Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit.

(Mál nr. 10152/2019)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá júlí 2018 sem hafnaði kröfu um að ógilda ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús. Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við úrskurðinn.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til erindis yðar 17. júlí 2019 f.h. A. Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti að úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. júlí 2018 í máli nr. 68/2016 þar sem nefndin hafnaði kröfu umbjóðanda yðar um ógildingu á ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús að [...].   

Auk framangreindrar kvörtunar hafið þér einnig leitað til mín með kvörtun 23. júlí 2019 vegna úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 24. júlí 2018 í máli nr. 134/2016. Með þeim úrskurði hafnaði nefndin kröfu um ógildingu á þeirri ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 17. ágúst 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi [...]. Hefur það mál fengið númerið 10160/2019 í málaskrá umboðsmanns.

  

II

Af kvörtun yðar, meðfylgjandi gögnum, samantekt A og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 68/2016 fæ ég ráðið að umsókn um starfsleyfi fyrir veitingahús í flokki II að [...] hafi verið móttekin hjá Reykjavíkurborg 9. desember 2015. Í framhaldinu hafi heilbrigðiseftirlitið farið í eftirlits­­ferð 13. maí 2016. Fyrir liggur að á afgreiðslufundi heilbrigðis­eftirlitsins 17. maí sama ár var starfsleyfisumsóknin tekin fyrir og samþykkt að veita leyfi til tólf ára með starfsleyfisskilyrðum fyrir samkomuhús og fyrirvara um rekstrarleyfi sýslumanns. Þá var það skilyrði sett að rekstraraðili myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. reglugerð nr. 724/2008, um hávaða, og reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti. Þann sama dag var starfsleyfið gefið út af framkvæmdastjóra heilbrigðis­eftirlitsins.

Þar sem starfsemi og rekstur veitingastaða er einnig háður rekstrarleyfi var á sama fundi einnig lagt fram bréf sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 26. apríl 2016 þar sem óskað var eftir því að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur myndi veita umsögn fyrir veitingastað í flokki II, ásamt útiveitingum, og var á fundinum samþykkt að veita jákvæða umsögn. Þá veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík einnig jákvæða umsögn, en óskaði eftir því að rekstrarleyfið yrði einungis veitt til bráðabirgða til 12 mánaða þar sem unnið væri að deiliskipulagsbreytingu á svæðinu. Í framhaldinu, 25. maí 2016, veitti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu X ehf., sem er þinglýstur eigandi að [...], rekstrarleyfi til bráðabrigða til eins árs, frá 25. júní 2016, fyrir veitingahús í flokki II.

Framangreind ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu var kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með bréfi, dags. 7. júní 2016. Með úrskurði ráðuneytisins frá 14. nóvember 2017 í máli nr. ANR16060105/0.7.6 var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 25. maí 2016 um að veita rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki II að [...] tímabundið til 12 mánaða felld úr gildi. Hinn 16. ágúst 2017 samþykkti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hins vegar nýtt rekstrarleyfi fyrir [...] og var sú ákvörðun einnig kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Samkvæmt kvörtun yðar 18. nóvember sl., sem hefur fengið málsnúmerið 11404/2021 í málaskrá umboðsmanns, staðfesti ráðuneytið ákvörðunina með úrskurði 18. nóvember 2020. Sá úrskurður er hluti af athugun umboðsmanns á téðu máli nr. 11404/2021 og verður því ekki fjallað nánar um hann í þessu bréfi.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, þ.á m. að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sem fyrr segir staðfest ákvörðun sýslumanns um útgáfu rekstrarleyfis sem er til athugunar í öðru máli, tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 68/2016.

  

III

Með vísan til framangreinds er umfjöllun minni um erindi yðar frá 17. júlí 2019 lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.