Hæfi. Skráning og meðferð persónuupplýsinga. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10005/2019)

Kvartað var yfir úrskurði Persónuverndar, þar á  meðal að  tveir stjórnarmenn Persónuverndar hefðu verið vanhæfir til að fjalla um tiltekið mál.

Í ljósi þess að maki formanns stjórnar Persónuverndar var fyrirsvarsmaður Hæstaréttar Íslands, þegar dómur var kveðinn upp í máli sem úrskurður Persónuverndar laut að, var umboðsmaður ósammála stjórninni og taldi að formanni hennar hefði borið að víkja sæti við meðferð málsins. Einnig hefði hæstaréttardómarinn verið skipaður sem slíkur þá og þegar dómur í öðru máli sem úrskurðurinn laut að var kveðinn upp. Hvað hinn stjórnarmanninn snerti taldi umboðsmaður að þótt viðkomandi  þyrfti í starfi sínu sem héraðsdómari að taka afstöðu til þess hvernig staðið væri að birtingu dóma m.t.t. viðkvæmra persónuupplýsinga, þá leiddi það eitt ekki til vanhæfis í málinu. Ekki væru því forsendur til að gera athugasemdir við þátttöku viðkomandi í meðferð þess. 

Þrátt fyrir að formaður stjórnar hefði ekki vikið sæti við meðferð málsins taldi umboðsmaður að sá annmarki gæfi ekki tilefni til tilmæla um að stjórnin fjallaði á ný um það. Hafði hann þá m.a. í huga að eftirlit og athafnir Persónuverndar í tilefni af kvörtunum þeirra sem teldu að brotið hefði verið á þeim með birtingu persónuupplýsinga miðaði ekki síst að því að slík brot væru stöðvuð og látið af birtingu upplýsinga í andstöðu við persónuverndarlög. Í þessu tilviki hefðu persónuupplýsingar þegar verið fjarlægðar og hugsanleg endurupptaka úrskurðarins myndi því ekki hafa nein áhrif til breytinga. Þá lá fyrir samkomulag um greiðslu miskabóta auk lögmannskostnaðar vegna birtingarinnar. Í því væri tekið fram að íslenska ríkið hefði að fullu bætt tjón viðkomandi vegna birtingar hinna tilgreindu dóma.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. desember 2020, sem hljóðar svo:

  

 

  

I

Ég vísa til erindis yðar frá 10. mars 2019 þar sem þér kvartið yfir úrskurði Persónuverndar frá 31. janúar 2019 í máli nr. 2018/30. Kvörtunin lýtur annars vegar að því að tveir stjórnarmenn Persónuverndar hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins og hins vegar að því að í úrskurðinum hafi ekki hefði verið tekin afstaða til allra efnisatriða kvörtunar yðar til Persónuverndar.

Í fyrrnefndum úrskurði kemur fram að 8. maí 2018 hafið þér kvartað til Persónuverndar vegna birtingar sjúkraskrárupplýsinga, fjárhags­upplýsinga og fleiri persónuupplýsinga um yður í dómum á vef Fons Juris ehf. Í úrskurðarorði segir að veiting Fons Juris ehf. á aðgangi að dómum Hæstaréttar í tveimur málum, nefndum X og Y, á vef félagsins samrýmist persónuverndarlögum.

Í tilefni af kvörtun yðar ritaði ég stjórn Persónuverndar bréf, dags. 17. apríl 2019, og óskaði eftir afstöðu hennar til þeirra athuga­semda sem komu fram í kvörtuninni, auk svara við tveimur fyrirspurnum. Svar stjórnarinnar barst mér með bréfi, dags. 17. maí 2019. Ég hef áður upplýst yður um efni þessara bréfa og mun því ekki hér á eftir lýsa sérstaklega því sem þar kemur fram nema ég telji það hafa þýðingu við umfjöllun mína.

Eins og ég hef áður kynnt yður þá urðu tiltekin atriði í niðurstöðu stjórnar Persónuverndar í máli yðar mér tilefni til þess að skoða nánar hvort rétt væri að taka þessi atriði og fleiri varðandi aðkomu handhafa stjórnsýsluvalds að birtingu viðkvæmra persónu­upplýsinga í dómum til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég ákvað því að bíða með afgreiðslu á kvörtun yðar þar til séð yrði í hvaða farveg slík skoðun þessara mála færi. Jafnframt hafði ég í huga að í úrskurðinum í máli yðar og svari stjórnar Persónuverndar við fyrirspurn minni frá 17. maí 2019 kom fram að búið væri að afmá persónugreinanlegar upplýsingar um yður í umræddum dómum eða loka fyrir aðgang að þeim á vef Hæstaréttar og í heimildasafni Fons Juris ehf. Þá bættist það við að mér höfðu á sama tíma og kvörtun yðar barst borist ábendingar frá öðrum aðilum um misbresti að þessu leyti við birtingu dóma. Ég tek það fram að eins og starfssvið umboðs­manns Alþingis er afmarkað í lögum þá tekur það ekki til starfa dómstóla og skoðun mín á þessum málum hefur því ekki tekið til aðkomu þeirra eða ákvarðana um birtingu dóma heldur eingöngu aðkomu handhafa stjórn­sýslu­valds, eins og dómsmálaráðherra og ráðuneytis hans og Persónuverndar, að þeim.

  

II

1

Athugasemdir yðar um hæfi stjórnarmanna Persónuverndar til að úrskurða í máli yðar lúta annars vegar að þátttöku B, formanns stjórnarinnar, þar sem maki hennar hafi á þessum tíma verið hæstaréttardómari en um hafi verið að ræða upplýsingar um yður sem birtust í dómum Hæstaréttar. Hins vegar gerið þér athugasemdir við að C hafi sem varamaður í stjórninni tekið þátt í afgreiðslu málsins en hún hafi á þessum tíma verið héraðsdómari og í störfum hennar hafi því reynt á hvernig staðið er að birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga í héraðsdómum. Hún hafi því verið vanhæf til að fjalla um mál yðar vegna starfa hennar sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykja­ness en dómar frá þeim dómstól hafi komið við sögu í máli yðar. Í símtali sem starfsmaður minn átti við yður 19. mars 2019 vísuðuð þér enn fremur til þess, sem getið er í rökstuðningi fyrir kvörtuninni, að formaðurinn hefði vikið sæti í fyrra kvörtunarmáli yðar til Persónu­verndar sem laut að birtingu hæstaréttardóms á vefsíðu Hæstaréttar en birting sama dóms hjá Fons Juris ehf. var meðal umkvörtunarefna í erindi yðar til Persónuverndar. 

Samkvæmt upplýsingum frá stjórn Persónuverndar stóðu fimm manns að úrskurðinum í máli nr. 2018/30, sem voru formaður stjórnar Persónu­verndar, B, ásamt tveimur aðalmönnum úr stjórn og tveimur varamönnum, þ.m.t. C. Þess skal getið að við birtingu úrskurðar í máli nr. 2018/30 á vef Persónuverndar kom ekki fram hvaða stjórnarmenn stóðu að úrskurðinum og er svo reyndar enn. Í tilefni af fyrirspurn minni til stjórnarinnar í bréfi, dags. 17. apríl 2019, kom fram að framkvæmdin hefði fram að því verið sú að birta ekki nöfn þeirra stjórnarmanna sem taka ákvarðanir í rafrænni útgáfu á vef Persónu­verndar en ákveðið hefði verið að breyta því og nöfnin yrðu framvegis birt.

Ákvæði um sérstakt hæfi nefndarmanna sem sitja í stjórn­sýslu­nefndum á vegum ríkisins er að finna í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga má sá sem er van­hæfur til meðferðar máls ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess.     Í 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga eru í sex töluliðum taldar upp ástæður er valda eða geta valdið vanhæfi starfsmanns eða nefndarmanns til meðferðar máls. Samkvæmt 1.- 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. leiða tiltekin tengsl viðkomandi eða þeirra sem tilgreindir eru í ákvæðunum til van­hæfis og síðan er í 6. tölulið ákvæðisins kveðið á um að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni starfsmannsins eða nefndarmannsins í efa með réttu.

Í svari stjórnar Persónuverndar varðandi athugasemdir yðar vegna van­hæfis stjórnarmanna og spurningu mína um það efni er því lýst að vara­formaður stjórnarinnar hafi vikið sæti í máli nr. 2018/30 og um ástæður þess er vísað til þess að hann hafi áður vikið sæti í öðru kvörtunarmáli yðar nr. 2016/1783 sem varðaði birtingu persónuupplýsinga í dómum. Síðan er tekið fram að líta megi svo á að varaformaðurinn hafi í þessu tilviki vikið sæti umfram þá lagaskyldu sem verði leidd af 3. gr. stjórnsýslulaga. Stjórnin hafi ákveðið að fallast á tillögu hans um að víkja sæti. Þá er því lýst að formaður stjórnarinnar hafi vikið sæti í fyrri kvörtunarmálum yðar sem beindust að birtingu Hæstaréttar Íslands á persónuupplýsingum í dómum, í ljósi þess að maki stjórnarformanns hafi verið hæstaréttardómari. Um mál nr. 2018/30 segir síðan:

„Í því máli sem hér er til skoðunar beindist kvörtun [A] að þeim aðgangi sem veittur er á vef Fons Juris að persónu­upp­lýsingum sem birtar eru í dómum á vefsíðu Hæstaréttar Íslands. Eðlilegt þótti að skera úr því lögfræðilega álitamáli hver staða Fons Juris sé sem ábyrgðaraðila, frekar en að fresta úrlausn þess, enda hafði það beina þýðingu fyrir hagsmuni [A] svo og almennt fyrir gildi ákvæða persónuverndarlaga við þessar að­stæður. Ljóst er að hvorki stjórnarformaðurinn né héraðsdómari sem sat sem varaformaður í málinu töldu að fyrir hendi væru aðstæður sem væru fallnar til þess að draga óhlutdrægni þeirra í efa til að skera úr um hvort Fons Juris hefði brotið gegn ákvæðum persónuverndarlaga í máli [A], sbr. ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sú stjórnvaldsákvörðun sem stjórnin tók í málinu laut enda aðeins að réttindum [A] gagn­vart Fons Juris.“

Í hnotskurn byggist þessi afstaða stjórnar Persónuverndar á því að kvörtun yðar hafi beinst að birtingu persónuupplýsinga á vef Fons Juris ehf. þar sem veittur sé aðgangur að umræddum dómum og því hafi enginn dómstóll verið aðili að máli nr. 2018/30 hjá Persónuvernd. Eini aðili málsins, að yður frátöldum, hafi verið Fons Juris ehf. Verkefni Persónuverndar hafi því verið að skera úr um hvort vinnsla Fons Juris ehf. á persónuupplýsingum um yður hefði verið í samræmi við lög.

  

2

Í úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2018/30 er fjallað um birtingu persónuupplýsinga um yður í tveimur dómum Hæstaréttar í málum nr. X og Y sem birtir voru á vef Fons Juris ehf. Um fyrri dóminn hafði stjórn Persónu­verndar áður fjallað í tilefni af kvörtun yðar yfir birtingu hans á vef Hæstaréttar og gert Hæstarétti að afmá persónugreinanlegar upp­lýsingar um yður úr útgáfu dómsins sem birt var á vef réttarins og senda Persónuvernd staðfestingu þess efnis eigi síðar en 30. október 2017. Sú kvörtun yðar sem var tilefni úrskurðar nr. 2018/30 barst Persónuvernd 8. maí 2018. Samkvæmt frásögn í úrskurðinum kom fram í svari Fons Juris ehf. frá 21. júní 2018 til Persónuverndar, þegar félaginu var kynnt kvörtun yðar, að starfsmenn félagsins hefðu fyrst vitað af eldri úrskurðinum þegar blaðamaður fjölmiðils hringdi í starfsmann félagsins 27. október 2017. Í framhaldi af símtalinu hafi starfsmenn Fons Juris ehf. brugðist við og eytt umræddum dómi úr heimildasafni félagsins samdægurs. Þær persónuupplýsingar sem birst hafi í dómnum séu því ekki lengur skráðar hjá félaginu. Hins vegar kom fram að einu persónu­upp­lýsingar um yður sem þá væru skráðar hjá Fons Juris ehf. væru upplýsingar sem kæmu fram í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. Y. Fram kom að þær persónu­upplýsingar væru ekki viðkvæmar að mati félagsins.

Hvað varðar dóminn í máli nr. X er því lýst í úrskurðinum að fram hafi komið við athugun Persónuverndar að sá dómur væri nú birtur á vef Fons Juris ehf. með sama hætti og á vef Hæstaréttar og þær upplýsingar sem nú birtust í dómnum væru ópersónugreinanlegar. Athugun Persónu­verndar vegna dóms í máli nr. X var þannig afmörkuð við hvort aðgangur að dóminum hjá Fons Juris ehf. fram að 27. október 2017 hefði samrýmst þágildandi persónuverndarlögum nr. 77/2000. Hins vegar kemur fram að enn sé veittur aðgangur að viðkvæmum persónuupplýsingum í dómi í máli nr. Y og þessi atriði falli undir valdsvið Persónuverndar.

Það er vissulega rétt, eins og kemur fram í skýringum stjórnar Persónu­verndar, að kvörtun yðar beindist að því hvernig upplýsingar um yður sem voru birtar í dómum á vef Hæstaréttar voru gerðar aðgengilegar í heimildasafni Fons Juris ehf. Álitamálin sem stjórn Persónuverndar þurfti þarna að taka afstöðu til lutu m.a. að því hver teldist ábyrgðar­aðili samkvæmt reglum persónuverndarlaga, og þá eftir atvikum hvort ábyrgðin skiptist og þá á hvaða þáttum vinnslu mismunandi aðilar bæru ábyrgð, og um lögmæti vinnslu upplýsinganna. Við úrskurð stjórnar Persónuverndar í máli yðar þurfi að taka afstöðu til þess að hvaða marki Hæstiréttur Íslands teldist ábyrgðaraðili í ofangreindu samhengi og þá hvaða áhrif niðurstaða þar um hefði á stöðu Fons Juris  ehf. hvað varðar ábyrgðina. Þetta gekk eftir í úrskurðinum og þar er komist að tiltekinni niðurstöðu um að hvaða marki Hæstiréttur teljist vera ábyrgðaraðili og hvernig staða Fons Juris ehf. sem ábyrgðaraðila er afmörkuð. Hins vegar er ekki í úrskurðinum vikið að hugsanlegum viðbrögðum dómstólsins, Hæstaréttar Íslands, gagnvart þekktum endurbirtingaraðila dóma þegar Persónuvernd hefur gert Hæstarétti að afmá persónuupplýsingar úr til­teknum dómi sem slíkur aðili endurbirtir.

  

3

Að því er varðar úrlausn um mögulegt vanhæfi stjórnarmanna Persónu­verndar til að úrskurða í máli yðar vegna tengsla við dómara Hæstaréttar vek ég athygli á því að annar dómurinn sem við sögu kemur í  máli yðar, dómur í máli nr. Y, var á þeim tíma sem málið var til úrskurðar hjá stjórninni enn birtur á vef Hæstaréttar. Í þessum dómi voru, eins og segir í úrskurðinum, birtar upplýsingar um sjúkrasögu yðar sem töldust vera viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi ákvæða persónuverndar­laga. Stjórnin var því meðvituð um að í þeirri útgáfu dómsins sem birt var af hálfu Hæstaréttar, og Fons Juris ehf. veitti aðgang að, voru birtar viðkvæmar persónuupplýsingar. Það var hins vegar afstaða Fons Juris hf. að hinar birtu upplýsingar væru ekki viðkvæmar. Í ljósi þessara máls­atvika hlaut að koma til álita hjá stjórn Persónuverndar hvernig haga ætti meðferð á kvörtun yðar að þessu leyti, t.d. hvort rétt væri að ráða þætti Fons Juris ehf. til lykta áður en fengin væri formleg niður­staða um birtingu dómsins gagnvart Hæstarétti.

Ég tel ljóst af þessu, og eins og hagað var efni úrlausnar og rök­stuðningi vegna máls yðar í úrskurðinum, að álitaefni um hvernig Hæsti­réttur Íslands hafði staðið að birtingu umræddra dóma hafi kallað á mat á því hvort þeir stjórnarmenn Persónuverndar sem höfðu tengsl við dómara Hæstaréttar uppfylltu kröfur um sérstakt hæfi til meðferðar á máli yðar samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga. Fram er komið að maki formanns stjórnar Persónuverndar sem tók þátt í meðferð máls yðar var á þessum tíma hæstaréttardómari. Hæstiréttur setti sér 17. desember 2002 reglur um útgáfu hæstaréttardóma og þar eru m.a. reglur um nafnleynd við birtingu dóma í dómasafni og á heimasíðu Hæstaréttar. Í reglunum kemur ekki fram hver annist framkvæmd þeirra að öðru leyti en því að tekið er fram að forseti Hæstaréttar geti að öðru leyti en fram kemur í 3. gr. þeirra ákveðið nafnleynd í einstökum málum, ef sérstakar ástæður mæla með því. Samkvæmt lögum fer forseti Hæstaréttar með yfirstjórn réttarins og ber ábyrgð á rekstri hans, sjá 14. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla. Þegar Hæstiréttur kvað upp dóm í máli yðar nr. Y og birti á heimasíðu réttarins var maki formanns stjórnar Persónuverndar forseti Hæstaréttar. Maki formannsins var því fyrirsvarsmaður Hæstaréttar Íslands þegar dómur í máli nr. Y var kveðinn upp og skipaður hæstaréttardómari þá og þegar dómur í máli nr. X var kveðinn upp við réttinn.

Í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan er ég ekki sammála þeirri afstöðu sem kemur fram í skýringum stjórnar Persónu­verndar til mín um að ekki hafi verið fyrir hendi aðstæður sem leiddu til þess að formanni stjórnarinnar hafi borið að víkja sæti við meðferð á máli yðar. Að því marki sem regla 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 um tengsl við fyrirsvarsmann aðila átti ekki við tel ég að 6. tölul. sama ákvæðis hafi átt við og formanninum hafi borið að víkja sæti við afgreiðslu á máli yðar. Þau viðfangsefni sem maki for­mannsins fór með í starfi sínu á þeim tíma sem hér skipti máli voru í það nánum tengslum við úrlausnarefni þessa máls að telja verður að eðli og vægi þeirra hagsmuna sem þar gat reynt á hafi verið þess háttar að almennt hafi verið hætta á að umrædd staða makans hefði áhrif. Hér þarf jafnframt að líta til þess trausts á störfum stjórnvalda sem hæfis­reglum stjórnsýslulaganna er ætlað að stuðla að hjá þeim sem leita til þeirra til að úrskurða í sínum málum og almennt.

  

4

Þér gerið einnig athugasemdir við hæfi varamannsins, C, héraðsdómara. Ég skil það svo að þessar athugasemdir byggist á því að hún sé meðal dómara við Héraðsdóm Reykjaness og dómur frá þeim dómstól komi við sögu í þeim dómum Hæstaréttar sem kvörtun yðar tók til. Af hálfu yðar hefur ekki verið vísað til þess að hún hafi staðið að uppkvaðningu eða birtingu þessara dóma.

Þótt C starfi sem héraðsdómari og þurfi í starfi sínu að taka afstöðu til þess hvernig hún stendur að birtingu dóma með tilliti til viðkvæmra persónuupplýsinga tel ég að það eitt leiði ekki til þess að hún teljist almennt vanhæf á grundvelli reglna stjórnsýslulaga til að taka þátt í meðferð stjórnar Persónuverndar á kvörtunum þar sem reynir á hvernig Hæstiréttur hefur staðið að birtingu dóma í einstökum málum, og þá eftir atvikum úrlausn héraðsdómstóla sem þeim fylgja. Öðru kann að gegna ef héraðsdómari hefur haft beina aðkomu að dómi sem á reynir við umfjöllun Persónuverndar eða til umfjöllunar eru almenn atriði sem lúta að framkvæmd dómstóla og þá sérstaklega héraðsdómstóla á birtingu dóma. Ég tel mig því ekki hafa forsendur, eins og málum var hér háttað, til að gera athugasemdir við að C hafi sem varamaður tekið þátt í meðferð á máli yðar.

  

III

1

Þegar kemur að mati á því hvort sá annmarki að formanni stjórnar Persónu­verndar hafi borið að víkja sæti við meðferð á máli yðar gefi tilefni til tilmæla af minni hálfu um að stjórnin fjalli á ný um kvörtun yðar tel ég rétt að líta til framvindu málsins í heild. Ég hef þá líka í huga að eftirlit og athafnir Persónuverndar í tilefni af kvörtunum þeirra sem telja að brotið hafi verið á þeim með birtingu persónu­upp­lýsinga miða ekki síst að því að slík brot séu stöðvuð og látið af birtingu upplýsinga í andstöðu við persónuverndarlög.

Að því er varðar birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga í dómi Hæstaréttar í máli nr. X og aðgengi að þeim dómi hjá Fons Juris ehf. tel ég rétt að líta til þess að Persónuvernd hafði þegar, áður en þér lögðuð fram kvörtun yðar sem úrskurður nr. 2018/30 fjallar um, gert Hæsta­rétti að afmá persónugreinanlegar upplýsingar um yður úr útgáfu réttarins á þeim dómi á heimasíðu hans. Þótt það hafi ekki verið fyrir eigið frumkvæði Persónuverndar eða Hæstaréttar sem Fons Juris ehf. fékk vitneskju um úrskurðinn gagnvart Hæstarétti hafði félagið brugðist við og gert breytingar á birtingu dómsins í heimildasafni sínu áður en kvörtun yðar kom fram.

Í tilviki dóms í máli nr. Y var því lýst í niðurlagi úrskurðar í máli nr. 2018/30 að Persónuvernd myndi í kjölfar uppkvaðningar úr­skurðar­ins hefja athugun gagnvart Hæstarétti Íslands vegna birtingar á viðkvæmum persónuupplýsingum í dóminum eins og hann væri birtur í dóma­safni réttarins. Með svarbréfi stjórnar Persónuverndar, dags. 17. maí 2019, barst mér afrit af bréfi Persónuverndar til Hæstaréttar Íslands þar sem fram kemur að Hæstiréttur hafi tilkynnt Persónuvernd um að búið sé að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar um yður úr úfgáfu dóms í máli nr. Y sem birtist á vefsíðu réttarins. Tekið er fram að Per­sónu­vernd hafi staðreynt að persónuupplýsingar um yður hafi verið afmáðar og að því virtu telji Persónuvernd ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu og það sé fellt niður gagnvart Hæstarétti Íslands. Af minni hálfu hefur verið staðreynt að dómur í máli nr. Y er nú birtur í heimilda­safni Fons Juris ehf. með sama hætti og á vef Hæstaréttar.

Hugsanleg endurupptaka úrskurðarins í máli nr. 2018/30 mun því ekki hafa áhrif til breytinga á birtingu þeirra upplýsinga um yður sem kvörtunin fjallaði um. Þá liggur fyrir að með samkomulagi yðar og íslenska ríkisins frá 10. september sl. féllst ríkið á að greiða yður miskabætur auk lögmannskostnaðar vegna birtingar á viðkvæmum persónu­upp­lýsingum um yður í tilteknum dómum. Þar er tekið fram að með gerð sam­komulagsins hafi íslenska ríkið að fullu bætt tjón yðar vegna hinna til­greindu birtingu dóma.

  

2

Eftir stendur þá að í úrskurði í máli nr. 2018/30 kom fram ákveðin afstaða Persónuverndar til þess hvernig bæri að greina á milli ábyrgðar Hæstaréttar og Fons Juris ehf. við birtingu dóma og um heimild Fons Juris ehf. til að taka upp í heimildasafn sitt og veita aðgang að þeim dómum sem dómstólar hefðu birt. Á þessum grundvelli var síðan komist að þeirri niðurstöðu í úrskurðarorði að veiting Fons Juris ehf. á aðgangi að dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. X og Y á vef félagsins sam­rýmdist persónuverndarlögum.

Þessi síðastgreindu atriði í úrskurðinum, sbr. m.a. þýðing 9. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 við úrlausn málsins, og þar með staða þeirra, sem dómstólar birta viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar um í dómum, við endurbirtingu upplýsinganna af hálfu annarra eins og sér­hæfðra heimildasafna með leitarmöguleikum, varð ásamt fleiru til þess að ég ákvað að skoða hvort tilefni væri áðurnefndar athugunar að eigin frumkvæði. Ég hafði þá líka í huga þær almennu athugasemdir sem þér höfðuð sett fram í skrifum yðar til Persónuverndar sem er að hluta til gerð grein fyrir í úrskurðinum. Í kvörtun yðar til mín er fundið að því að Persónuvernd hafi ekki leyst úr öllum atriðum sem kvörtun yðar þangað laut að.

Eftir athugun mína á kvörtun yðar og með vísan til þeirra atriða sem ég hef rakið hér að framan er það niðurstaða mín að þrátt fyrir áður­nefndan annmarka um hæfi stjórnarmanns Persónuverndar sé ekki til­efni til þess að ég setji fram tilmæli til stjórnar Persónuverndar um að hún fjalli á ný um þá kvörtun sem hún leiddi til lykta með úrskurði sínum í máli nr. 2018/30. Ég tek fram að í því felst ekki að ég sé endilega sammála þeim efnislegu og lagalegu atriðum sem stjórn Per­sónu­verndar byggði á í úrskurði sínum. Þar er hins vegar um að ræða atriði sem kunna að hafa almenna þýðingu en ekki bara í máli yðar og því hafði ég í hyggju að leggja frekari athugun þeirra í farveg frumkvæðis­athugunar.

Ég hafði því gert ráð fyrir að afgreiða kvörtun yðar endanlega samhliða því að afdrif frumkvæðisathugunarinnar lægju fyrir og þar með gæfist færi á að vísa í efnislegar niðurstöður þeirrar athugunar að því marki sem þær hefðu þýðingu um þau atriði sem þér hafið hreyft, bæði fyrir Persónuvernd og í kvörtuninni til umboðsmanns. Þér hafið hins vegar ítrekað óskað eftir að kvörtun yðar fengi sem fyrst afgreiðslu af minni hálfu. Vissulega hafa áform um skoðun þessara mála hjá umboðsmanni að eigin frumkvæði gengið hægar en ég hefði kosið. Margvíslegar ábendingar um þessi mál hafa borist og búið er að leggja drög að þeim atriðum sem gætu gefið tilefni til umfjöllunar með tilliti til aðkomu stjórnvalda og verkefna stjórnsýslunnar vegna þessara mála. Það skal þó ítrekað að í grunninn er fyrirkomulag og framkvæmd við birtingu dóma á hendi dómstólanna og þeir falla ekki undir starfssvið umboðsmanns.

Við þennan undirbúning hefur verið fylgst með og aflað upplýsinga um aðkomu annarra að þessum málum og þá endurskoðun á lögum og reglum sem þar kann að hafa þýðingu. Fram hefur komið að þessi mál hafa verið til umfjöllunar á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þá liggur fyrir að Persónuvernd vinnur að ákveðinni frumkvæðisathugun sem lýtur að birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga í dómum. Þar skiptir líka máli að viðfangsefnið er ekki bara nýir dómar sem eru birtir heldur hvernig standa eigi að þessum málum varðandi dóma sem þegar hafa verið birtir og hafa að geyma viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar.

Vitneskja um áðurnefnt starf sem unnið hefur verið að af hálfu annarra aðila vegna þessara mála varð til þess að ég taldi rétt að sjá hver framvinda þess yrði áður en ég tæki frekari ákvarðanir um framhald og lok athugunar umboðsmanns á þessum málum. Því er ekki að leyna að þar hefur líka haft áhrif að vegna takmarkaðs mannafla hefur umboðsmaður mjög lítið getað sinnt frumkvæðisathugunum á síðustu misserum og í ljósi fjárveitinga til starfs umboðsmanns á næsta ári mun enn þrengja þar að. Á þessari stundu er því ekki ljóst í hvaða mæli og hvenær kann að koma til þess að umboðsmaður Alþingis fjalli frekar að eigin frumkvæði um þátt stjórnsýslunnar þegar kemur að gæslu persónuverndar vegna birtinga á dómum og hvort meinbugir kunni að vera á gildandi lögum að þessu leyti.

  

IV

Ég hef því í samræmi við framangreint ákveðið að ljúka athugun minni á kvörtun yðar frá 10. mars 2019 með bréfi þessu, sbr. b-lið  2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Tekið skal fram að upplýsingar um framgang þeirrar athugunar umboðsmanns að eigin frum­kvæði sem vísað var til hér að framan verða ekki kynntar yður sérstaklega heldur verða upplýsingar þar um birtar á vef umboðsmanns Alþingis, ef talið verður tilefni til.