Neytendamál. Kærunefnd. Rökstuðningur.

(Mál nr. 11012/2021)

Kvartað var yfir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem hafnaði kröfu um að Blu-ray spilari sem keyptur var í byrjun árs 2017 félli undir tiltekna fimm ára reglu í lögum um neytendakaup.

Einkaréttarlegur ágreiningur, líkt og milli seljanda og kaupanda, fellur almennt utan starfssviðs umboðsmanns. Starfsemi nefndarinnar sætir aftur á móti eftirliti umboðsmanns hvað snertir að hún gæti grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins og annar laga og reglna sem við kunna að eiga hverju sinni.  Ekki varð annað ráðið en nefndin hefði farið að bæði lögum og reglum og rökstutt niðurstöðu sína í samræmi við það. Ekki voru því forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð og ályktanir nefndarinnar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erindis yðar til mín, dags. 25. mars sl., þar sem þér kvartið yfir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa frá 12. febrúar sl. í máli nr. 103/2020 þar sem kröfu yðar um að Blu-ray spilari sem þér keyptuð af varnaraðila hinn 29. janúar árið 2017 fyrir 19.495 kr. yrði talinn falla undir fimm ára reglu 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003, um neytendakaup, var hafnað.

Í kvörtun yðar kemur fram að þér teljið úrskurð nefndarinnar óréttmætan af fernum ástæðum. Í fyrsta lagi sé almenn vitneskja um að DVD-spilarar hafi talsvert lengri líftíma en tvö ár. Í öðru lagi hafi nefndin ekki rökstutt ákvörðun sína nægilega. Engin umfjöllun sé fyrir hendi varðandi gæði og endingu spilarans samanborið við aðra spilara. Í þriðja lagi er vísað til þess að íslensk framkvæmd laganna endurspegli ekki anda þeirra. Í Noregi sé að finna fyrirmynd að því hvernig lögin skuli túlkuð. Í fjórða lagi vísið þér til þess að sé vafi fyrir hendi um endingartíma hlutar sé rétt að vafinn falli fimm ára reglunni í hag.

  

II

1

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að taka fram að ágreiningur sem upp kemur á milli seljanda og kaupanda er einkaréttarlegur í eðli sínu og fellur sem slíkur almennt utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðs­manns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sem falla undir 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Ágreiningur yðar við X ehf. fellur því sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns.

Á hinn bóginn er kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hluti af stjórnsýslu ríkisins og fellur af þeirri ástæðu undir eftirlit umboðs­manns, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Eftirlit umboðsmanns Alþingis með starfi nefndar sem falið er að veita álit eða úrskurða um einkaréttarlegan ágreining, eins og hlutverki nefndarinnar var háttað í þessu máli, beinist þó fyrst og fremst að því hvort nefndin hafi við úrlausn einstakra mála gætt grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins sem kunna að eiga við í hverju tilviki fyrir sig, hinna sérstöku reglna sem settar hafa verið um störf nefndarinnar og að hún hafi að öðru leyti hagað störfum sínum í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Að því marki sem úrlausn nefndarinnar í einstöku máli byggist á mati á atvikum er umboðsmaður almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar liggi fyrir að nefndin hafi við þá úrlausn fylgt reglum sem eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu.

  

2

Um kærunefnd vöru- og þjónustukaupa gilda lög nr. 81/2019, um úr­skurðar­aðila á sviði neytendamála. Í 1. mgr. 16. gr. segir að neytendur geti óskað eftir úrskurði nefndarinnar vegna ágreinings sem rís af sölu- eða þjónustusamningi. Í 2. mgr. 18. gr. segir að úrskurðum nefndarinnar verði ekki skotið til annarra stjórnvalda. Þegar úrskurður nefndarinnar hefur verið kveðinn upp geti aðilar þó lagt ágreining sinn fyrir dómstól á venjulegan máta. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilda um meðferð mála fyrir nefndinni nema annað leiði af lögunum, sbr. 4. mgr. 16. gr. Um nefndina gildir auk þess reglugerð nr. 1177/2019, um kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.

