Lífeyrismál.

(Mál nr. 11206/2021)

Kvartað var yfir afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins til beiðni um afturvirkan flutning á iðgjöldum úr Lífeyrissjóði verkfræðinga yfir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR).

Ráðuneytið hafði metið að ekki væru skilyrði til að heimila flutning iðgjaldanna til LSR og ítrekaði að það hefði ekki vald til að breyta ákvörðun stjórnar LSR. Bréf ráðuneytisins til viðkomandi hefði mátt vera skýrar hvað það snerti en af gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari skoðunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 30. júní sl. yfir afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem fram kom í bréfi þess 11. maí sl., til beiðni yðar um m.a. afturvirkan flutning á iðgjöldum úr Lífeyrissjóði verkfræðinga yfir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR).

Í tilefni af kvörtun yðar var ráðuneytinu ritað bréf 22. september sl. Svör bárust með bréfi 4. október sl. Þar kom fram að ráðuneytið teldi sig ekki hafa sjálfstæða lagaheimild til að taka ákvörðun um flutning iðgjalda til LSR með vísan til 7. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins fer stjórn sjóðsins með yfirstjórn hans og skal hún fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi starfsemi hans.

Í bréfi ráðuneytisins var jafnframt tekið fram að ráðneytið hefði, á grundvelli a-liðar 6. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, veitt LSR umsögn um það hvort þér hefðuð átt skylduaðild að LSR eftir að þér hófuð störf hjá Háskóla Íslands í tengslum við beiðni yðar til sjóðsins um flutning lífeyrisréttinda. Í kjölfar erindis yðar til ráðuneytisins hefði það farið yfir þær upplýsingar sem bárust en ekki talið þær geta breytt því mati ráðuneytisins sem fram kom í umsögn þess til LSR. Hafi ráðuneytið því metið sem svo að ekki væru skilyrði til að heimila flutning iðgjalda yðar til LSR. Ráðuneytið ítrekaði að það hefði ekki vald til að breyta ákvörðun stjórnar LSR en bréf ráðuneytisins til yðar hefði mátt vera skýrar hvað þetta atriði varðaði.   

Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af framangreindum lagagrundvelli og gögnum málsins að öðru leyti tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar. Hvað snertir ákvörðun stjórnar LSR um flutning lífeyrisréttinda og hlutverk umboðsmanns Alþingis er vísað til þess er fram kom í bréfi setts umboðsmanns til yðar 26. mars sl. í máli nr. 10999/2021.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.