Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit.

(Mál nr. 11016/2021)

Kvartað var yfir stjórnsýsluháttum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði, sem æðra stjórnvald gagnvart heilbrigðiseftirlitinu,  að nokkru tekið undir röksemdir í kvörtuninni og því ekki tilefni fyrir umboðsmann til að taka það til frekari meðferðar. Hvað starfsleyfi sem tíundað var í kvörtuninni snerti benti umboðsmaður á að þess mætti freista að kæra ákvörðun um útgáfu þess til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 29. mars sl. yfir stjórnsýsluháttum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Samkvæmt kvörtuninni beinast athuga­semdir yðar að því að eftirlitið hafi leyft Vöku hf., björgunarfélagi, að starfa að Héðinsgötu 2 án starfsleyfis frá upphafi árs 2020 til 2. febrúar sl. á grundvelli stjórnsýsluvenju í andstöðu við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Ég vek athygli yðar á að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um hlutverk og starfsskilyrði umboðsmanns. Í 6. gr. laganna er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að megi skjóta máli til æðra stjórn­valds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórn­valdið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir áður en leitað er til aðila sem stendur utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Er þá einnig litið til þess að stjórnsýslukæra af hálfu þess sem er ósáttur við ákvörðun eða málsmeðferð lægra setts stjórnvalds gefur viðkomandi kost á að koma athugasemdum sínum á framfæri við æðra stjórnvald og fá úrlausn um þau atriði.

Þegar svo er um hnútana búið að athafnir stjórnvalda eru kæranlegar til annars stjórnvalds sem úrskurðar um lögmæti þeirra leiðir því af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að athugun umboðsmanns á máli í tilefni af kvörtun lýtur einkum að úrskurði æðra stjórnvaldsins og þá hvort það hafi leyst réttilega úr málinu, þar með talið í ljósi þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar við meðferð málsins á lægri stigum stjórn­sýslunnar. Jafnframt leiðir af framangreindu að hafi æðra stjórnvald fallist á athugasemdir málsaðila um stjórnsýslu lægra setta stjórn­valdsins er að jafnaði ekki tilefni fyrir umboðsmann Alþingis að taka stjórnsýslu lægra setta stjórnvaldsins til sérstakrar athugunar.

Samkvæmt kvörtun yðar kærðuð þér áðurnefnda ákvörðun Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Af úrskurði nefndarinnar frá 18. febrúar sl. í máli nr. 123/2020 verður ráðið að þér hafið byggt á samsvarandi málsrökum í kæru yðar og athuga­semdum til nefndarinnar og þér gerið í kvörtun yðar til umboðsmanns. Niðurstaða nefndarinnar var að vísa málinu frá á þeim grundvelli að umsókn Vöku hf. um starfsleyfi hefði verið samþykkt 2. febrúar sl. Því hefði hin kærða ákvörðun eftirlitsins, að heimila starfsemina án gilds starfsleyfis, enga þýðingu að lögum.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu hafði nefndin fyrr í úrskurðinum fjallað efnislega um ákvörðun og málatilbúnað heilbrigðiseftirlitsins og lýst yfir að málsmeðferð þess hefði verið aðfinnsluverð. Að þessu leyti fæ ég ekki annað ráðið en að nefndin hafi að nokkru tekið undir röksemdir yðar. Í ljósi þess sem áður segir um hlutverk umboðsmanns og þegar tekið er tillit til þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála, sem æðra stjórnvald gagnvart Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í þessu samhengi, hefur fjallað um og fundið að stjórnsýslu eftirlitsins í samræmi við athugasemdir yðar tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún beinist sérstaklega að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 2. febrúar sl. um að gefa út tíma­bundið starfsleyfi fyrir starfsemi Vöku hf. að Héðinsgötu 2 samkvæmt lögum nr. 7/1998. Þrátt fyrir það ber kvörtun yðar með sér að þér hafið athugasemdir við starfsemi félagsins á þessum stað.

Af þeim sökum bendi ég yður á að samkvæmt 65. gr. laga nr. 7/1998 er hægt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem eru teknar á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auð­linda­mála, er kærufrestur til nefndarinnar almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Ef kæra berst að liðnum kærufresti getur reynt á hvort skilyrði séu fyrir hendi til að taka kæruna eigi að síður til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Ef þér teljið tilefni til að gera athugasemdir við ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 2. febrúar sl. getið þér því freistað þess að kæra hana til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Getur þá meðal annars verið álitaefni hvort skilyrði séu uppfyllt til að nefndin geti tekið kæruna til meðferðar. Ég árétta að með framangreindu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir yður að freista þess að kæra ákvörðunina til nefndarinnar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég vek athygli á að ef þér kjósið að leita til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til umboðsmanns Alþingis á ný af því tilefni.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.    

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson