Tafir.

(Mál nr. 11365/2021)

Kvartað var yfir að erindi til nefndar um eftirlit með lögreglu hefði ekki verið afgreitt.

Í svari nefndarinnar við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að ítrekað hefði verið óskað eftir frekari upplýsingum frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á meðan þær bærust ekki væri ekki hægt að aðhafast frekar í málinu. Þar sem málið var í ákveðnum farvegi var ekki tilefni til frekari íhlutunar af hálfu umboðsmanns.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

 

Vísað er til kvörtunar yðar frá 27. október sl. sem lýtur að því að erindi yðar til nefndar um eftirlit með lögreglu frá 7. júní 2020 hafi ekki verið afgreitt.

Í tilefni af kvörtun yðar var nefnd um eftirlit með lögreglu ritað bréf 10. nóvember sl. þar sem óskað var eftir að nefndin veitti upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins. Fenguð þér afrit af því bréfi. Nú hefur borist svarbréf frá nefndinni 19. nóvember sl. þar sem fram kemur að með ákvörðun nefndarinnar nr. 22/2021 frá 17. mars sl., í máli yðar, hafi nefndin óskað eftir frekari upplýsingum frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Sú beiðni hafi verið ítrekuð 6. júlí sl. og aftur 19. nóvember sl. Tekur nefndin fram að ekki sé hægt að aðhafast frekar vegna málsins fyrr en frekari upplýsingar liggi fyrir frá embættinu.

Samkvæmt framangreindu hefur máli yðar verið fylgt eftir af hálfu nefndarinnar í framhaldi af ákvörðun hennar 17. mars sl., nú síðast með ítrekun 19. nóvember sl., og það er því í ákveðnum farvegi hjá nefndinni. Tel ég því ekki tilefni til frekari íhlutunar af minni hálfu vegna kvörtunar yðar að svo stöddu og lýk hér með athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef frekari tafir verða á afgreiðslu málsins, sem þér teljið óhóflegar, getið þér leitað til mín á ný að hæfilegum tíma liðnum.