Börn.

(Mál nr. 10785/2020)

Kvartað var yfir málsmeðferð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sýslumannsins á Suðurnesjum, barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, lögreglunnar á Suðurnesjum, barnaverndarnefndar Suðurnesjabæjar og tilteknum skóla. Laut þetta að atvikum tengdum ágreiningi viðkomandi við barnsföður sinn um umgengni og rannsókn lögreglu á meintum ofbeldisbrotum hans.

Í kvörtuninni voru settar fram margvíslegar beiðnir um athafnir af hálfu umboðsmanns sem ekki eru á hans færi samkvæmt lögum. Taldi hann því rétt að fjalla almennt um hlutverk sitt, starfssvið og skilyrði þess að kvörtun sé tekin til meðferðar til útskýringar á því hvers vegna hann gæti ekki tekið tiltekin atriði til frekari skoðunar. Hvað önnur umkvörtunarefni snerti hafði kæruleið ýmist ekki verið tæmd eða þau féllu utan þess ársfrests sem gefst til að bera fram kvartanir. 

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

   

I

Ég vísa til erinda yðar til mín, dags. 2. og 4. nóvember 2020, sem varða málsmeðferð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sýslumannsins á Suðurnesjum, barnaverndarnefnd Hafnafjarðar, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, lögreglunnar á Suðurnesjum, barnaverndarnefndar Suðurnesjabæjar og [tilteknum skóla], á málum yðar og barna yðar. Lúta kvartanir yðar að atvikum sem varða ágreining yðar við föður yngsta barns yðar um umgengni og rannsókn lögreglu á meintum ofbeldisbrotum hans. Erindin bárust með tíu tölvupóstum en fengu eitt og sama málsnúmer í málaskrá skrifstofu umboðsmanns og verða afgreidd samhliða.

Í tilefni af kvörtuninni óskaði starfsmaður umboðsmanns eftir frekari upplýsingum um málavexti og stöðu mála með tölvupósti 12. mars sl. Svör yðar, auk frekari gagna, bárust umboðsmanni með tölvupósti 18. mars sl.

Með bréfi, dags. 26. janúar sl., lauk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar í máli nr. 10860/2020 sem laut meðal annars að því að Þjóðskrá Íslands hefði látið föður yngsta barns yðar í té upplýsingar um búsetuland yðar og barna yðar þrátt fyrir ósk yðar um dulið lögheimili í þjóðskrá, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um að mál verði ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmann fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar. Þá var mér ekki unnt að taka þann þátt til meðferðar sem jafnframt var til meðferðar hjá Persónuvernd auk þess sem ég taldi ekki enn hafa orðið slíkan drátt á afgreiðslu erindis yðar þar sem þér settuð fram tilteknar spurningar og beiðni um gögn, að tilefni væri fyrir að taka það atriði í kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Hvað varðar mál nr. 10860/2020 vísast að öðru leyti til fyrrnefnds bréfs til yðar.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar, sem er umfangsmikil og lýtur að málsmeðferð hjá fjölda stjórnvalda, tel ég rétt að fjalla almennt um hlutverk umboðsmanns Alþingis, starfssvið hans og skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. 

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Umboðsmaður kemur hins vegar ekki fram fyrir hönd borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld í stjórnsýslumáli sem er til meðferðar.

Í 3. gr. laga nr. 85/1997 er starfssvið umboðsmanns Alþingis afmarkað. Samkvæmt 1. og 2. mgr. ákvæðisins tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Þannig tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, en í því felst meðal annars að erindi sem varða beina athafnaskyldu Alþingis í einstaka málum eða málaflokkum falla utan starfssvið umboðsmanns, auk þess sem spurningum og áskorunum sem beint er að Alþingi í tengslum við það verður að beina að þinginu sjálfu.

