Kvartað var yfir svari byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar við fyrirspurn þar sem fram kom að ósamþykkt kjallaraíbúð yrði ekki samþykkt þótt sambærileg íbúð í hinum enda hússins hefði verið samþykkt á grundvelli heimildar í eldri reglugerð sem ekki væri lengur til að dreifa.
Ljóst var að ekki hafði verið tekin formleg stjórnvaldsákvörðun í málinu, þar sem synjað hefði verið um byggingarleyfi, sem væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála heldur svar sem fæli í sér sértækar leiðbeiningar miðað við gildandi lagareglur. Var viðkomandi bent á að hann gæti freistað þess að sækja um byggingarleyfi hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík og í framhaldinu leitað með niðurstöðuna til úrskurðarnefndarinnar ef hann væri ósáttur við hana. Fyrr gæti kvörtunin ekki komið til kasta umboðsmanns.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. apríl 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 10. mars sl., yfir svari byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar við fyrirspurn yðar, dags. 3. mars sl. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni eruð þér ósáttir við að ósamþykkt kjallaraíbúð sem þér eigið í fjölbýlishúsi að [...] í Reykjavík fáist ekki samþykkt í ljósi þess að sambærileg íbúð sem tilheyrir hinum helmingi hússins sé samþykkt. Frekari gögn bárust frá yður 23. og 29. mars sl. samkvæmt beiðni þar um.
Af gögnum málsins má ráða að þér senduð erindi til byggingarfulltrúa Reykjavíkur með tölvupósti 21. febrúar sl. þar sem þér óskuðuð þess að fá umrædda íbúð yðar í kjallara samþykkta. Í framhaldinu var yður leiðbeint um að til þess að mál yrði tekið fyrir á afgreiðslufundi yrði annaðhvort að senda inn fyrirspurn eða sækja um byggingarleyfi. Með byggingarleyfi yrði að skrá aðalhönnuð á verki og skila inn aðaluppdrætti. Senduð þér inn formlega fyrirspurn sem tekin var til umfjöllunar á fundi 3. mars en líkt og áður segir var niðurstaða afgreiðslufundar neikvæð á þeim grundvelli að íbúðin samræmdist ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um íbúðarhúsnæði. Áttuð þér í kjölfar þessa í samskiptum við skrifstofu byggingarfulltrúa þar sem þér voruð upplýstir um á hvaða hátt rýmið stæðist ekki byggingarreglugerð og enn fremur voruð þér upplýstir um að hin íbúð hússins hefði verið samþykkt á grundvelli heimildar í eldri reglugerð sem væri ekki til að dreifa í núgildandi reglugerð.
Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að þér kusuð að senda byggingarfulltrúa formlega fyrirspurn í staðinn fyrir umsókn. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að formleg fyrirspurn sé til að kanna hvort líklegt sé að leyfi muni fást fyrir tiltekinni framkvæmd. Þá segir að jákvætt svar við fyrirspurn feli ekki í sér heimild til framkvæmda heldur þurfi að sækja um byggingarleyfi með formlegum hætti með tilskildum gögnum. Ekki sé gefið að svar við byggingarleyfisumsókn verði það sama og svar við formlegri fyrirspurn en ítarlegri upplýsingar geti sem dæmi leitt í ljós að framkvæmd uppfylli ekki ákvæði laga.
Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að fjallað er um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir í lögum nr. 160/2010, um mannvirki. Þar segir í 2. mgr. 9. gr. laganna að byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags veiti byggingarleyfi. Umsókn skal senda byggingarfulltrúa ásamt nauðsynlegum gögnum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Samkvæmt 59. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. lög nr. 130/2011.
Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna athöfn eða ákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kvörtun þarf jafnframt að uppfylla skilyrði 6. gr. laganna. Í 3. mgr. 6. gr. kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.
Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að þér hafið ekki undir höndunum formlega ákvörðun þar sem yður er synjað um byggingarleyfi sem er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála heldur svar sem felur í sér sértækar leiðbeiningar miðað við gildandi lagareglur. Því liggur ekki fyrir endanleg niðurstaða stjórnvalda í máli yðar, sbr. ofangreind skilyrði laga nr. 85/1997. Þér getið því freistað þess að sækja um byggingarleyfi hjá byggingafulltrúa Reykjavíkur og í framhaldinu leitað með niðurstöðu byggingarfulltrúa við umsókn yðar til úrskurðarnefndarinnar verðið þér ósáttir við hana.
Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til þess að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég læt því máli þessu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þér getið að sjálfsögðu leitað til mín á ný að fenginni endanlegri niðurstöðu stjórnvalda um framangreind erindi yðar ef þér teljið yður þá enn beitta rangsleitni.
Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Kjartan Bjarni Björgvinsson