Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Mat á hæfni umsækjenda.

(Mál nr. 11259/2021)

A  leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skipun í embætti forstjóra stofnunarinnar X. Byggðist kvörtunin á því að ekki hefði verið staðið réttilega að mati á hæfni umsækjenda og sá sem skipun hlaut hefði ekki verið hæfasti umsækjandinn. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort ákvörðunin hefði byggst á málefnalegum sjónarmiðum svo og mati ráðherra á lokastigi ráðningarferlisins.

Umboðsmaður benti á að skipuð hefði verið þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd samkvæmt heimild í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að loknu heildstæðu mati á umsóknum, niðurstöðum úr viðtölum og umsögnum hefði það verið niðurstaða hennar að fimm umsækjendur hefðu uppfyllt þær lágmarkskröfur sem gerðar voru en þrír þeirra, þar á meðal A, stæðu framar hinum með vísan til menntunar og reynslu, þekkingar á starfsemi stofnunarinnar, reynslu af stjórnun og rekstri ásamt skilningi á þeim áskorunum sem stjórnendur og stofnunin stæði frammi fyrir næstu árin. Ráðherra hafi í kjölfarið tekið viðtöl við þrjá efstu þar sem hann hafi leitast við að meta m.a. þá persónubundnu þætti sem kallað hafi verið eftir í auglýsingu og fá fram sýn umsækjanda á helstu viðfangsefni  stofnunarinnar.

Taldi umboðsmaður að sjónarmið sem lögð voru til grundvallar mati hæfnisnefndar svo og sjónarmið varðandi persónubundna þætti og mannauðsmál sem ráðherra tók sérstakt mið af hefðu verið málefnaleg og samræmst þeim kröfum sem fram komu í auglýsingu um embættið. Niðurstaða hans var að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að umrædd ákvörðun hefði verið byggð á heildstæðum samanburði umsækjenda á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem ákveðið hefði verið að leggja til grundvallar. Taldi hann sig því ekki hafa forsendur til að gera athugsemdir við meðferð málsins eða endanlegt mat ráðherra á því hver hefði talist hæfastur umsækjenda.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 23. desember 2021.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 18. ágúst sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skipun í embætti forstjóra X, frá 1. apríl sl. til fimm ára. Byggist kvörtunin á því að ekki hafi verið staðið réttilega að mati á hæfni umsækjenda og sá sem skipun hlaut hafi ekki verið hæfasti umsækjandinn heldur A.

Með bréfum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 19. ágúst og 23. september sl. var óskað eftir helstu gögnum málsins, afstöðu til kvörtunarinnar ásamt upplýsingum og skýringum á nánar tilgreindum atriðum. Umbeðin gögn og svör bárust 31. ágúst og 22. október sl. og athugasemdir yðar við svörin bárust 4. nóvember sl.

  

II

1

Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Að íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðunina ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða slík sjónarmið allt að einu að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta um starfshæfni. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að það er stjórnvaldið sem ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi verða þau að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram á væntanlegri frammistöðu umsækjenda í starfinu og þá með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar. Hafi stjórnvald aflað fullnægjandi upplýsinga um það hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar, svo og sýnt fram á að slíkur heildstæður samanburður hafi farið fram, hefur hins vegar verið litið svo á, í framkvæmd umboðsmanns sem og dómstóla, að það njóti töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi teljist hæfastur.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í því sambandi legg ég á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem tekur ákvörðun um hvern á að ráða í opinbert starf. Af þessu leiðir að það er ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í tiltekið starf heldur að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið lögmæt.

  

2

Embætti forstjóra X var auglýst 19. desember 2020. Í auglýsingunni sagði að leitað væri eftir einstaklingi sem hefði leiðtogahæfileika, væri framsýnn í hugsun, hefði sýnt hæfni í samskiptum og samvinnu og byggi yfir metnaði til að ná árangri í þágu almennings og atvinnulífs. Þá voru gerðar kröfur um háskólapróf á verkefnasviði stofnunarinnar, árangursríka reynslu af stjórnun og rekstri, þ.m.t. gerð rekstraráætlana, góða hæfni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku. Einnig kom fram að vald á einu Norðurlandamáli væri kostur svo og þekking og reynsla af alþjóðasamstarfi.

Við undirbúning ráðningarinnar nýtti ráðherra heimild samkvæmt 39. gr. b laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að skipa þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd, sem var ætlað að meta hæfni umsækjenda og skila til ráðherra mati á því hvaða umsækjendur væru hæfastir til að gegna embættinu. Nefndin skilaði skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 29. mars sl. Að loknu heildstæðu mati á umsóknum, niðurstöðum úr viðtölum og umsögnum, var það niðurstaða hennar að fimm umsækjendur uppfylltu þær lágmarkskröfur sem gerðar voru en þrír þeirra, að A meðtöldum, stæðu framar hinum með vísan til menntunar og reynslu, þekkingar á starfsemi stofnunarinnar, reynslu af stjórnun og rekstri ásamt skilningi á þeim áskorunum sem stjórnendur og stofnunin stæði frammi fyrir næstu árin. 

Að fenginni skýrslu hæfnisnefndar tók ráðherra viðtöl við þá þrjá umsækjendur sem nefndin mat hæfasta og lagði frekara mat á hæfni þeirra. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kemur fram að í viðtölunum hafi ráðherra leitast við að meta þá persónubundnu þætti sem kallað var eftir í auglýsingu og fá fram sýn umsækjenda á helstu viðfangsefni stofnunarinnar, bæði faglegs og rekstrarlegs eðlis, með áherslu á mannauðsmál.

  

3

Samkvæmt framangreindu stóð ráðherra frammi fyrir því að téð hæfnisnefnd hafði ekki gert upp á milli þeirra þriggja umsækjenda sem hún hafði metið hæfasta. Ljóst er að sjónarmiðin sem ráðherra lagði til grundvallar við mat sitt, m.a. um persónubundna þætti og sýn á mannauðsmál, voru að einhverju leyti til viðbótar og fyllingar þeim sjónarmiðum sem hæfnisnefndin hafði vísað til. Engu að síður verður ekki annað séð en þau hafi verið málefnaleg og samræmst þeim kröfum sem fram komu í auglýsingu um embættið.

Í málinu liggja fyrir skráðar upplýsingar um viðtöl við umsækjendur, bæði hjá hæfnisnefnd og ráðherra, umsagnir sem hæfnisnefndin aflaði, svo og athugasemdir umsækjenda við skýrsludrög sem þeim voru send viku fyrir endanlega gerð skýrslu nefndarinnar. Af þessum gögnum verður ekki annað ráðið en að umrædd ákvörðun hafi verið byggð á heildstæðum samanburði umsækjenda á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem ákveðið hafði verið að leggja til grundvallar.

Vegna athugasemda yðar við störf hæfnisnefndar, einkum einkunnagjöf hennar og tilheyrandi samanburð, bendi ég á að hvorki í niðurstöðum nefndarinnar né rökstuðningi ráðherra er að finna beina tilvísun til einkunnagjafarinnar þannig að litið verði svo á að hún hafi ráðið úrslitum við umrædda ákvörðun. Í því ljósi tel ég ekki efni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins.

Samkvæmt framangreindu tel ég ekki forsendur til athugasemda við meðferð málsins eða endanlegt mat ráðherra á því hver taldist hæfastur umsækjenda til að gegna embætti forstjóra X.

  

III

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og a- og b-liða 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.