Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11371/2021)

Kvartað var yfir gjaldi sem innheimt er við útgáfu ökuritakorta hjá Samgöngustofu. Viðkomandi hefði ekki sótt um slíkt kort því gjaldið væri of hátt og ekki í samræmi við raunverulegan kostnað við framleiðslu þess.

Þótt viðkomandi hefði gert athugasemdir símleiðis við gjöldin varð ekki ráðið af kvörtuninni að fyrir lægi úrlausn stofnunarinnar eða eftir atvikum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um kvörtunarefnið. Kæruleið hafði því ekki verið tæmd og þar með ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til erindis yðar, sem barst 2. nóvember sl., þar sem þér kvartið yfir gjaldi sem innheimt er við útgáfu ökuritakorta hjá Samgöngustofu. Í símtali yðar við starfsmann umboðsmanns kom m.a. fram að þér hafið ekki sótt um slíkt kort þar sem þér teljið gjaldið vera of hátt og ekki í samræmi við raunverulegan kostnað við framleiðslu þess. Þá greinduð þér frá því að hafa verið í samskiptum símleiðis við Samgöngustofu og gert athugasemdir við upphæð gjaldsins, auk þess að hafa haft samband við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið símleiðis fyrir um ári síðan og gert sömu athugasemdir.

Samgöngu­stofa er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og samkvæmt 1. mgr. 18. gr. sömu laga sæta ákvarðanir stofnunarinnar kæru til ráðherra í samræmi við ákvæði stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Þjónustugjöld vegna útgáfu skírteina/korta eru innheimt á grundvelli III. kafla laga nr. 119/2012. Um töku gjaldsins hefur verið sett gjaldskrá sem ráðuneytið staðfesti og birt var með auglýsingu nr. 220/2020 í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2020, sbr. einnig 3. mgr. 13. gr. laga nr. 119/2012.

Almennt er litið svo á að þegar opinber aðili krefur borgara eða lögaðila um greiðslu þjónustugjalds sé það byggt á því að tekin hafi verið ákvörðun um að viðkomandi beri skylda til þess að greiða umrætt gjald á tilteknum lagagrundvelli. Að baki ákvörðun hins opinbera aðila um þá fjárhæð sem hann krefur viðkomandi um geta legið ákvæði laga, reglna og/eða mat stjórnvaldsins á því hvaða kostnaðarliðir falli undir gjaldtökuheimildina. Geri sá sem krafinn er um gjaldið athugasemdir við töku þess, s.s. að fjárhæð þess sé hærri en lög og reglur standa til, er hann í raun að setja fram athugasemd um að hann hafi með ákvörðun hins opinbera aðila í máli hans verið krafinn um hærra gjald en lög heimila. Þá getur reynt á að hinn opinberi aðili, og eftir atvikum þar til bært kærustjórnvald innan stjórnsýslunnar, leysi úr slíkum ágreiningi.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Það leiðir af framangreindu skilyrði að kvörtun til umboðsmanns þarf að jafnaði að beinast að tiltekinni úrlausn eða háttsemi stjórnvalds og þær kæruleiðir, sem kunna að vera tiltækar innan stjórnsýslunnar, þurfa að hafa verið nýttar. Þegar um er að ræða athugasemdir um tiltekna starfs­hætti eða verklag stjórnvalda hefur verið talið rétt að slíkar athuga­semdir hafi verið bornar undir hlutaðeigandi stjórnvald, og eftir atvikum það stjórnvald sem fer með yfirstjórn þess, áður en ágreiningur vegna þess kemur til umfjöllunar af minni hálfu.

Þótt þér hafið gert athugasemdir við framangreind gjöld við Samgöngustofu símleiðis verður ekki ráðið af kvörtun yðar til mín að fyrir liggi úrlausn stofnunarinnar, eða eftir atvikum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, um kvörtunarefnið. Með vísan til þessa tel ég að svo stöddu ekki fullnægt skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til að taka kvörtun yðar til með­ferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. nr. 85/1997. Ef þér farið þá leið að leggja kvörtunarefnið fyrir áðurnefnd stjórnvöld og eruð enn ósáttir að fenginni afstöðu þeirra getið þér leitað til mín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.