Sveitarfélög. Úrskurðarvald ráðherra um ákvarðanir sveitarfélaga. Stjórnsýslukæra. Kæruheimild. Kærufrestur. Leiðbeiningarskylda. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 3055/2000)

A kvartaði yfir því að félagsmálaráðuneytið hefði vísað stjórnsýslukæru hennar frá þar sem annars vegar var kærð sú ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar að segja henni upp störfum og hins vegar ráðning bæjarstjórnar í starf á vegum bæjarins. Í frávísunarbréfi ráðuneytisins kom fram að almennur þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði verið liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu. Var kærunni því vísað frá sbr. 28. gr. sömu laga enda hefði ráðuneytið ekki komið auga á neinar þær ástæður sem réttlætt gætu þann drátt sem orðið hefði á að kæra ákvarðanirnar. Í kvörtun A til umboðsmanns var m.a. á því byggt að ákvæði stjórnsýslulaga um stjórnsýslukærur ættu ekki við um kærur samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Umboðsmaður rakti ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga og 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og dró þá ályktun að heimild til að kæra ákvörðun sveitarfélags til ráðherra yrði ekki byggð á fyrrgreindu ákvæði stjórnsýslulaga. Leiddi það þó ekki til þess að önnur ákvæði stjórnsýslulaga um stjórnsýslukærur ættu ekki við um málskot til félagsmálaráðuneytisins á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Taldi hann ekki ástæðu til athugasemda við að félagsmálaráðuneytið vísaði í frávísuninni til ákvæða 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður tók fram að ágreiningslaust væri að þriggja mánaða frestur samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga til að kæra uppsögn A hafi verið liðinn. Kom þar fram að í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga væri vikið frá skyldu stjórnvalds til að vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti. Umboðsmaður rakti athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga þar sem fram kom að vanræksla á að veita leiðbeiningar væri dæmi um tilvik þar sem afsakanlegt væri að kæra hefði ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Ekki yrði séð að A hefði verið leiðbeint um rétt hennar til að kæra ákvörðunina til félagsmálaráðuneytisins. Þá taldi umboðsmaður að það hefði ekki þýðingu við mat á því hvort taka skyldi mið af framangreindri undantekningarheimild hvort hún hefði notið lögmannsaðstoðar. Var það niðurstaða umboðsmanns að skilyrði hefðu verið til þess að víkja frá þriggja mánaða kærufresti við umfjöllun ráðuneytisins um þá kæru A sem laut að ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að segja henni upp störfum.

Þá kom fram í álitinu að ekki væri ljóst hvort eða hvenær A hefði verið tilkynnt um ráðningu í það starf sem hún sótti um og kærði síðan til ráðuneytisins. Átti ráðuneytið að upplýsa um það atriði samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem kærufrestur byrjaði ekki að líða fyrr en við slíka tilkynningu, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Miðað við þau gögn sem lögð höfðu verið fyrir umboðsmann yrði enn fremur að leggja til grundvallar að A hefði ekki verið leiðbeint um rétt hennar til að bera ákvörðunina undir félagsmálaráðuneytið. Taldi umboðsmaður því í öllu falli og með vísan til þess sem að framan greindi að skilyrði undantekningar 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga frá almennum kærufresti 27. gr. laganna hefði verið fyrir hendi um þann hluta kærunnar er laut að hinni umdeildu ráðningu.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki stjórnsýslukæru A til meðferðar á ný, færi hún fram á það við ráðuneytið, og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 7. september 2000 leitaði B, hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd A, til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun félagsmálaráðuneytisins að vísa stjórnsýslukæru hans fyrir hönd A frá ráðuneytinu. Í kvörtuninni er því haldið fram að ráðuneytinu hafi borið að taka kæruna til efnislegrar meðferðar. Þá er kvartað yfir því að ráðuneytið hafi ekki veitt A kost á því að koma að athugasemdum sínum um þá forsendu fyrir frávísuninni að ráðuneytið hefði ekki komið auga á neinar þær ástæður sem réttlættu þann drátt sem orðið hefði á því „að kæra málið til æðra stjórnvalds“, eins og það var orðað í frávísun ráðuneytisins.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 29. maí 2001.

II.

Málsatvik eru þau að lögmaður A kærði til félagsmálaráðuneytisins ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að segja henni upp störfum félagsmálastjóra hjá bænum á þeim grundvelli að staða hennar hefði verið lögð niður með samþykkt bæjarstjórnar frá 18. maí 1999, sbr. bréf bæjarstjóra Hafnarfjarðar frá 27. maí 1999. Þá var sú ákvörðun bæjarstjórnar frá 14. desember 1999 að veita A ekki starf forstöðumanns Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði ennfremur kærð til ráðuneytisins. Stjórnsýslukæra A er dagsett 25. maí 2000 og barst ráðuneytinu 26. maí s.á.

Með svohljóðandi bréfi, dags. 26. júní 2000, var kærunni vísað frá ráðuneytinu:

„Vísað er til erindis yðar, dagsett 25. maí 2000, þar sem þér, fyrir hönd [A], kærið bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir að segja henni upp starfi félagsmálastjóra frá og með 1. júní 1999 á þeim grundvelli að staðan hafi verið lögð niður með samþykkt bæjarstjórnar frá 18. maí 1999. Jafnframt er kærð sú ákvörðun bæjarstjórnarinnar frá 14. desember 1999 að veita henni ekki starf forstöðumanns Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði.

Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er lögfestur almennur þriggja mánaða kærufrestur en önnur ákvæði 27. gr. hafa að geyma nánari útfærslur á þessum fresti. Þessum ákvæðum er ætlað að stuðla að því að stjórnsýslumál verði leidd til lykta svo fljótt sem unnt er. Ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga mæla síðan fyrir um afleiðingar þess að kæra berist að liðnum kærufresti og er almenna reglan sú að vísa ber kæru frá nema undantekningar sem tilgreindar eru í ákvæðinu eigi við. Í þessu tilviki hefur ráðuneytið ekki komið auga á neinar þær ástæður sem réttlætt geta þann drátt sem orðið hefur á að kæra málið til æðra stjórnvalds.

Með vísan til framangreinds er erindi yðar frá 25. maí s.l. hér með vísað frá ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.“

III.

Í kvörtun A til mín kemur fram sú afstaða að ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga um kæru til æðra stjórnvalds eigi ekki við í hennar tilviki þar sem félagsmálaráðuneytið sé ekki æðra stjórnvald í málum sem eru borin undir það á grundvelli 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Engar reglur gildi um kærufrest vegna slíkra mála og hafi A því haft réttmæta ástæðu til að ætla að ráðuneytið tæki kæruna til meðferðar. Þá er bent á að engar leiðbeiningar hafi verið veittar um heimild til að bera umræddar ákvarðanir bæjarstjórnar Hafnarfjarðar undir félagsmálaráðuneytið þegar þær voru birtar A. Kemur þar fram að almennt beri að taka kærur til meðferðar hafi slíkar leiðbeiningar ekki verið veittar. Að lokum er vísað til þess að ráðuneytið virðist ekki hafa tekið mið af hagsmunum A af því að kæran yrði tekin til meðferðar og bent á að ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga væri meðal annars reist á því sjónarmiði að hagsmunir aðila geti einir sér leitt til þess að stjórnvaldi sé skylt að taka til meðferðar kæru sem berst að liðnum kærufresti.

Með bréfi til félagsmálaráðherra, dags. 18. september 2000, óskaði ég eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Svarbréf ráðuneytisins barst mér 25. október 2000 og hljóðar það svo:

„Vísað er til erindis yðar dags. 18. september sl., þar sem óskað er umsagnar ráðuneytisins vegna kvörtunar [B] hrl. á afgreiðslu ráðuneytisins í máli [A].

Eins og fram kemur í erindi lögmannsins ákvað ráðuneytið, með vísan til 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá ráðuneytinu, sbr. bréf ráðuneytisins dags. 26. júní sl. Byggðist sú ákvörðun á því að ráðuneytið taldi að hvernig sem á málið væri litið væri þriggja mánaða kærufrestur sá sem lögfestur er í 27. gr. liðinn. Jafnframt taldi ráðuneytið að undantekningar þær sem er að finna í 28. gr. stjórnsýslulaga ættu ekki við í málinu.

Nánar til tekið snerist málið um kæru tveggja stjórnsýsluákvarðana bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar. Annars vegar var kærð sú ákvörðun bæjarstjórnar að segja kæranda upp starfi félagsmálastjóra frá og með 1. júní 1999, með vísan til þess að staðan hefði verið lögð niður frá 18. maí s.á. Hins vegar var kærð sú ákvörðun að veita ekki kæranda starf forstöðumanns Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði. Ákvörðun um þá ráðningu var tekin í bæjarstjórn hinn 14. desember 1999.

Kæra á framangreindum ákvörðunum barst ráðuneytinu til meðferðar hinn 26. maí sl. þ.e. réttu ári eftir að fyrri ákvörðunin var tilkynnt kæranda og rúmum fimm mánuðum eftir að síðari ákvörðunin lá fyrir. Þótt ekki sé raunar ljóst af gögnum málsins með hvaða hætti sú ákvörðun var birt [A] virðist mega ráða af bréfi lögmanns hennar til Umboðsmanns Alþingis, dags. 4. september sl., að enginn dráttur hafi orðið á að hún fengi tilkynninguna.

Hvað varðar upphafstíma kærufrests telur ráðuneytið að varðandi fyrri ákvörðunina verði ekki miðað við síðara tímamark en bréf bæjarstjóra til lögmanns kæranda, dags. 19. ágúst 1999. Eru þar færð fram rök bæjarstjórnar fyrir niðurlagningu stöðu félagsmálastjóra, en lögmaðurinn hafði m.a. gert athugasemd við að málið snerist alls ekki um niðurlagningu stöðunnar heldur væri um dulbúna uppsögn að ræða.

Vissulega er það rétt sem lögmaðurinn bendir á að ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvort leiðbeiningarskyldu var gætt af hálfu bæjarstjórnar. Ráðuneytið bendir hins vegar á að 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaganna er heimildarákvæði og stjórnvald hefur mat um hvort ástæður fyrir drætti á að bera fram kæru séu afsakanlegar. Það er mat ráðuneytisins að í þessu máli sé svo ekki, ekki síst með tilliti til þess að [A] naut allan tímann lögmannsaðstoðar, og að frestir voru löngu liðnir þegar kæran barst ráðuneytinu. Á það má þó fallast með lögmanninum, að e.t.v. hefði verið réttara að gefa honum kost á að tjá sig um þetta atriði áður en ákveðið var að vísa málinu frá ráðuneytinu.

Ráðuneytið telur sérstaka ástæðu til að mótmæla þeirri röksemd lögmannsins að ákvæði 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við í málum á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Enda þótt mál sem skotið er til ráðuneytisins á grundvelli þessa ákvæðis séu að nokkru frábrugðin almennum stjórnsýslukærum, telur ráðuneytið það hafið yfir allan vafa að stjórnsýslulögin eigi við um afgreiðslu slíkra mála, þar með talið varðandi kærufresti. Er þá bæði litið til þess að lögunum hefur verið beitt í ráðuneytinu frá því að þau voru sett, en einnig til þess að mörg ákvæði laganna voru einungis lögfesting óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttarins.

Einnig telur ráðuneytið ástæðu til að andmæla skilningi lögmannsins á 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í því máli sem hér um ræðir deila tveir aðilar. Við slíkar aðstæður hefur stjórnvald að jafnaði lítið svigrúm til að rýmka eða falla frá kærufresti, enda ljóst að slík rýmkun hlýtur að bitna á hagsmunum kærða. Þessi röksemd fyrir því að ekki hafi átt að vísa málinu frá á því heldur ekki við, að mati ráðuneytisins.

Með vísan til alls framanritaðs telur ráðuneytið að sú ákvörðun að vísa málinu frá ráðuneytinu hafi verið réttmæt eins og á stóð. Það lýsir sig hins vegar reiðubúið að endurskoða hvort almennt eigi að gefa kæranda kost á að tjá sig um kærufrest áður en ákvörðun um frávísun er tekin.

Hjálagt sendast ennfremur öll framlögð gögn málsins.“

Með bréfi, dags. 26. október 2000, gaf ég lögmanni A kost á að gera þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera við skýringar ráðuneytisins. Þær athugasemdir bárust mér 12. desember 2000.

IV.

1.

Ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um almenna heimild aðila máls til þess að bera undir æðra stjórnvald stjórnvaldsákvörðun sem lægra sett stjórnvald hefur tekið. Byggist ákvæðið á því að uppbygging stjórnkerfisins taki mið af ákveðinni stigskiptingu þar sem æðri stjórnvöld hafa yfirstjórn og eftirlit með þeim stjórnvöldum sem lægra eru sett (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3307). Á þetta skipulag rætur í þeirri skipan sem mælt er fyrir um í 13. og 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 þess efnis að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt og að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.

Í 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Af þessu ákvæði verður leidd undantekning frá 14. gr. stjórnarskrárinnar þannig að ráðherra beri ekki ábyrgð á stjórnarframkvæmdum sem löggjafinn hefur falið sveitarfélögum að annast enda lúta þær framkvæmdir ekki yfirstjórn hans. Í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar, sem lagði til breytingu á orðalagi ákvæðisins um sjálfstjórn sveitarfélaga frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpi til breytinga á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, sem lagt var fyrir 118. löggjafarþing, kom fram að það væri „löggjafans að kveða á um eftirlit ríkisins með sveitarfélögum“. (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3887). Af framangreindu stjórnarskrárákvæði leiðir því að sveitarfélög hafa almennt sjálfstæða stöðu gagnvart öðrum stjórnvöldum og þarf að mæla sérstaklega fyrir um það í lögum ef á að koma á fót eftirliti ráðherra eða annarra stjórnvalda með sveitarfélögum. Af þessum sökum falla sveitarfélög almennt ekki undir framangreinda stigskiptingu stjórnvalda og verður stjórnsýslusamband milli sveitarfélaga og ráðherra því almennt að byggjast á sérákvæðum laga. Ég tel því að heimild til að kæra ákvörðun sveitarstjórnar til ráðherra verði almennt ekki leidd af 26. gr. stjórnsýslulaga þar sem aðila máls er veitt almenn heimild til að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Má í þessu sambandi enn fremur vísa til athugasemda við 26. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum en þar segir eftirfarandi:

„Þá gilda aðrar reglur um kæru á ákvörðunum sveitarstjórna vegna meginreglunnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga í 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar ákvörðun sveitarstjórnar er t.d. kærð til félagsmálaráðuneytisins skv. 119. gr. laga nr. 8/1986 sætir frjálst mat sveitarstjórnarinnar ekki endurskoðun ráðuneytisins vegna reglunnar um sjálfstjórn sveitarfélaga. Hins vegar sætir það endurskoðun ráðuneytisins hvort ákvörðun er lögmæt, þ.e. hvort sveitarstjórn hafi t.d. gætt réttrar málsmeðferðar, hvort ákvörðunin eigi sér stoð í lögum eða sé byggð á lögmætum sjónarmiðum.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3307).

Ákvæði stjórnsýslulaga taka samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Gilda lögin þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, og þá meðal annars um uppsögn opinberra starfsmanna og ráðningu í opinber störf. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283.) Í 103. gr. laga nr. 45/1998 segir að félagsmálaráðuneytið skuli „úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna [...]“. Ákvæði þetta hefur verið túlkað með þeim hætti að þeir sem nægilegra hagsmuna eigi að gæta, þá ekki síst þeir einstaklingar sem ákvörðun beinist að, geti borið lögmæti ákvörðunar sveitarfélags undir ráðuneytið. Um það vísa ég meðal annars til bréfs umboðsmanns Alþingis, dags. 29. september 1989, sem birtist í skýrslu hans árið 1989 (SUA 1989:117) og bréfaskipta minna við félagsmálaráðuneytið sem getið er í skýrslu minni fyrir árið 1999 (SUA 1999:13-15). Það er því ótvírætt lögbundið hlutverk ráðuneytisins að úrskurða um lögmæti ákvarðana sveitarfélaga á grundvelli kæru frá þeim sem nægjanlegra hagsmuna eiga að gæta nema annað verði leitt af lögum. Þá hefur verið talið að í úrskurðarvaldi ráðuneytisins felist vald til þess að fella, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ólögmætar ákvarðanir sveitarfélaga úr gildi. Af þessu leiðir að mínu áliti að erindi sem berast ráðuneytinu á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga teljist stjórnsýslukærur þótt kærusamband frá sveitarfélagi til ráðuneytisins verði ekki byggt á almennri reglu 26. gr. stjórnsýslulaga. Þótt ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga sé ekki grundvöllur kærusambands frá sveitarfélagi til ráðuneytis leiðir það ekki út af fyrir sig til þess að önnur ákvæði stjórnsýslulaga um stjórnsýslukærur eigi ekki við um málskot á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis sveitarstjórnarlaga.

Með hliðsjón af öllu framangreindu tel ég ekki ástæðu til athugasemda við að félagsmálaráðuneytið byggði frávísun sína á kæru A á ákvæðum 27. gr. og 28. gr. stjórnsýslulaga.

2.

Stjórnsýslukæra A til félagsmálaráðuneytisins beindist að tveimur ákvörðunum Hafnarfjarðarbæjar. Í fyrsta lagi kærði hún þá ákvörðun að segja henni upp störfum félagsmálastjóra á þeim grundvelli að staða hennar hefði verið lögð niður. Var A tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 27. maí 1999. Í öðru lagi laut kæran að ákvörðun bæjarstjórnar frá 14. desember 1999 um að ráða hana ekki í starf forstöðumanns Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði. Verður af gögnum málsins ráðið að henni hafi ekki verið tilkynnt skriflega um niðurstöðu bæjarstjórnar um ráðninguna. Í skýringum félagsmálaráðuneytisins til mín er sú ályktun dregin af kvörtun A að enginn dráttur hafi orðið á að hún fengi tilkynningu um niðurstöðu bæjarstjórnar að þessu leyti. Í athugasemdum lögmanns A við þær skýringar kemur hins vegar fram að í samtali sem hann hafi átt við A hefði komið fram að hana „ræki ekki minni til þess að henni hefði verið tilkynnt um ákvörðunina með formlegum hætti“.

Ágreiningslaust er að þriggja mánaða frestur samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga til þess að kæra fyrri ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar var liðinn þegar stjórnsýslukæra A til félagsmálaráðuneytisins var borin fram. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um afleiðingar þess að kæra berist að liðnum kærufresti og hljóðar ákvæðið svo:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Tilkynning til A um starfslok hennar hjá Hafnarfjarðarbæ var dagsett 27. maí 1999, en virðist samkvæmt stjórnsýslukæru hennar til ráðuneytisins hafa verið afhent henni 26. maí 1999. Í samræmi við skýringarreglu 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga hófst kærufrestur í merkingu 27. gr. og 28. gr. stjórnsýslulaga í fyrsta lagi 27. maí 1999. Kæra A til félagsmálaráðuneytisins, dags. 25. maí 2000, barst ráðuneytinu daginn eftir. Frávísun ráðuneytisins á kæru A byggðist ekki á ákvæði 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í 1. og 2. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er vikið frá skyldu stjórnvalds til að vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti. Verður þá meðal annars að skýra hvað geti leitt til þess að afsakanalegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir meðal annars:

„Í 1. mgr. eru greindar tvær undantekningar frá þessari reglu. Í fyrsta lagi er undantekning gerð þegar afsakanlegt er að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. Sem dæmi um slík tilvik má nefna það að lægra stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar, enda þótt kæra hafi borist að liðnum kærufresti, mæli veigamiklar ástæður með því, sbr. 2. tölul.

Við mat á því hvort framangreind skilyrði eru fyrir hendi þarf að líta til þess hvort aðilar að málinu eru fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo væri rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningatilvikum. Ef aðili er aðeins einn yrði mál frekar tekið til meðferðar.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3308.)

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að vikið hafi verið að rétti A til að bera ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um starfslok hennar undir félagsmálaráðuneytið á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga þegar tilkynnt var um starflok hennar hjá Hafnarfjarðarbæ. Þá verður ekki séð að henni hafi síðar verið leiðbeint um rétt hennar að þessu leyti. Um áhrif þessa á mat samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. vísast til framangreindrar athugasemdar. Þá er ég þeirrar skoðunar að enda þótt A hafi notið lögmannsaðstoðar hafi sú aðstaða ekki átt að hafa þýðingu við mat á því hvort taka skyldi mið af framangreindri undantekningarheimild. Þótt einstaklingur njóti lögmannsaðstoðar breytir það ekki þeim hagsmunum sem hann hefur af því að fá úrlausn félagsmálaráðuneytisins um lögmæti ákvarðana sveitarfélags í málefnum hans. Þá vísa ég í þessu sambandi til þess að nokkur réttaróvissa hefur ríkt um túlkun 103. gr. sveitarstjórnarlaga og gildissvið stjórnsýslulaga í málum sem ráðuneytið fær til úrlausnar auk þess sem ekki var við þekkta réttarframkvæmd að styðjast.

Í skýringum félagsmálaráðuneytisins til mín kemur fram að í þessu máli hafi ágreiningur staðið milli tveggja aðila og í slíkum málum hafi stjórnvald að jafnaði lítið svigrúm til að rýmka eða falla frá kærufresti af tilliti til hagsmuna hins „kærða“. Er þá vafalaust vísað til þeirra sjónarmiða sem fram koma í framangreindum athugsemdum í frumvarpi til stjórnsýslulaga. Ég skil þá athugasemd svo að framangreind sjónarmið eigi við um þau stjórnsýslumál þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eiga andstæðra hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnvalds. Þau sjónarmið, sem vísað er til í skýringum félagsmálaráðuneytisins, eiga því ekki fyllilega við um þau tilvik þegar ákvörðun sveitarfélags er kærð af aðila máls til félagsmálaráðuneytisins og aðrir einstaklingar eða lögaðilar eiga ekki nægjanlegra hagsmuna að gæta af úrlausn ráðuneytisins. Á sveitarfélagi hvíla ákveðnar skyldur sem leiddar verða af stöðu þess sem stjórnvalds meðal annars samkvæmt stjórnsýslulögum þegar sveitarfélög taka ákvarðanir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna. Ber þeim í samræmi við 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga að leiðbeina aðila máls við birtingu ákvörðunar um kæruheimild sé hún fyrir hendi. Í framangreindum athugasemdum við 28. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga er gert ráð fyrir að vanræksla á skyldu stjórnvalds til að veita fullnægjandi leiðbeiningar á kæruheimild leiði til þess að almennt verði talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist á réttum tíma. Í skýringum félagsmálaráðuneytisins til mín koma að mínu áliti ekki fram fullnægjandi rök fyrir því að vanræksla sveitarfélags á þessari skyldu hafi önnur áhrif en slík vanræksla af hálfu lægra setts stjórnvalds almennt.

Í skýringum félagsmálaráðuneytisins koma ekki fram frekari rök en þau sem vikið er að hér að framan fyrir því að undantekningarheimild 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. hafi ekki átt við um kæru A.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að skilyrði hafi verið til þess að víkja frá þriggja mánaða kærufresti samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga við umfjöllun félagsmálaráðuneytisins um þá kæru A sem laut að þeirri ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að segja henni upp störfum.

Ekki er ljóst hvort eða hvenær A var tilkynnt um ráðningu í starf forstöðumanns Félagsþjónustu Hafnarfjarðar. Kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum byrjar ekki að líða fyrr en við slíka tilkynningu, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Verður ekki séð að félagsmálaráðuneytið hafi leitast við að upplýsa um það atriði, eins og því var skylt að gera samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en það vísaði kæru A frá ráðuneytinu. Miðað við þau gögn sem fyrir mig hafa verið lögð verður enn fremur að leggja til grundvallar að henni hafi ekki verið veittar leiðbeiningar um rétt hennar til að bera þá ákvörðun undir félagsmálaráðuneytið. Tel ég því í öllu falli og með vísan til þess sem að framan greinir að skilyrði undantekningar 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga frá almennum kærufresti 27. gr. laganna hafi verið fyrir hendi um þann hluta stjórnsýslukærunnar er laut að ráðningu í starf forstöðumanns félagsþjónustunnar.

3.

Kvörtun A lýtur enn fremur að því að henni eða lögmanni hennar hafi ekki verið veittur kostur á því að koma að athugasemdum við þá forsendu frávísunarinnar að ráðuneytið hefði ekki komið auga á neinar þær ástæður sem réttlættu þann drátt sem orðið hefði á því „að kæra málið til æðra stjórnvalds“. Í skýringum ráðuneytisins til mín er tekið undir þetta atriði. Ég er sammála því að rétt hefði verið að ráðuneytið leitaði skýringa á ástæðum dráttar á því að bera málið undir ráðuneytið áður en það lagði þá forsendu til grundvallar niðurstöðu sinni. Í ljósi afstöðu ráðuneytisins til þessa atriðis og niðurstöðu minnar hér að framan tel ég ekki ástæðu til frekari umfjöllunar um þennan þátt kvörtunarinnar.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að ákvæði 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga hafi gilt um stjórnsýslukæru A til félagsmálaráðuneytisins. Ég tel hins vegar að skilyrði undantekningarheimildar 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga hafi verið uppfyllt til að víkja frá þriggja mánaða kærufresti samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að ráðuneytið hafi leitast við að upplýsa hvort eða hvenær A hafi verið tilkynnt um ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um ráðningu í það starf er hún hafði sótt um og þar með um upphaf kærufrests vegna þeirrar ákvörðunar. Því beini ég þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytisins að það taki stjórnsýslukæru A til meðferðar á ný, fari hún fram á það við ráðuneytið, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu.

VI.

Í tilefni af áliti mínu leitaði A til félagsmálaráðuneytisins og óskaði eftir endurupptöku málsins. Ráðuneytið féllst á það með ákvörðun, dags. 23. ágúst 2001, og kvað í framhaldinu upp úrskurð í málinu, dags. 2. desember s.á. Í úrskurðarorði segir svo:

„Ákvörðun og málsmeðferð við niðurlagningu stöðu félagsmálastjóra í Hafnarfirði fór í bága við 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og góða stjórnsýsluhætti.

Við málsmeðferð og ákvörðun um ráðningu forstöðumanns Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði var ekki gætt nægilega grundvallarreglna stjórnsýsluréttar og að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.“