Opinberir starfsmenn. Andmælaréttur. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 10883/2020)

Kvartað var yfir ráðningu Fiskistofu í starf sviðsstjóra. Gerðar voru margvíslegar athugasemdir við ráðningarferlið sem og rökstuðning og kvartað undan að gögn hefðu ekki fengist afhent.

Með hliðsjón af því svigrúmi sem stjórnvöld hafa til að ákveða hvaða sjónarmið eru lögð til grundvallar mati á umsækjendum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka athugasemdir við hæfnikröfur og sjónarmið í starfsauglýsingu til frekari athugunar. Enda yrði almennt að telja þau málefnaleg m.t.t. starfslýsingar. Við samanburð á hæfni umsækjanda hafi verið byggt á heildarmati þar sem, auk hlutlægra þátta, sé málefnalegt leggja huglæg sjónarmið til grundvallar. Hvað andmælarétt snerti varð ekki annað ráðið en hann hefði verið virtur. Þá var ekki heldur tilefni til að gera athugasemdir við rökstuðning. Umboðsmaður sendi Fiskistofu hins vegar ábendingar vegna athugasemdar viðkomandi um að hann hefði ekki fengið afhent öll þau gögn sem óskað hefði verið eftir.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 23. desember 2020, yfir ákvörðun Fiskistofu um ráðningu í starf sviðsstjóra [...] stofnunarinnar en þér voruð meðal umsækjenda um starfið.

Í kvörtuninni gerið þér margvíslegar athugasemdir við ráðningarferlið, einkum að gengið hafi verið fram hjá yður sem hæfari umsækjanda við ráðninguna. Í því sambandi vísið þér meðal annars til þess að þér teljið að ákvörðunin hafi ekki byggst á forsvaranlegu mati á hæfni umsækjanda með tilliti til hlutlægra atriða, svo sem þeirra gagna sem umsækjendur lögðu fram með umsókn sinni. Í ljósi þessa teljið þér að mat Fiskistofu á frammistöðu umsækjenda í starfsviðtölum hafi fengið of mikið vægi.

Þá gerið þér jafnframt athugasemd við rökstuðning Fiskistofu en að yðar mati fullnægir hann ekki skilyrðum 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hvergi sé vikið að þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar stigagjöf þeirri sem bjó að baki mati á hæfni. Þér gerið einnig athugasemd við afhendingu gagna en samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni hefur Fiskistofa ekki afhent yður öll gögn málsins þrátt fyrir beiðni.

Gögn málsins bárust mér með bréfi, dags. 14. janúar sl., samkvæmt beiðni þar um.

  

II

Starf sviðsstjóra [...] Fiskistofu var auglýst laust til umsóknar 21. október 2020 og bárust alls fjórtán umsóknir um starfið. Í auglýsingu voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur tilgreindar:

„Háskólamenntun á meistarastigi sem nýtist í starfi

Farsæl reynsla eða menntun í stjórnun

Góð greiningarhæfni og innsýn í áhættumat

Menntun eða reynsla af sjávarútvegi er kostur

Leiðtogahæfileikar, árangursdrifni og gott álagsþol

Góð færni í mannlegum samskiptum og teymisvinna

Mjög góð kunnátta í íslensku og ensku og góð hæfni til að miðla upplýsingum í ræði og riti“

Samkvæmt gögnum málsins eru helstu málavextir þeir að fiskistofustjóri og sviðsstjóri mannauðs- og fjármálasviðs Fiskistofu skipuðu matsnefnd ásamt ráðgjafa frá Intellecta. Nefndin lagði mat á hæfni umsækjenda út frá umsóknargögnum með hliðsjón af þeim matsviðmiðum sem fram komu í auglýsingu og talið var mögulegt að meta út frá skriflegum gögnum umsækjenda. Var sex umsækjendum í kjölfarið boðið í fyrsta viðtal. Viðtölin voru skipulögð sem formföst viðtöl þar sem viðmælendur fengu sömu spurningar er lutu meðal annars að fyrri reynslu af stjórnun, álagsþoli, árangursdrifni, leiðtogahæfileikum,  greiningarhæfni og áhættumati. Að viðtölum loknum var þremur aðilum, þar á meðal yður, boðið að koma í annað viðtal.

Í seinna viðtali fluttu umsækjendur kynningu um fyrstu 100 dagana í starfi á ensku. Þá svöruðu þeir spurningum í tengslum við kynninguna, leystu úr þremur raunhæfum starfsmannavandamálum með hlutverkaleik og svöruðu spurningum til að fylgja eftir fyrsta viðtalinu. Að lokum voru umsagnir meðmælenda ræddar og umsækjendum gefið færi á að svara því sem þar kom fram.

Að viðtali loknu voru umsækjendum gefin stig fyrir frammistöðu með tilliti til framangreindra atriða eftir svokölluðum Likert-kvarða þar sem umsækjendum eru gefin stig frá einum upp í fimm. Kynningin gilti 30% af heildarmati en hlutverkaleikur 40% og spurningar til að fylgja eftir fyrsta viðtali 30%. Tekinn var saman stigafjöldi úr fyrsta viðtali, kynningu og seinna viðtali og í kjölfarið var það niðurstaða matsnefndarinnar að B væri hæfust og var henni boðið starfið.   

  

III

1

Eins og að framan greinir lýtur kvörtun yðar einna helst að efnislegu mati á hæfni yðar og þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið. Í því sambandi vísið þér til þess að þér teljið mat Fiskistofu á hæfni umsækjenda hafa verið ómálefnalegt og að huglægum atriðum sem fram komu í starfsviðtölum hafi verið gefið of mikið vægi á kostnað hlutlægra gagna. Bendið þér meðal annars á í þessu samhengi að þér hafið talsvert meiri reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar, bæði hvað varðar stjórnun og eftirlit, en sú sem starfið hlaut. 

Af þessu tilefni tek ég fram að við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Í íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu í opinbert starf þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun að því leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa slík sjónarmið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta.

Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald verði að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar ákvörðuninni.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Ég legg á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og stjórnvald sem tekur ákvörðun um ráðningu í opinbert starf. Þannig leiðir af eðli eftirlitsins að það er ekki verkefni mitt að endurmeta sjálfstætt hvern hefði átt að ráða í tiltekið starf heldur að leggja mat á hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög. Þar undir fellur t.d. athugun á því hvort fylgt hafi verið réttum málsmeðferðarreglum, hvort mat stjórnvalds á umsækjendum hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum, hvort málefnaleg og lögmæt sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun og mati stjórnvaldsins og ályktanir hafi ekki verið bersýnilega óforsvaranlegar miðað við fyrir­liggjandi gögn málsins. Hafi stjórnvald aflað sér fullnægjandi upplýsinga til þess að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram í ljósi þeirra hefur umboðsmaður almennt talið að stjórnvaldið njóti töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfinu.

  

2

Í kvörtun yðar gerið þér margvíslegar athugasemdir við efni starfsauglýsingar vegna starfs sviðsstjóra, þ. á m. að reynsla af opinberu eftirliti, rannsókn brota eða meðferð mála sem varða stjórnsýsluviðurlög hafi ekki verið talin nauðsynleg eða kostur og að ekki hafi verið gerð krafa um reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar eða menntun eða reynslu af stjórnsýslurétti. Af því tilefni tek ég fram að með hliðsjón af því svigrúmi sem Fiskistofa hefur til að ákvarða þau sjónarmið sem eru lögð til grundvallar mati á umsækjendum, sbr. kafla III.1 hér að framan, tel ég ekki tilefni til að taka þær athugasemdir sem þér gerið við hæfnikröfur og sjónar­mið sem komu fram í starfsauglýsingu til frekari athugunar, enda tel ég að þau verði almennt að teljast málefnaleg með tilliti til fyrirliggjandi starfslýsingar.

  

3

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar að því er varðar mat á hæfni umsækjenda eruð þér einna helst ósáttir við að hlutlæg gögn hafi ekki fengið meira vægi við meðferð málsins en raun bar vitni. Einkum byggið þér á því að vægi sjónarmiða sem byggjast á huglægu mati og skírskotun stjórnvalds til huglægra þátta við mat á hæfni umsækjenda geti ekki, ein og sér, fengið slíkt vægi við hæfnimat að rutt geti úr vegi hlutlægum gögnum umsækjenda. Í því sambandi vísið þér til meðal annars til þess hvernig Fiskistofa mat stjórnunarreynslu, greiningarhæfni og innsýn í áhættumat, leiðtogahæfni, árangursdrifni og álagsþol.

Í ljósi framangreinds er rétt að taka fram endanleg ákvörðun um hver úr hópi umsækjenda um opinbert starf skuli ráðinn, á grundvelli þess að teljast hæfastur umsækjenda, ræðst almennt af heildstæðu mati og samanburði milli þeirra sjónarmiða sem stjórnvald ákveður að byggja á. Heildarmat á hæfni umsækjenda byggist því ekki eingöngu á hlutlægum mælanlegum þáttum, eins og lengd starfsreynslu, heldur hefur umboðsmaður almennt talið að einnig sé málefnalegt að byggja á huglægum sjónarmiðum við ráðningar í opinber störf, s.s. persónulegum eiginleikum umsækjanda, frammistöðu í viðtali og framtíðarsýn. Við heildstætt mat þarf veitingarvaldshafinn jafnframt að meta, á grundvelli eigin vitneskju eða mats eða á grundvelli upplýsinga frá öðrum, hvernig líklegt sé að sú reynsla og sú hæfni sem umsækjandi hefur til að bera muni nýtast í starfinu sem sótt er um. Í þeim tilgangi er til dæmis heimilt að leggja verkefni eða próf fyrir umsækjendur við matið til að varpa betra ljósi á hvaða umsækjandi teljist hæfastur, að sjálfsögðu þó þannig að viðhlítandi grundvöllur sé lagður að slíku mati. Reglur stjórnsýsluréttarins gera fyrst og fremst kröfu um að þetta mat sé byggt á fullnægjandi grundvelli og að matið sé málefnalegt í samræmi við réttmætisregluna. Forsendan er því að stjórnvaldið hafi aflað sér fullnægjandi upplýsinga um þá umsækjendur sem til greina koma í starfið vegna þeirra atriða og sjónarmiða sem það ætlar að byggja á.

Af gögnum málsins, þ. á m. spurningalistum og matstöflum, má ráða að við mat á umsækjendum hafi verið lögð áhersla á reynslu af stjórnun og leiðtogahæfileika ásamt hæfileika til mannlegra samskipta og teymisvinnu, góða greiningarhæfni, árangursdrifni og hvort þeir teldust hafa gott álagsþol. Í tilefni af athugasemdum yðar um að matstöflur kunni að hafa verið gerðar eftirá eða þeim breytt er rétt að taka fram að ekkert í gögnum málsins bendir til þess að Fiskistofa hafi átt við eða gert matstöflurnar eftir að ákvörðun var tekin.

Í matsramma sem notaður var við mat á hlutlægum gögnum umsækjenda var gert ráð fyrir að viðmiðin háskólamenntun á meistarastigi, farsæl reynsla eða menntun í stjórnun, góð greiningarhæfni og innsýn í áhættumat vægju hvert um sig 30% af fyrsta mati. Menntun eða reynsla af sjávarútvegi var talin kostur samkvæmt því sem fram kemur í auglýsingu fyrir starfið og vó það 10% af heildarmati. B hlaut 4,55 stig að loknu mati en þér 4 stig og var yður báðum boðið í fyrsta viðtal. Þannig liggur ekki fyrir að þér hafið verið talinn standa henni framar hvað varðaði þær hlutlægu kröfur sem voru lagðar til grundvallar vali á umsækjendum í viðtöl.

Af gögnum málsins má ráða að rannsókn Fiskistofu hafi að loknu mati á hlutlægum gögnum falist í viðtölum við umsækjendur, kynningu á stjórnunarstarfi, spurningum vegna kynningarinnar, frammistöðu í hlutverkaleik þar sem reyndi á ýmis atriði tengd starfi sviðsstjóra sem stjórnanda og spurningum til að fylgja eftir fyrsta viðtalinu. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að umsækjendur hafa fengið sama tækifæri til að svara þessum spurningum og kynna sýn sína á hlutverk stjórnanda á fyrstu 100 dögum starfsins og leysa raunhæf starfsmannavandamál með hlutverkaleik. Sátu því þrír stigahæstu umsækjendurnir við sama borð að þessu leyti.

Í samræmi við framangreint og gögn málsins verður ráðið að upplýsingar sem fram komu í viðtölum og framkoma umsækjenda í þeim hafi skipt verulegu máli við matið. Þegar svo háttar til að stjórnvald metur einn umsækjanda hæfastan með mati sem byggist á viðtölum við umsækjendur og umsagnaraðila verður endurskoðun umboðsmanns Alþingis að þessu leyti takmörkuð við þau gögn sem liggja fyrir í málinu. Í máli þessu liggur fyrir nokkuð ítarleg skráning úr starfsviðtölum, samtölum við umsagnaraðila og punktar vegna hlutverkaleiks, auk stigagjafar fyrir þessa matsþætti. Í ljósi framangreinds, einkum umfangs rannsóknar stjórnvaldsins, og því sem fram kemur í auglýsingu um stjórnun og persónulega eiginleika tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við framangreindan þátt matsins.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins fæ ég ekki annað ráðið en að ákvörðun um ráðningu í það starf sem hér um ræðir hafi verið byggð á heildstæðu mati á hæfni umsækjanda. Ég fæ ekki séð að þau sjónarmið sem ráðningin var byggð á hafi verið ómálefnaleg eða að tilefni sé til að gera athugasemd við innbyrðis vægi þeirra. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat að B hafi fallið best að þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar við ákvörðun um ráðninguna og við meðferð málsins. Með hliðsjón af því svigrúmi sem játa verður stjórnvaldi við ráðningu í opinbert starf er það því niðurstaða mín að ég hafi ekki forsendur til að gera, í tilefni af kvörtun yðar, athugasemdir við ákvörðun ákvörðun Fiskistofu um ráðningu í starf sviðsstjóra [...].

  

4

Í kvörtuninni gerið þér jafnframt athugasemd við að Fiskistofa hafi ekki virt andmælarétt yðar við meðferð málsins. Ég legg þann skilning í þennan lið kvörtunarinnar að þér teljið að brotið hafi verið á andmælarétti yðar með því að láta hjá líða að afla frekari umsagna en gert var við meðferð málsins. Með þessu hafi verið leitast við að draga inn í matið neikvæðar umsagnir um yður sem hafi eingöngu þjónað þeim tilgangi að draga fram hugleiðingar meðmælenda um hugsanlega frammistöðu yðar í umræddu starfi.

Í ljósi framangreinds er rétt að taka fram að í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að aðili máls skuli eiga þess kost á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Af ákvæðinu leiðir að stjórnvaldi ber að veita umsækjanda tækifæri til að kynna sér upplýsingar sem það hefur aflað um viðkomandi, svo sem í samtölum við umsagnaraðila, og honum er ekki kunnugt um enda sé ljóst að þær hafi verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og séu umsækjanda í óhag.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins aflaði Fiskistofa umsagna um þá þrjá umsækjendur sem fóru í annað starfsviðtal. Af gögnum málsins má ráða að Fiskistofa hafi aflað umsagna um yður frá þremur aðilum sem voru skráðar niður. Ég tek fram að ég tel ekki tilefni til að gera athugasemdir við að óskað hafi verið umsagnar frá fyrrverandi Fiskistofustjóra þrátt fyrir að þér hafið ekki sjálfir bent á hann. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnunum var spurt út í umsagnirnar í seinna viðtalinu og var yður gefið tækifæri til að svara því sem þar kom fram. Framangreint var einnig skráð. Ég fæ því ekki annað ráðið en að afstaða yðar til þeirra upplýsinga sem fram komu í umsögnum meðmælenda hafi legið fyrir áður en ákvörðun var tekin um að ráða í starfið og því fæ ég ekki séð að brotið hafi verið gegn andmælarétti yðar í málinu. Ég tel því ekki tilefni til að taka framangreint atriði til frekari umfjöllunar.

  

5

Hvað varðar það athugasemdir yðar um að rökstuðningur Fiskistofu hafi verið ófullnægjandi, meðal annars á þann hátt að hvergi sé að finna upplýsingar um grundvöll stigagjafar, þær spurningar sem spurt var um, svör umsækjenda eða hvaða atriði í svörunum leiddu til þeirrar stigagjafar sem ákveðin var, er rétt að taka fram að meginreglan varðandi rökstuðning er sú að hann skuli vera stuttur en greinargóður á þann hátt að geta eigi þeirra meginsjónarmiða sem niðurstaðan byggðist á, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Greina skal frá því í stuttu máli hvaða atriði skiptu mestu máli varðandi starfshæfni þess umsækjanda sem starfið hlaut þannig að viðtakandi rökstuðningsins geti gert sér grein fyrir því með raunhæfum hætti á hvaða sjónarmiðum veitingarvaldshafi byggði ákvörðun sína og eftir atvikum hvert vægi þeirra hafi verið.

Því hefur verið lýst í álitum umboðsmanns Alþingis að þetta mætti orða svo að því verði best náð fram með því að í rökstuðningi komi fram lýsing á því hvers konar starfsmanni veitingarvaldshafi var að leita að og hvernig sá umsækjandi sem valinn var féll að þeirri lýsingu, sjá t.d. álit umboðsmanns frá 24. september 2010 í máli nr. 5893/2010. Þá er rétt að taka fram að stjórnvaldi er ekki skylt að rökstyðja hvers vegna sá sem óskar rökstuðnings fékk ekki starfið. Með hliðsjón af framangreindu og eftir að hafa kynnt mér rökstuðning Fiskistofu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við efni rökstuðningsins.

  

6

     Að síðustu rétt að taka fram hvað varðar athugasemdir yðar um að yður hafi ekki verið afhent öll þau gögn sem þér óskuðuð eftir að af gögnum málsins verður ráðið að Fiskistofa hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort takmarka bæri aðgang að umræddum gögnum með vísan til 16. eða 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í tilefni af framangreindu hef ég ákveðið að rita Fiskistofu bréf sem fylgir hjálagt í ljósriti þar sem ég kem tilteknum ábendingum á framfæri hvað þetta atriði varðar.   

Ég tel aðrar athugasemdir yðar varðandi undirbúning og töku ákvörðunar um ráðningu í starfið ekki gefa mér tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds tel ég ekki tilefni til frekari athugunar á máli yðar og lýk því athugun minni á því, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

  


  

Bréf setts umboðsmanns til Fiskistofu, dags. 31. mars 2021, hljóðar svo:

  

Ég vísa til fyrri bréfaskipta í tilefni af kvörtun A til mín þar sem hann kvartar yfir ákvörðun Fiskistofu um ráðningu í starf sviðsstjóra [...] stofnunarinnar. Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hjálagt í ljósriti, hef ég lokið athugun minni á máli hans með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Málið hefur hefur þó gefið mér tilefni til þess að koma ábendingu á framfæri við Fiskistofu.

Meðal athugasemda við málið í kvörtun A er að hann hafi ekki fengið afhent afrit tiltekinna gagna. Af gögnum málsins má ráða að Fiskistofa hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort takmarka eigi aðgang að þeim gögnum sem A fékk ekki afhent og þar með hafi málið ekki fengið tilskilda efnislega meðferð.

Vegna þessa árétta ég þá meginreglu um upplýsingarétt aðila máls sem birtist í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvæðinu er kveðið á um rétt aðila máls til að fá að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða. Að því marki sem gögn máls falla ekki undir þær tegundir skjala og gagna sem talin eru í 1.-3. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga verður réttur aðila máls til aðgangs að gögnum ekki takmarkaður nema þegar sérstaklega stendur á, og þá aðeins ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, sbr. 17. gr. laganna.

Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga gerir ráð fyrir því að þegar stjórnvaldi berst beiðni um aðgang að gögnum þá beri því að meta upplýsingar í einstökum gögnum með tilliti til þeirra andstæðu hagsmuna sem uppi eru í hverju tilviki og aðeins er gert ráð fyrir því að réttur aðila máls víki fyrir „mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum“. Samkvæmt framangreindu á aðili máls á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga að jafnaði rétt til að kynna sér gögn máls meðan það er til meðferðar hjá stjórnvöldum og einnig eftir að ákvörðun hefur verið tekin og ber stjórnvaldi að taka afstöðu til þess hverju sinni hvort veita eigi aðila máls aðgang að gögnum þess í heild eða að hluta.

Samkvæmt framangreindu og með vísan til atvika málsins tel ég að Fiskistofu hafi borið að taka afstöðu til þess hvort afhenda skyldi afrit allra gagna málsins, þ. á m. upplýsingar sem skráðar voru niður úr viðtölum, matsblöð og viðmið fyrir viðtölin.

Í ljósi framangreinds kem ég þeirri ábendingu á framfæri að betur verði gætt að þessu atriði við meðferð hliðstæðra mála hjá Fiskistofu. Ef A áréttar beiðni sína um aðgang að öllum gögnum málsins vænti ég þess jafnframt að hún verði tekin til athugunar með hliðsjón af framangreindum lagasjónarmiðum.   

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson