Matvæli.

(Mál nr. 11372/2021)

Kvartað var yfir úrlausn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á erindi þar sem farið var fram á, með vísan til álits umboðsmanns, að ráðuneytið endurskoðaði þá ákvörðun að synja beiðni um að fella niður tilboð í WTO-tollkvóta. Auk þess var óskað eftir endurgreiðslu vegna málsins.

Umboðsmaður benti á að hann hefði ekki réttarskipandi vald að lögum í einstökum málum sem hann hefði til meðferðar og gæti því ekki tekið ákvarðanir sem binda enda á þann ágreining sem lægi fyrir. Þetta setti því skorður að hvaða marki hann gæti tekið kvartanir sem lytu að viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum hans til frekari meðferðar. Þótt ráðuneytið hefði í þessu tilfelli komist að sömu niðurstöðu og fyrr varð það við tilmælum umboðsmanns að taka málið aftur til meðferðar og því ekki tilefni til að hann fjallaði frekar um það kvörtunarefni. Hvað endurgreiðsluna snerti benti umboðsmaður á að það væri almennt ekki gert ráð fyrir að hann tæki afstöðu til greiðslu- eða bótaskyldu heldur væri það hlutverk dómstóla.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. desember 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A ehf. frá 1. nóvember sl. yfir úrlausn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sama dag á erindi sem þér senduð ráðuneytinu 7. júní 2019. Þar var farið fram á, með vísan til álits umboðsmanns Alþingis 31. maí 2019 í máli nr. 9819/2018, að ráðuneytið endurskoðaði þá ákvörðun að synja beiðni umbjóðanda yðar um að fella niður tilboð í WTO-tollkvóta, auk þess sem óskað var endurgreiðslu vegna málsins. Í fyrrnefndu áliti hafði umboðsmaður komist að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hefði ekki leyst með fullnægjandi hætti úr beiðni A ehf. 13. júní 2018 um niðurfellingu úthlutunar WTO-tollkvóta.

  

II

1

Í 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um með hvaða hætti umboðsmanni sé heimilt að ljúka meðferð kvartana sem honum hafa borist. Samkvæmt b-lið 2. mgr. ákvæðisins getur umboðsmaður lokið máli sem hann hefur tekið til nánari athugunar með áliti á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða þeim siðareglum sem þar eru tilgreindar. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns geti hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur.

Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar ekki að lögum réttarskipandi vald í einstökum málum sem hann hefur til meðferðar. Hann getur því ekki tekið ákvarðanir sem binda enda á þann ágreining sem fyrir liggur. Máli sem umboðsmaður hefur til meðferðar getur þannig lokið með áliti þar sem sett eru fram tilmæli til stjórnvalda en almennt fer það þá eftir frekari aðgerðum þess sem leitað hefur til umboðsmanns og viðbrögðum stjórnvaldsins hver verður framgangur málsins. Þá er rétt að geta þess að samkvæmt 12. gr. laga nr. 85/1997 skal umboðsmaður gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Í skýrslunum hafa verið tekin saman viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns til að gefa Alþingi greinargott yfirlit yfir viðbrögð stjórnvalda við þeim.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú, eins og fyrr greinir, að umboðsmaður hefur að jafnaði ekki frekari úrræði en að lýsa áliti sínu með vísan til b-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þessi staða kann því að setja því skorður að hvaða marki umboðsmaður getur tekið kvartanir sem lúta að viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns til frekari meðferðar. Þegar einstaklingur eða lögaðili sem hefur leitað til umboðsmanns telur að stjórnvald hafi ekki orðið við tilmælum sem umboðsmaður setur fram í áliti eða er ósáttur við niðurstöðu stjórnvalds eftir að það hefur tekið málið aftur til meðferðar þarf þess vegna að leggja sjálfstætt mat á hvort tilefni sé til þess að umboðsmaður fjalli um málið á ný á grundvelli kvörtunar frá hlutaðeigandi. Er þá m.a. tekið tillit til þess hvort umboðsmaður hafi þegar lýst afstöðu sinni til þeirra álitaefna sem eru uppi í málinu og að hvaða marki það fellur að hlutverki og starfssviði umboðsmanns að fjalla um kvörtunina.

  

2

Í máli nr. 9819/2018 var það niðurstaða umboðsmanns að með svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 19. júní 2018 við beiðni A ehf. 13. sama mánaðar um niðurfellingu úthlutunar WTO-tollkvóta hefði ekki verið leyst með fullnægjandi hætti úr erindi félagsins. Ekki yrði því séð að ráðuneytið hefði við meðferð málsins tekið afstöðu til þess hvort því hefði borið að afturkalla ákvörðun um úthlutun á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. laganna. Synjun ráðuneytisins á beiðninni hefði því að áliti umboðsmanns ekki verið í samræmi við lög.

Á grundvelli framangreindrar niðurstöðu beindi umboðsmaður tilmælum til ráðuneytisins um að taka málið aftur til meðferðar, yrði þess óskað, og jafnframt að taka þá og framvegis við úrlausn sambærilegra mála mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

Í kjölfar álitsins óskaði A ehf. eftir að ráðuneytið tæki málið upp að nýju og með bréfi þess 12. desember 2019 hafnaði það að endurskoða ákvörðunina frá 19. júní 2018 um að synja um niðurfellingu á tilboði A ehf. í WTO-tollkvóta. Í janúarlok 2020 óskaði umboðsmaður eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það teldi síðastgreint svar þess vera í samræmi við tilmælin í umræddu áliti og hvort lagt hefði verið heildarmat á atvik málsins í samræmi við sjónarmiðin sem þar komu fram. Í framhaldinu tók ráðuneytið erindi yðar frá 7. júní 2019 til nýrrar meðferðar og lauk henni með bréfi 1. nóvember sl. Þar eru málsatvik rakin svo og sjónarmið sem liggja til grundvallar niðurstöðunni. Lokaorð bréfsins eru þau að með vísan til þess sem að framan segi sé „hafnað beiðni um að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið endurskoði ákvörðun sína, frá 19. júní 2018, um að synja um niðurfellingu tilboðs A ehf. í WTO tollkvóta vegna innflutnings á svínakjöti á tímabilinu 1. júlí 2018 til 30. júní 2019“.

Kvartanir yðar, sbr. mál nr. 9819/2018 og 11372/2021, eiga báðar rætur að rekja til úrlausnar atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins á erindi A ehf. í júní 2018 þótt síðari kvörtunin sé vegna úrlausnar á erindi félagsins í júní 2019 enda var þar efnislega um ítrekun fyrra erindisins að ræða og þá með hliðsjón af áliti umboðsmanns í máli nr. 9819/2018. Þótt ráðuneytið hafi komist að sömu niðurstöðu og fyrr varð það samkvæmt framangreindu við tilmælum umboðsmanns um að taka málið aftur til meðferðar. Með vísan til þess svo og afstöðu umboðsmanns sem fram kemur í álitinu tel ég ekki tilefni til þess að ég fjalli frekar um kvörtunarefni yðar nú.

  

3

Í samskiptum yðar við ráðuneytið kemur fram að samhliða beiðni um niðurfellingu tilboðsins óskuðuð þér endurgreiðslu þess fjár sem A ehf. hafði greitt samkvæmt tilboðinu. Verður því ekki annað ráðið en að baki kvörtuninni sé að nokkru leyti ágreiningur um greiðsluskyldu ríkisins eða bótaskyldu þess vegna ákvörðunar ráðuneytisins gagnvart A ehf. Í lögum nr. 85/1997 er almennt ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður taki afstöðu til greiðslu- eða bótaskyldu. Kemur þar meðal annars til að við úrlausn um þessi efni getur skipt máli að taka og leggja mat á sönnunargildi skýrslna sem aðilar og þeir sem komu að máli fyrir hönd stjórnvalds gefa. Þá geta önnur sönnunargögn, svo sem matsgerðir, og mat á sönnunargildi þeirra einnig skipt máli, meðal annars við mat á umfangi tjóns.

Aðstaða umboðsmanns Alþingis og dómstóla til að taka slíkar skýrslur og framkvæma umrætt sönnunarmat er ólík. Af hálfu umboðsmanns hefur því almennt verið farin sú leið að ljúka málum þar sem uppi eru álitamál um greiðslu- eða skaðabótaskyldu stjórnvalda með vísan til þess að þar sé um að ræða ágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds tel ég að það efnisatriði kvörtunar yðar er lýtur að kröfu um endurgreiðslu fjár sé þess eðlis að úr því verði að leysa fyrir dómstólum. Með þessu hef ég þó að sjálfsögðu ekki tekið neina afstöðu til þess hvort slík málsókn væri líkleg til árangurs.   

  

III

Með vísan til framangreinds læt ég því máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.