Hvað varðar skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni vísa ég til 6. gr. fyrrnefndra laga nr. 85/1997. Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik skuli fylgja kvörtun, þ.á m. þær ákvarðanir og úrlausnir stjórnvalda sem kvartað er yfir. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um tímafrest sem aðilar hafa til að beina kvörtun til umboðsmanns en samkvæmt ákvæðinu skal bera kvörtun fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis ef bera má mál undir æðra stjórnvald og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er með kvörtun til aðila á borð við umboðsmann Alþingis sem stendur utan stjórnkerfis þeirra. Af því leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Ástæða þess að ég rek hér framangreind lagaákvæði um hlutverk umboðsmanns Alþingis er sú að í kvörtun yðar eru settar fram margvíslegar beiðnir um athafnir af hálfu umboðsmanns. Þar er meðal annars sett fram ósk um öflun gagna og sömuleiðis er þess óskað að umboðsmaður beini tilgreindum spurningum að tilteknum stjórnvöldum. Einnig óskið þér eftir heildstæðri athugun á málefnum yðar og barna yðar og að yður verði greint frá því hvað hefði betur mátt fara. Í kvörtun yðar óskið þér enn fremur svara Alþingis við tilgreindum spurningum auk þess sem þér óskið þess að Alþingi stofni til rannsóknar á tilteknum atriðum er varða málefni yðar og barna yðar. Þá óskið þér eftir því að Alþingi grípi til ráðstafana til að bæta stjórnsýslu í sambærilegum málum og kvörtun yðar varðar.

Framangreind lagaákvæði um hlutverk og starfssvið umboðsmanns Alþingis gera hins vegar að verkum að ég get ekki tekið þessi tilteknu atriði í erindum yðar til frekari athugunar og vísa ég til ofangreindrar umfjöllunar um það. Ég hef þannig hagað afmörkun á athugun minni og umfjöllun um erindi yðar í samræmi við hlutverk mitt eins og það er afmarkað í lögum. Eftir atvikum, og þá í samhengi við efni erinda yðar að öðru leyti, mun ég ganga út frá því að sumar þeirra spurninga sem þér beinið að Alþingi eða tilgreindum stjórnvöldum feli í reynd í sér athugasemdir yðar við stjórnsýslu þeirra stjórnvalda sem þær varða.

  

III

1

Kvörtun yðar beinist meðal annars að málsmeðferð sýslumannsins á Suðurnesjum vegna beiðni barnsföður yðar frá 2. júlí 2020 um álagningu dagsekta sem samkvæmt 2. mgr. 48. gr. barnalaga nr. 76/2003, vegna meintra tálmana á umgengni samkvæmt úrskurði sýslumanns, dags. 4. desember 2019, þ. á m. málsmeðferð og samskiptum við sérfræðing í málefnum barna, sbr. 74. gr. barnalaga. Á meðal athugasemda yðar er að málið hafi verið tekið til meðferðar hjá sýslumanni þrátt fyrir að lögmaður yðar hafi upplýst um að þér hefðuð flutt lögheimili yðar erlendis fyrr um sumarið.

Samkvæmt gögnum er bárust mér með tölvupósti yðar 20. janúar sl., vegna ofangreinds máls yðar nr. 10860/2020, vísaði sýslumaður málinu frá á grundvelli þess að hann hefði ekki lögsögu í því vegna flutnings yðar úr landi, sbr. 68. gr. barnalaga. Með tölvupósti yðar 12. mars sl. barst mér svo afrit af frávísun sýslumanns, dags. 23. desember sl., ásamt upplýsingum um að barnsfaðir yðar hefði kært þá ákvörðun sýslumanns til dómsmálaráðuneytis.

Af þeim upplýsingum og gögnum er borist hafa í kjölfar kvörtunar yðar verður ekki annað ráðið en að stjórnsýslumál vegna beiðni um álagningu dagsektar á yður hafi ekki enn verið endanlega til lykta leitt inn stjórnsýslunnar en málið er nú til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sem byggist sem fyrr segir á því að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en þær koma til umfjöllunar umboðsmanns, eru því ekki lagaskilyrði til þess að ég taki þetta atriði í kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni í kjölfar úrskurðar dómsmálaráðuneytisins í málinu er yður að sjálfsögðu heimilt að leita til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

  

2

Í kvörtun yðar víkið þér jafnframt að kærum til lögreglustjórans á Suðurnesjum, annars vegar af hálfu yðar, dags. 7. október 2019, vegna rangra sakargifta barnsföður yðar í garð yðar, og hins vegar kæru barnaverndarnefndar Suðurnesja, hinn 27. september 2019, vegna ofbeldis barnsföður yðar í garð barna yðar. Í kvörtuninni gerið þér ýmsar athugasemdir við málsmeðferð lögreglunnar, þ. á m. að því er varðar málsmeðferðartíma og hæfi nánar tilgreindra einstaklinga til aðkomu að málinu.

Hvað varðar þessi atriði í kvörtun yðar vísa ég til fyrri umfjöllunar minnar um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af því leiðir að umboðsmaður hefur almennt ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið og málið hafi þannig veri endanlega til lykta leitt.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áðurnefnda reglu, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði meðferð og afgreiðslu viðkomandi máls. Umboðsmaður hefur þó talið rétt að gæta varfærni við að taka afstöðu til þess að hvort tafir sem orðnar eru á tilteknum stjórn­sýslu­málum sem enn eru til meðferðar í stjórnsýslunni séu óeðlilegar eða óréttlættar í skilningi málshraða­reglunnar, þ.e. að afgreiðsla málsins hafi dregist „óhæfilega“ að teknu tilliti til sjónarmiða um atriði eins og umfang og eðli máls og almennt álag í starfsemi við­komandi stjórnvalds.

Auk framangreinds ber jafnframt að líta til þess að eftir breytingar sem komu til framkvæmda við gildistöku laga nr. 47/2015, um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum, er stjórn­sýsla ákæruvalds á tveimur stigum. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hefur ríkissaksóknari eftirlit með fram­kvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum og samkvæmt 3. mgr. 21. gr. getur hann gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Hann getur kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni.

Af þessu leiðir að málsaðili sem telur á sig hallað við rannsókn lögreglu eða málsmeðferð eftir að mál er komið til meðferðar hjá ákæranda getur beint erindi til ríkissaksóknara um það atriði. Fyrirmæli ríkissaksóknara eru bindandi fyrir lægra setta stjórn­valdið en það er komið undir ákvörðun stjórnvaldsins hvort það verður við tilmælum umboðsmanns, þótt það sé almennt raunin.

Með hliðsjón af framangreindu og að virtum þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég ekki enn tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til frekari meðferðar. Ef þér freistið þess að leita til ríkissaksóknara á grund­velli lögbundins eftirlits hans með handhöfum ákæruvalds og teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hans getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

  

3

Önnur atriði í kvörtun yðar uppfylltu ekki skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sem fjallað var um hér að ofan, þ.e. að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Af lögskýringargögnum að baki sambærilegum ákvæði eldri laga um umboðsmann Alþingis, nr. 13/1987, er ljóst að Alþingi taldi nauðsynlegt að setja ákveðinn frest fyrir einstaklinga til að bera fram kvartanir og verður af þeim ráðið að þar að baki hafi meðal annars búið sjónarmið um að skapa tiltekna festu í stjórnsýsluframkvæmd. (Alþt. 1986-1987, A-deild, bls. 552). Fresturinn er fortakslaus samkvæmt skýru orðalagi laganna. Með vísan til þessa hef ég ekki forsendur samkvæmt lögum til að fjalla um þau atriði í kvörtun yðar sem falla utan þessa ársfrests, svo sem athafnaleysi barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar og lögreglu árið 2017.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek hins vegar fram að ef eitthvað er óljóst í bréfi þessu er yður að sjálfssögðu velkomið að hafa samband við skrifstofu mína í síma 510-6700 milli kl. 09:00 og 15:00 á virkum dögum og ræða við lögfræðing eða senda tölvupóst á netfangið postur@umb.althingi.is.

Í tilefni kvörtunar yðar tel ég einnig rétt að upplýsa yður um að þau erindi sem berast umboðsmanni, sem eru almenns eðlis, eru yfirfarin með tilliti til þess hvort tilefni sé að taka atriði sem koma þar fram til athugunar að frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu.

Ég mun hafa þær ábendingar sem settar eru fram í erindum yðar til mín, meðal annars um starfshætti barnaverndarnefnda, í huga með tilliti til þessa hlutverks. Verði málefni á þessu sviði tekið til athugunar verðið þér þó ekki upplýst sérstaklega um það heldur verður tilkynnt um athugunina á heimasíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

    

Kjartan Bjarni Björgvinsson