Heilbrigðismál. Sóttvarnir. Almannavarnir. COVID-19.

(Mál nr. 11021/2121)

Kvartað var yfir breytingum á reglum á landamærum um sýnatöku og sóttkví vegna COVID-19, m.a. um dvöl í sóttkví eða einangrun í sóttvarnarhúsi milli fyrri og síðari sýnatöku.

Þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafði kveðið upp úrskurði um að ákvæði í reglugerð, sem reyndi á í umkvörtunarefninu, skorti lagastoð og í ljósi niðurstöðu Landsréttar að vísa frá áfrýjun sóttvarnalæknis í málinu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar enda lá fyrir að þeim sem kæmu til landsins yrði að óbreyttu ekki gert að dveljast á sóttkvíarhóteli hefðu þeir viðunandi aðstöðu til að ljúka sóttkví annars staðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til erindis yðar frá 1. apríl sl. sem lýtur að þeim breytingum sem gerðar voru á reglum á landamærum um sýnatöku og sóttkví þann sama dag, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 355/2021, um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 en þar er meðal annars mælt fyrir um í 5. gr. að allir farþegar sem koma frá skil­greindum áhættusvæðum skuli dvelja í sóttkví eða einangrun í sótt­varnarhúsi milli fyrri og síðari sýnatöku. Eftir því sem fram kemur í erindi yðar mun sonur yðar, sem er þriggja ára, vera væntanlegur til landsins.

Nú liggur fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp úr­skurði þar sem fram kemur að ofangreint ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar skorti lagastoð, sbr. t.d. úrskurð frá 5. apríl sl. í máli nr. R-1900/2021. Af því tilefni sendi heilbrigðisráðuneytið frá sér til­kynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins sama dag þar sem meðal annars eftirfarandi kemur fram:

„Að svo komnu máli verður brugðist við úrskurðinum með þeim hætti að þeim sem eru á sóttkvíarhótelum verður gerð grein fyrir því að þeim sé frjálst að ljúka sóttkví annars staðar, hafi þeir viðunandi aðstöðu til þess. Eigi að síður biðla sóttvarnayfirvöld til gesta um að ljúka sóttkví á sóttkvíarhótelinu, enda er það besta leiðin til að draga úr útbreiðslu Covid 19-sjúkdómsins.

Í framhaldinu mun heilbrigðisráðherra, í samráði við sótt­varna­lækni, skoða hvaða leið verður farin til að lágmarka áhættu á að smit berist inn í landið.“

Í ljósi niðurstaðna Landsréttar frá 7. apríl sl. í fjórum kæru­málum, þess efnis að vísa frá dómi áfrýjun sóttvarnalæknis, er ljóst að úrskurðir  héraðsdóms standa. Að svo stöddu liggur því fyrir að þeim sem koma til landsins verður að óbreyttu ekki gert að dveljast á sótt­kvíarhótelinu á meðan á sóttkví stendur hafi þeir viðunandi aöstðu til að ljúka sóttkví annars staðar. Tel ég því ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Ég tel þó rétt að upplýsa að ég hef með bréfi, dags. 6. apríl sl., óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðis­ráð­herra varðandi nánar tiltekin atriði er lúta að stöðu þeirra sem dvelja á sóttkvíarhótelum á vegum hins opinbera, m.a. er varðar stöðu barna sem þar dveljast.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing eða með tölvupósti á netfangið postur@umb.althingi.is. Jafnframt bendi ég á að upplýsingar  um starfssvið, hlutverk og starfshætti umboðsmanns er hægt að kynna sér á vefsíðu hans á slóðinni https://www.umbodsmadur.is/um-umbodsmann.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson