Almannavarnir. Heilbrigðismál. COVID-19.

(Mál nr. 11367/2021)

Kvartað var yfir að ákvæði í lögum um réttindi sjúklinga, sem ber heitið „sérreglur um sjúk börn og börn sem aðstandendur“, næði einnig yfir börn þegar þau væru boðuð í bólusetningu. Fram kom í kvörtuninni að dóttir viðkomandi hefði fengið boð í bólusetningu vegna COVID-19 en hvorugt foreldranna hefði verið upplýst um það.

Að því er fram kom í svörum starfsmanna landlæknis til viðkomandi telur embættið leiða af framangreindum lögum að frá 16 ára aldri teljist börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins. Í ljósi þess að hugtakið „sjúklingur“ merki „notandi heilbrigðisþjónustu“ í skilningi laganna taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar hvað þetta snerti. Að því marki sem hún laut að ákvæðum laganna benti umboðsmaður á að það væri almennt ekki á sínu verksviði að taka afstöðu til þess hvernig tekist hefði til með löggjöf frá Alþingi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 29. október sl. og lýtur að því að ákvæði VI. kafla laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, sem ber heitið „sérreglur um sjúk börn og börn sem aðstandendur“, nái einnig yfir börn þegar þau eru boðuð í bólusetningu. Fram kemur í kvörtuninni að 16 ára dóttir yðar mun hafa fengið boð í bólusetningu vegna COVID-19 og hvorki þér, né föður hennar, hafi verið upplýst um það.

Eftir því sem fram kemur í svörum starfsmanns landlæknis í tilefni af fyrirspurn yðar telur embættið að af ákvæðum laga nr. 74/1997 leiði að frá 16 ára aldri teljist börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins. Í ljósi þess að hugtakið „sjúklingur“ í skilningi laganna merkir „notanda heilbrigðisþjónustu“, sbr. 2. gr. þeirra, tel ég ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar, enda leiðir af ákvæðum 25. gr. laganna að frá 16 ára aldri er um sjálfstæðan rétt sjúklings til að fá upplýsingar samkvæmt lögunum frá heilbrigðisyfirvöldum. Það verður því ekki séð að þeim sé skylt að tilkynna foreldrum barna yfir 16 ára aldri sérstaklega að þessum börnum standi til boða bólusetning.

Þess skal einnig getið að starfssvið umboðsmanns, sbr. ákvæði a-liðar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Að því marki sem kvörtun yðar lýtur að ákvæðum laga nr. 74/1997 er ljóst að lagaskilyrði brestur til að ég geti tekið hana til frekari athugunar.

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.