Gjafsókn. Réttmætisreglan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 11019/2021)

Kvartað var yfir að umsögn gjafsóknarnefndar, sem lögð hefði verið til grundvallar ákvörðun dómsmálaráðherra um að synja umsókn um gjafsókn, hefði byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Einnig að beiðni um endurupptöku hefði verið synjað.

Með hliðsjón af atvikum máls fékk umboðsmaður hvorki séð að umsögnin hefði byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum né að rökstuðningur hefði ekki verið fullnægjandi þótt knappur væri á köflum. Þá varð ekki annað ráðið af umsögn nefndarinnar en hún hefði metið aðstæður í málinu samkvæmt umsókninni og þeim gögnum sem fylgdu henni og veitt dómsmálaráðherra rökstudda umsögn. Taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferðina að þessu leyti.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

 

Ég vísa til kvörtunar yðar 30. mars sl. fyrir hönd A, [...], yfir umsögn gjafsóknarnefndar 7. janúar sl. Umsögnin var lögð til grundvallar ákvörðun dómsmála­ráðherra 11. sama mánaðar um að synja umsókn A frá 24. nóvember sl. um gjafsókn. Þá liggur fyrir að A óskaði eftir að málið yrði endur­upptekið með beiðni 4. febrúar sl. Samkvæmt því sem segir í kvörtun yðar var beiðninni synjað en afrit þeirrar ákvörðunar er ekki meðal gagna sem fylgdu kvörtuninni.

Í kvörtun yðar er um rökstuðning fyrir henni vísað til gagna málsins. Í því ljósi skil ég kvörtunina þannig að hún byggist á sömu rökum og var teflt fram í endurupptökubeiðninni. Hún byggðist í fyrsta lagi á að umsögn gjafsóknarnefndar hefði verið ómálefnaleg, í öðru lagi á að rökstuðningi hefði verið ábótavant og í þriðja lagi á að aðstæður A hefðu ekki verið rannsakaðar eða metnar með fullnægjandi hætti. Í endurupptökubeiðninni er nánar fjallað um þessi rök og umsögn gjaf­sóknarnefndar í samhengi við umsókn A um gjafsókn.

Samkvæmt gögnum málsins höfðaði A mál gegn [sveitarfélaginu] X fyrir Héraðsdómi Vesturlands á seinni hluta síðasta árs. Í málinu gerir hún kröfu um greiðslu bóta vegna þess hvernig sveitarfélagið brást við einelti sem hún telur sig hafa orðið fyrir, auk málskostnaðarkröfu. Umsókn A um gjafsókn byggðist á að bæði skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamál, væru uppfyllt til að veita mætti gjafsókn.

Samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 verður gjafsókn aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt: a. að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé, eða b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar er nánar fjallað í reglugerð nr. 45/2008 sem er sett á grundvelli 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.

Sem fyrr greinir byggist kvörtun yðar á að umsögn gjafsóknar­nefndar hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Í því sambandi er vísað til þess að við mat á því hvort umsókn A um gjafsókn uppfyllti skilyrði b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 hefði verið litið til þess að A stundaði atvinnu þó sú atvinna væri „mögulega ekki á grunni menntunar hennar“ sem grunnskólakennara. Samkvæmt réttmætis­reglu stjórnsýsluréttarins verða athafnir stjórnvalda að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Við mat á því hvaða sjónarmið teljast málefnaleg hefur þýðingu að líta til þeirra laga sem eiga við hverju sinni. Að þessu virtu og í ljósi ákvæðis b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sbr. jafnframt ákvæði reglugerðar nr. 45/2008, fæ ég ekki séð að umsögn gjafsóknarnefndar hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Kvörtun yðar byggist í öðru lagi á að rökstuðningur í umsögn gjaf­sóknarnefndar hafi verið ófullnægjandi. Eins og áður greinir var umsókn A um gjafsókn bæði byggð á því að skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 væru uppfyllt. Um fyrrnefnda ákvæðið sagði eftirfarandi í umsögn nefndarinnar:

„Tekjur umsækjanda eru yfir þeim tekjumörkum sem tilgreind eru í 7. gr. reglugerðar um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar nr. 45/2008, sbr. reglugerð nr. 740/2018, sem nefndinni er ætlað að hafa hliðsjón af þegar metin eru skilyrði a. liðar 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir gjafsóknarnefnd verður ekki séð að efnahag umsækjanda sé svo háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hennar í málinu verði henni fyrirsjáanlega ofviða sem er skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar á grundvelli a. liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.“ 

Um b-lið 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 sagði eftirfarandi:

„Þá verður af fyrirliggjandi gögnum ekki séð að úrlausn málsins hafi verulega almenna þýðingu eða geti varðað svo verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda að til álita komi að mæla með veitingu gjafsóknar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 126. gr., en af gögnum málsins er ljóst að umsækjandi stundar atvinnu þó svo hún sé mögulega ekki á grunni menntunar hennar.“

Umboðsmaður Alþingis hefur lagt til grundvallar að af ákvæðum 1. mgr. og d-liðar 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 45/2008 leiði að gjaf­sóknarnefnd beri í umsögnum sínum að setja fram rökstuðning sem að efni til fullnægi þeim lágmarkskröfum sem koma fram í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að slíkt sé í samræmi við þau sjónarmið um umsagnir nefndarinnar sem hafi komið fram í álitum umboðsmanns. Sjá til dæmis álit umboðsmanns frá 5. maí 2004 í máli nr. 7166/2012.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem voru ráðandi við matið. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum kemur meðal annars fram að rökstuðningur eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hafi orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þurfi að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.) Í þessum efnum verður einnig að taka tillit til þess að umsókn um gjafsókn á að vera ítarlega rökstudd og henni skulu fylgja gögn sem þýðingu hafa, sbr. 3. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991 og 2. gr. reglugerðar nr. 45/2008, eins og hún er úr garði gerð eftir að henni var breytt með 2. gr. reglugerðar nr. 616/2012.

Í umsókn A um gjafsókn var í umfjöllun um skilyrði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 sérstaklega vísað til að ákvæði f-liðar 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 45/2008 ætti við. Í því sambandi var einkum vísað til þess að tekjur A hefðu lækkað frá því að hún sagði upp starfi sínu sem grunnskólakennari, að kostnaður í máli sem þessu væri almennt viðamikill og að málið hefði verið höfðað gegn sveitarfélagi. Þrátt fyrir það var ekki fjallað sérstaklega um hvort skilyrði væru til að beita heimild f-liðar 1. mgr. 8. gr. reglu­gerðarinnar í umsögn gjafsóknarnefndar umfram það sem leiddi af almennri umfjöllun nefndarinnar um skilyrði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 og fjárhag A. Eftir að hafa kynnt mér umsóknina og þau gögn sem henni fylgdu, þar á meðal um fjárhag A, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við umsögn nefndarinnar að þessu leyti, enda verður að meta hvort rökstuðningur sé fullnægjandi með hliðsjón af því hvað efni málsins gefur tilefni til.

Umsókn A byggðist enn fremur á að skilyrði b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 væri fullnægt. Umfjöllun nefndarinnar að þessu leyti er knöpp. Þrátt fyrir það er vikið að því hvaða meginsjónarmið réðu því mati nefndarinnar að skilyrði ákvæðisins væru ekki fyrir hendi. Að því virtu og í ljósi þeirra gagna sem lágu fyrir nefndinni tel ég ekki nægar forsendur til að gera athugasemdir við að umsögn gjaf­sóknar­nefndar hafi að þessu leyti ekki uppfyllt lágmarkskröfur sem eru gerðar til rökstuðnings.

Að lokum byggist kvörtun yðar á að gjafsóknarnefnd hafi hvorki rannsakað né metið aðstæður í máli A nægjanlega með tilliti til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Sem fyrr greinir fylgdu umsókn A gögn um málið auk þess sem umsóknin var rökstudd með hliðsjón af því hvernig skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt. Þá fæ ég ekki annað ráðið af umsögn nefndarinnar en að hún hafi metið aðstæður í málinu samkvæmt umsókninni og þeim gögnum sem fylgdu henni og veitt dóms­mála­ráðherra rökstudda umsögn þar sem ekki var mælt með gjafsókn. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, þar á meðal þau sjónarmið sem endurupptökubeiðnin byggðist á, tel ég því ekki forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð gjafsóknarnefndar að þessu leyti.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar fyrir hönd A, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

 

 Kjartan Bjarni Björgvinsson