Um úrræði neytenda vegna galla á söluhlut er fjallað í VI. kafla laga nr. 48/2003, um neytendakaup. Þar segir í 1. mgr. 27. gr. að sé sölu­hlutur gallaður beri neytanda að tilkynna seljanda um að hann muni bera gallann fyrir sig án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var. Frestur neytanda til að leggja fram kvörtun sé aldrei styttri en tveir mánuðir frá því að hann varð galla var. Í 1. málsl. 2. mgr. 27. gr. segir að ef neytandi leggur ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku geti hann ekki borið gallann fyrir sig síðar. Ef söluhlut, eða hlutum hans, sé ætlaður „verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti“ sé frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár frá því að hlutnum var veitt viðtaka, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna. Neytandi glati rétti sínum til að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda um gallann innan tímamarka greinarinnar, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 27. gr.

Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 48/2003 segir að sú regla sem finna megi í 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna sé sérregla. Mat á því hversu langur endingartími söluhlut sé ætlaður sé unnt að byggja á því mati sem fram fer skv. b-lið 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins. Því þurfi meðal annars að líta til þess hvers neytandi mátti vænta við kaup á slíkum hlut. Framleiðendur söluhluta hafi ólík markmið um framleiðslu hluta hvað varði endingartíma þeirra. Slíkt endurspeglist meðal annars í verði og markaðssetningu hlutanna. Sé vafi um það hversu langan endingartíma hlut sé ætlað að hafa sé rétt að vafinn falli fimm ára reglunni í hag. Með endingartíma söluhlutar sé átt við það hvað hlutnum sé ætlað að virka lengi á viðunandi hátt.(Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 3819-3820.)

Í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa kemur fram að þér tilkynntuð um bilunina í spilaranum í september árið 2020, eða um þremur árum og átta mánuðum eftir að hann var keyptur. Í ljósi þess að tveggja ára frestur samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003 hafi verið liðinn hafi nefndin metið hvort umræddur Blu-ray-spilari gæti talist söluhlutur sem væri ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. Nefndin hafi í þessum efnum bent á að kaupverð söluhlutar geti verið viðmið um gæði hlutarins og endingu. Líftími söluhluta geti þó verið mismunandi og erfitt að slá honum föstum.

Nefndin hafi við mat að þessu leyti litið til verðs spilarans þegar hann var keyptur og metið aðstæður með þeim hætti að verð hans endur­spegli ekki að honum hafi verið ætlaður verulega lengri endingar­tími en almennt gerist um söluhluti þannig að ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003 og fimm ára frestur þess gæti átt við. Frestur yðar til að tilkynna varnaraðila um galla hafi því verið liðinn þegar þér tilkynntuð um bilunina og þér því glatað rétti til að bera fyrir yður galla, sbr. 4. mgr. 27. gr. laganna. Af niðurstöðu nefndarinnar verður ekki annað ráðið en að hún hafi ekki talið vafa fyrir hendi um endingartíma spilarans þannig að fimm ára reglan yrði talin eiga við í sam­ræmi við framanreifaðar athugasemdir í frumvarpi því er varð að lögunum.

Hvað varðar athugasemdir yðar um rökstuðning nefndarinnar bendi ég yður á að um efni rökstuðnings gildir 22. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir í 1. mgr. að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggist á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skuli í rökstuðningi greina frá meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að nefndin hafi fylgt umræddu ákvæði enda er í niðurstöðu nefndarinnar fjallað um þær réttarreglur sem ákvörðun hennar byggist á sem og vísað til megin­sjónar­miða sem ráðandi voru við mat hennar, þ.e. sjónarmið um kaupverð hlutarins.

Eftir að hafa kynnt mér lagagrundvöll málsins og framangreinda niðurstöðu nefndarinnar tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við málsmeðferð og ályktanir nefndarinnar í máli yðar en ég fæ ekki annað ráðið en að nefndin hafi við úrlausn á máli yðar farið að þeim reglum sem gilda um störf nefndarinnar sem og lögum að öðru leyti. Í þessu sambandi og í ljósi röksemda í kvörtun yðar vek ég athygli yðar á því að í ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003 felst ekki að almennt sé gert ráð fyrir að söluhlutur hafi eingöngu tveggja ára endingartíma eða að söluhlutir sem hafi lengri endingartíma en það falli almennt undir sérreglu ákvæðisins um fimm ára tilkynningarfrest. Í ákvæðinu er mælt fyrir um tilkynningarfrest neytanda vegna galla sem kemur í ljós eftir afhendingu söluhlutarins og er viðmiðið að sölu­hlutnum sé ætlaður „verulega lengri“ endingartími en „almennt gerist“ um söluhluti.

  

III

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson