Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11361/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hafnaði kröfu um að fella úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að synja beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi. Var tilgangur beiðninnar að heimilt yrði að leigja út frístundahús/frístundaeiningar á viðkomandi lóð. Ákvörðun sveitarstjórnar bryti gegn stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi og jafnræðisreglu.

Eftir að hafa kynnt sér úrskurð úrskurðarnefndarinnar taldi umboðsmaður ekki efni til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Hafði hann þar einkum í huga þær víðtæku skipulagsheimildir sem sveitarstjórnum eru fengnar samkvæmt skipulagslögum og ekki lá fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hefðu legið til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar. Þá hefði rökstuðningur hennar samræmst kröfum stjórnsýslulaga.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar og bræðra yðar frá 25. október sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 24. september sl. í máli nr. 64/2021. Með úrskurðinum hafnaði nefndin þeirri kröfu að felld yrði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 14. maí sl. um að synja beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi [...] vegna lóðar nr. [...]. Var tilgangur beiðninnar að heimilt yrði að leigja út frístundahús/frístundaeiningar á lóðinni.

Kvörtunin er einkum byggð á því að ákvörðun sveitarstjórnar brjóti gegn stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi og jafnræðisreglu. Vísið þér til þess að í úrskurði nefndarinnar frá 13. febrúar 2020 í máli nr. 7/2019 hafi verið staðfest ákvörðun Fljótsdalshéraðs um breytingar á deiliskipulagi sem þér teljið hafa verið sambærilegar þeim sem fyrrnefnd beiðni laut að. Þá hafi sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkt álíka breytingar fyrir [...] vegna lóðar nr. [...].

  

II

1

Af hálfu Skútustaðahrepps var m.a. vísað til þess að samkvæmt lóðarleigusamningi hafi frá upphafi verið gert ráð fyrir heimild til gistireksturs á lóðum nr. 1 og 2 og forsendur þeirrar heimildar hafi verið staðsetning lóðanna á jaðri svæðisins. Slíka heimild hafi ekki verið að finna í lóðarleigusamningi vegna lóðar nr. 15. Þá var tekið fram að yrði gistirekstur heimilaður á lóð nr. 15 væri staðsetning lóðarinnar til þess fallin að gera mætti ráð fyrir aukinni umferð gestkomandi, sem væri forsendubrestur gagnvart öðrum lóðarhöfum sem fjárfest hefðu í lóðum í [...]. Var það mat úrskurðarnefndarinnar að efnisrök hefðu búið að baki ákvörðun sveitarstjórnarinnar og að ekki lægju fyrir neinir þeir annmarkar sem leiða ættu til ógildingar hennar.

   

2

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Þær fjalla um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmd skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum. Í 1. mgr. 38. gr. laganna er kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga.

Með skipulagslögum er sveitarstjórnum falið víðtækt vald í skipulagsmálum innan sinna staðarmarka, sem þó sætir takmörkunum sem leiða af lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Þannig ber sveitarstjórnum m.a. að haga málsmeðferð sinni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar og gæta þess að ákvörðun sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 439/2012.

Vegna athugasemda yðar um að ákvörðun sveitarstjórnar hafi brotið gegn jafnræðisreglu tek ég fram að samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Það er skilyrði fyrir því að ákvarðanir stjórnvalda verði taldar brjóta í bága við þær jafnræðisreglur sem þeim ber að fylgja að tilvik séu talin sambærileg í lagalegu tilliti. Í málinu liggur fyrir að í lóðarleigusamningi fyrir [...] lóðir nr. [...] og [...] var gert ráð fyrir heimild til gistireksturs, en slíka heimild er ekki að finna í lóðarleigusamningi fyrir lóð nr. 15. Þegar af þeirri ástæðu tel ég ekki unnt að slá því föstu að um sambærileg tilvik hafi verið að ræða að þessu leyti í lagalegu tilliti. Þá leiðir sú staða að annað sveitarfélag hafi samþykkt tillögu um breytingu á deiliskipulagi á þann veg að heimila gistirekstur innan frístundabyggðar ekki til þess að sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi borið að samþykkja slíka tillögu á grundvelli jafnræðisreglna.

Í tilefni af athugasemdum yðar við rökstuðning samkvæmt úrskurðinum í máli nr. 64/2021 og ekki hafi verið fjallað um stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi bendi ég á að kveðið er á um lágmarkskröfur til rökstuðnings í 22. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 4. tölul. 31. gr. sömu laga. Þar segir að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í fyrrnefndum úrskurði var fjallað með rökstuddum hætti um skipulagsvald sveitarfélaga samkvæmt skipulagslögum og að engir annmarkar hefðu verið á ákvörðun sveitarfélagsins sem hefðu áhrif á gildi hennar. Í ljósi þess hvernig málið var vaxið tel ég ekki forsendur til að gera þær athugasemdir við rökstuðning nefndarinnar að hann hafi ekki samræmst kröfum sem leiða af 22. gr. stjórnsýslulaga.

Að öðru leyti og eftir að hafa kynnt mér úrskurð úrskurðarnefndarinnar tel ég ekki efni til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Hef ég þar einkum í huga þær víðtæku skipulagsheimildir sem sveitarstjórnum eru sem fyrr greinir fengnar samkvæmt skipulagslögum og ekki liggur fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtuninni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.