Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11222/2021)

Kvartað var yfir því að Staðlaráð Íslands lagði niður starf og sagði viðkomandi upp í kjölfarið.

Umboðsmaður taldi að um væri að ræða frjáls félagasamtök sem féllu ekki undir starfssvið umboðsmanns hvað kvörtunarefnið snerti.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A, sem barst 14. júlí sl., og lýtur að ákvörðun Staðlaráðs Íslands um að leggja niður starf hans [...] og segja honum upp störfum í kjölfar þess. Í kvörtun yðar byggið þér á því að ráðið sé stjórnvald sem beri að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 án þess þó að það sé rökstutt að öðru leyti en því að ráðið starfi samkvæmt lögum nr. 36/2003, um staðla og Staðlaráð Íslands.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns almennt til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar að jafnaði ekki undir starfssviðið eins og það er afmarkað í lögum. Í þessu máli reynir á hvort kvörtunarefnið falli undir starfssvið umboðsmanns.

Við mat á því hvort lögaðili telst vera stjórnvald hefur í framkvæmd verið litið til nokkurra lagasjónarmiða. Litið hefur verið til þess á hvaða grundvelli aðila hefur verið komið á fót. Ef það hefur verið gert með lögum eða heimild í lögum hefur það verið talið benda til þess að um stjórnvald sé að ræða. Jafnframt hefur verið litið til þess hvernig aðili er fjármagnaður. Ef starfsemi aðila er kostuð af almannafé hefur það verið talið benda til þess að um stjórnvald sé að ræða. Auk þess hefur verið litið til þess hvernig nánara skipulagi og starfsemi aðila er háttað og hvort opinberir aðilar hafi veruleg áhrif á skipulag og starfsemi hans, t.d. hvaða reglur gilda um starfsemi aðila og hvort opinber aðili hafi t.d. yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir gagnvart honum. Er þá m.a. litið til þess hvort ráðherra hafi með lögum verið fengin heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi viðkomandi aðila.

Fjallað er um Staðlaráð Íslands í lögum nr. 36/2003. Ráðið er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum og er aðild að ráðinu öllum heimil, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Ráðið setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir þar sem m.a. skal kveða á um skipulag ráðsins, stjórn þess og daglega starfsemi, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna, og er nánar fjallað um hlutverk ráðsins og stjórnar þess í 4.-6. gr. þeirra.

Gildandi starfsreglur voru samþykktar á aðalfundi Staðlaráðs Íslands 28. maí 2020 og staðfestar af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 31. ágúst sama ár. Í 3. gr. þeirra reglna kemur fram að aðild að ráðinu sé heimil öllum fyrirtækjum, stofnunum, stjórnvöldum, félögum og samtökum. Aðilar að ráðinu greiða aðildargjöld, sbr. 4. gr. reglnanna, og er stjórn ráðsins kosin á aðalfundi til tveggja ára, sbr. 13. gr. reglnanna. Til að standa straum af starfsemi ráðsins rennur hluti af gjaldstofni tryggingagjalds til þess, sbr. 7. gr. laga nr. 36/2003, en ráðið hefur þó sjálfstæðan fjárhag og aðrar tekjur, sbr. 5. gr. starfsreglna ráðsins.

Af framangreindu leiðir að þótt fjallað sé um verkefni Staðlaráðs Íslands í lögum, að ráðherra hafi tiltekna aðkomu að reglusetningu um skipulag og starfsemi ráðsins og það sé að hluta til fjármagnað með tryggingagjaldi verður að leggja til grundvallar að um sé að ræða frjáls félagasamtök sem falla ekki undir starfssvið umboðsmanns nema að því marki sem þeim kann að lögum að hafa verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Styðst sú ályktun enn fremur við lögskýringargögn, en í athugasemdum við frumvarp sem varð að fyrrnefndum lögum nr. 36/2003 segir m.a. að nauðsynlegt þyki að kveða nánar á um hvernig rekstri ráðsins skuli háttað þar sem það sé opinber vettvangur hagsmunaaðila til að vinna að stöðlum þótt það sé ekki opinber stofnun (Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 2893).

Í ljósi framangreinds um stöðu ráðsins að lögum eru ekki forsendur til að líta svo á að ákvarðanir þess í starfsmannamálum, þ.á m. um að segja umbjóðanda yðar upp störfum, feli í sér að opinberu valdi sé beitt. Umrædd ákvörðun ráðsins var því ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Í því sambandi verður ekki séð að tilvísun í ráðningarsamningi til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, geti breytt því hvort stjórnsýslulög gildi eða ráðið falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis. Af þeim sökum fellur kvörtunarefnið utan starfssviðs umboðsmanns, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.