Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11370/2021)

Spurt var margra spurninga um hvort fanga bæri að greiða virðisaukaskatt af vörum í versluninni sem rekin er í fangelsinu Litla-Hrauni.

Þar sem hvorki reyndi á einhverja ákvörðun stjórnvalda í málinu né er umboðsmanni ætlað að veita lögfræðilega álitsgerðir í tilefni af óformlegum fyrirspurnum voru ekki forsendur til að fjalla um kvörtunina. Viðkomandi var hins vegar leiðbeint um hvert hann gæti beint athugasemdum sínum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar, sem barst 2. nóvember sl., en af henni má ráða að þér hafið margvíslegar spurningar um hvort fanga beri að greiða virðisaukaskatt af vörum í verslun þeirri sem rekin er í fangelsinu Litla-Hrauni.

Í tilefni af framangreindu er yður bent á að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns almennt að hafa eftirlit með stjórn­völdum og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórn­völdum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að veita lögfræðilegar álitsgerðir í tilefni af óformlegum fyrirspurnum.

Af þessari stöðu leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra. Kvörtun yðar fylgdu ekki frekari gögn og að öðru leyti verður ekki ráðið af henni að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim, til að mynda við forstöðumann fangelsisins eða Fangelsismálastofnun, sem samkvæmt 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, hefur umsjón með rekstri fangelsa. Þá bendi ég yður á að samkvæmt 4. gr. sömu laga fer dóms­mála­ráðherra með yfirstjórn fangelsismála. Að jafnaði á föngum því að vera unnt að beina almennum athugasemdum sínum, um t.d. aðbúnað í fangelsum, til dómsmálaráðuneytisins.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar. Fari svo að þér leitið til framangreindra stjórnvalda með athugasemdir yðar og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu þeirra getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.