Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 11376/2021)

Kvartað var yfir því að Suðurnesjabær hefði gefið óviðkomandi upp tölvupóstfang án leyfis.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum könnuðust starfsmenn sveitarfélagsins ekki við það en báðust eigi að síður afsökunar fyrir hönd þess. Umboðsmaður benti viðkomandi á að málinu hefði ekki verið skotið til Persónuverndar. Því væru ekki forsendur til að hann fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. nóvember sl. yfir því að Suðurnesjabær hafi gefið óviðkomandi aðila upp tölvupóstfang yðar án leyfis. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum kannast starfsmenn sveitarfélagsins ekki við framangreint en hafa eigi að síður beðið yður afsökunar fyrir hönd þess.

Um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, svo sem tölvupóstföng, gilda samnefnd lög nr. 90/2018. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laganna annast Persónuvernd um eftirlit með framkvæmd laganna. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að sérhver skráður einstaklingur hafi rétt til að leggja fram kvörtun hjá stofnuninni ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann brjóti í bága við ákvæði laganna.

Ástæða þess að þetta er rakið er sú að lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, byggjast á því að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar, í þessu tilviki Persónuverndar. Ef þér teljið ástæðu til getið þér leitað með erindi yðar til þeirrar stofnunar. Að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til umboðsmanns á ný ef þér teljið þá tilefni til þess.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.