Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11293/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem kærum vegna tiltekinna breytinga á deiliskipulagi og útgáfu byggingarleyfa var vísað frá þar sem kærurnar hefðu borist utan kærufrests og ekki væru skilyrði til að taka þær til efnislegrar meðferðar.

Kærurnar bárust nefndinni tæplega 11 mánuðum eftir opinbera birtingu auglýsingar um gildistöku breytingarinnar í Stjórnartíðindum og taldi umboðsmaður að nefndinni hefði réttilega borið að vísa þeim frá. Ekki væru forsendur til að gera athugasemdir við umfjöllun og niðurstöðu nefndarinnar að ekki væru uppfyllt skilyrði að lögum til að taka kærurnar til efnislegrar meðferðar. Langt væri um liðið síðan kærufrestur hefði runnið út og meðal aðila að málinu var félag sem hafði átti gagnstæðra hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Í kvörtuninni var einnig óskað eftir upplýsingum um réttarstöðu þess sem kvartaði og annarra fasteignareigenda gagnvart því félagi sem seldi þeim viðkomandi fasteignir. Umboðsmaður benti á að mögulegur ágreiningur um fasteignaviðskipti þeirra í millum væri einkaréttarlegur og félli því ekki undir starfssvið sitt.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar og fleiri íbúa [...] frá 7. september sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. ágúst sl. í málum nr. 36 og 42/2021. Með úrskurðinum var kærum vegna tiltekinna breytinga á deiliskipulagi og útgáfu byggingarleyfa vísað frá. Byggðist sú niðurstaða á því að kærurnar hefðu borist utan kærufrests 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og ekki væru uppfyllt skilyrði samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að taka þær til efnislegrar meðferðar.

  

II

Líkt og rakið var í áðurnefndum úrskurði er kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að jafnaði einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Í sama ákvæði kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Þessi kærufrestur er styttri en almennur kærufrestur samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga og helgast það m.a. af því mati löggjafans að brýnt sé að leyst sé úr ágreiningi um form eða efni ákvörðunar á þessu málefnasviði sem fyrst, eins og kveðið er á um í athugasemdum við 4. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 130/2011. Þar segir einnig að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga (sjá þskj. 1228 á 139. löggj.þ. 2010-2011, bls. 9).

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er meginreglan sú að kæru sem berst að liðnum kærufresti skal vísað frá. Frá þessari meginreglu er heimilt að víkja í tveimur tilvikum, annars vegar ef afsakanlegt verður talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. nefnds lagaákvæðis, og hins vegar ef veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til með­ferðar, sbr. 2. tölul. sama ákvæðis. Í ákvæðinu er þannig kveðið á um að stjórnvald skuli leggja á það mat hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þótt lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Við það mat verður viðkomandi stjórnvald að líta til þess hversu veigamiklir hagsmunir kæranda af úrlausn málsins eru. Ef aðilar eru fleiri en einn og með andstæða hagsmuni er einungis rétt að taka kærumál til meðferðar í algjörum undantekningartilvikum, eins og áréttað er í athugasemdum við fyrrnefnt ákvæði þess frumvarps er varð að stjórnsýslulögum (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3308).

Kæra yðar og fleiri íbúa [...] vegna deiliskipulagsbreytingarinnar barst úrskurðarnefndinni 19. mars sl., tæplega ellefu mánuðum eftir opinbera birtingu auglýsingar um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Þá barst nefndinni kæra vegna byggingar­leyfanna 6. apríl sl. en umsóknir um hin kærðu byggingar­leyfi voru samþykktar 30. mars 2020 og á grundvelli þeirra samþykkta voru byggingarleyfi gefin út 18. júní sama ár. Á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga bar nefndinni því réttilega að vísa kærunum frá, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nema framangreindar undantekningar ákvæðisins ættu við. Í ljósi framangreindra sjónarmiða tel ég hins vegar ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við umfjöllun og niðurstöðu nefndarinnar um að ekki væru uppfyllt skilyrði að lögum til að kærurnar yrðu teknar til efnislegrar meðferðar, enda var langt um liðið síðan kærufrestur rann út og meðal aðila að málinu var félag sem átti gagnstæðra hagsmuna að gæta af úrlausn þess.

Í kvörtuninni er óskað upplýsinga um réttarstöðu yðar og annarra fasteignareigenda [...] gagnvart því félagi sem seldi yður umræddar fasteignir. Af því tilefni skal þess getið að mögulegur ágreiningur um fasteignaviðskipti milli yðar og umrædds félags, þ.á m. hvort seljandi hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um fasteign, er einkaréttarlegur. Það fellur því ekki að hlutverki mínu að fjalla nánar um þennan þátt í kvörtun yðar, enda tekur starfssvið umboðsmanns að jafnaði aðeins til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

III

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.