr. 10603/2020)

Kvartað var yfir úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem staðfesti ákvörðun Samgöngustofu að vísa frá kæru vegna ákvarðana Hafnasamlags Norðurlands um álagningu farþegagjalds.

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns ákvað ráðuneytið að endurupptaka málið og fela Samgöngustofu að taka kæru félagsins til efnislegrar meðferðar. Þar með var ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

 

Ég vísa til kvörtunar yðar, f.h. A ehf., vegna úrskurðar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá 27. janúar 2020. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Samgöngustofu frá 29. apríl 2019 um að vísa frá kæru félagsins vegna ákvarðana Hafnasamlags Norðurlands bs. um álagningu farþegagjalds frá árinu 2016.

Í tilefni af kvörtuninni var samgöngu- og sveitarstjórnar-ráðuneytinu ritað bréf, dags. 28. ágúst sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti nánar tilteknar skýringar vegna þeirrar afstöðu sem birtist í úrskurði ráðherra og laut að kæruheimild vegna ákvarðana hafnasamlagsins um álagningu farþegagjalda. Í fyrirspurn umboðsmanns kom þó einnig fram að yrði hún ráðuneytinu tilefni til þess að endurupptaka málið væri óþarft að veita umbeðnar skýringar.

Hinn 26. mars sl. barst umboðsmanni bréf frá ráðuneytinu þar sem fram kom ákveðið hefði verið að endurupptaka málið og fela Samgöngustofu að taka kæru félagsins til efnislegrar meðferðar. Bréfi ráðuneytisins fylgdi afrit af tilkynningu, dags. sama dag, þar um til A ehf.

Í ljósi ofangreindra viðbragða ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna málsins að svo stöddu og læt því athugun minni lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Hinn 1. nóvember sl., var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson