Skattar og gjöld.

(Mál nr. 10998/2021)

Kvartað var yfir gjaldtöku Samgöngustofu fyrir að veita undanþágur vegna stærðar og þyngdar ökutækja.

Af kvörtuninni varð ráðið að hún beindist ekki að tiltekinni ákvörðun Samgöngustofu heldur almennt að gjaldtöku stofnunarinnar vegna þessa. Þá hafði erindinu ekki heldur verið skotið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitshlutverks hans. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 16. mars sl., fyrir hönd A ehf. yfir gjaldtöku Samgöngustofu fyrir að veita undanþágur vegna stærðar og þyngdar ökutækja. Jafnframt vísa ég til fylgiskjala kvörtunarinnar sem mér bárust 30. sama mánaðar.

Af kvörtuninni verður ráðið að hún beinist ekki að tiltekinni ákvörðun Samgöngustofu um að leggja á félagið gjald heldur almennt að gjaldtöku stofnunarinnar til að standa straum af kostnaði við að veita umrædda þjónustu og þá einkum í tilefni af breytingum sem urðu á framkvæmd gjaldtökunnar seinni hluta árs 2019. Um þær breytingar sem og grundvöll gjaldtökunnar er fjallað í svari Samgöngustofu 5. mars sl. við erindi yðar 17. febrúar sl.

Samkvæmt því sem er rakið í svarinu byggist gjaldtakan meðal annars á 2. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, sbr. gjaldskrá sem hefur verið staðfest af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 220/2020 í samræmi við 3. mgr. sama lagaákvæðis. Í því ákvæði er kveðið á um að gjaldskrá samkvæmt 13. gr. skuli staðfest af ráðherra. Í þessu hlutverki ráðherra felst meðal annars að hann hefur eftirlit með lögmæti gjaldskrárinnar þegar hún er sett. Þá leiðir af stöðu og hlutverki ráðherra að hann fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir gagnvart Samgöngustofu, sbr. 1. gr. laga nr. 119/2012 og IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.

Ástæða þess að ég nefni þetta er að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er meðal skilyrða þess að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar að æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í máli ef málinu má skjóta til æðra stjórnvalds. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir áður en kvartað er til aðila sem stendur utan stjórnkerfis þeirra. Í samræmi við þessi sjónarmið hefur verið litið svo á að mál geti verið þannig vaxin að rétt sé að stjórnvald sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að það beiti heimildum sínum áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar.

Með vísan til þess sem er rakið hér að framan tel ég ekki rétt að fjalla um kvörtun yðar fyrr en þér hafið freistað þess að bera almennar athugasemdir yðar um gjaldtöku Samgöngustofu undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Af þeim sökum lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson