Dómstólar og réttarfar. Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 10994/2021)

Kvartað var yfir meðferð íslenskra fjölmiðla og leitarvélar Google á persónuupplýsingum viðkomandi. Ráða mátti að hann vildi að umboðsmaður mæltist til þess að þeim yrði eytt.

Þar sem kvartað var undan einkaaðilum voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður tæki erindið til frekari meðferðar. Var viðkomandi hins vegar bent á að samkvæmt lögum um persónuvernd ætti fólk rétt á að fá óáreiðanlegar upplýsingar um sig leiðréttar og að persónuupplýsingum væri eytt, auk annars að uppfylltum skilyrðum. Beiðni þess efnis þyrfti þá að beina til viðkomandi ábyrgðaraðila. Ef ekki væri orðið við slíkri beiðni mætti kvarta til Persónuverndar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Ég vísa til erindis yðar, dags. 20 mars sl., þar sem þér kvartið yfir meðferð íslenskra fjölmiðla og leitarvélar Google á persónu­upp­lýsingum er varðar yður. Snýr kvörtun yðar að því að þegar nafn yðar er slegið inn í leitarvélar á netinu birtist upplýsingar um fréttir er varða úrlausnir dómstóla í málum yðar. Ég fæ best ráðið að í kvörtun yðar sé þess óskað að umboðsmaður Alþingis beini því til framangreindra aðila að eyða persónuupplýsingum um yður.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Í lögum nr. 85/1997 er jafnframt gengið út frá því að megin­viðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðilar sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttar­svið.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er að kvörtun yðar er almenns eðlis og snýr að einkaaðilum, þ.e. fjölmiðlum, sem fjallað hafa um dómsúrlausnir í málum yðar, og leitarvél á netinu, sem vísar til umfjöllunar þessara fjölmiðla, sem ekki taka stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga. Af þeim sökum eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið erindi yðar til frekari meðferðar.

Ég tel þó rétt að benda yður á lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, líkt og starfsmaður minn leiðbeindi yður um símleiðis 25. mars sl. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er markmið þeirra að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Í 1. mgr. 20. gr. laganna er kveðið á um rétt einstaklinga á að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar um sig leiðréttar svo og rétt til að ábyrgðaraðili eyði persónuupplýsingum um hann án ótilhlýðilegrar tafar, svokallaður rétturinn til að gleymast, og rétt til að ábyrgðar­aðili takmarki vinnslu samkvæmt nánari skilyrðum 16.-19. gr. reglu­gerðar Evrópuþings og ráðsins (ESB) 2016/679, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.

Í samræmi við framangreint er yður því unnt að beina því til viðkomandi ábyrgðaraðila að eyða persónuupplýsingum um yður, ef þér teljið framangreind skilyrði laga nr. 90/2018 uppfyllt. Fallist ábyrgðaraðilar persónuupplýsinga yðar, í þessu tilviki tilgreindar leitarvélar á netinu, ekki á beiðni yðar er yður unnt, með vísan til 2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018, að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd sem annast eftirlit með framkvæmd framangreindra laga og reglugerðar og getur fjallað um einstök mál og tekið í þeim ákvörðun. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til efnis kvörtunar yðar að öðru leyti en framan greinir.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

     Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson