Lífeyrismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11383/2021)

Kvartað var yfir svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn um lagalegan grundvöll skylduaðildar að Lífeyrissjóði bankamanna samkvæmt samþykkt sjóðsins.

Lífeyrissjóður bankamanna er einkaaðili og því féll starfsemi hans hvað þetta áhrærði ekki undir starfssvið umboðsmanns. Hvað svar ráðuneytisins snerti taldi umboðsmaður að gerð hefði verið rökstudd grein fyrir afstöðu þess til álitaefnisins og ekki tilefni til að taka kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 10. nóvember sl. og lýtur að svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins 3. mars sl. við fyrirspurn yðar um lagalegan grundvöll skylduaðildar að Lífeyrissjóði bankamanna samkvæmt 3. gr. samþykkta sjóðsins.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Það tekur hins vegar ekki til einkaaðila nema að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opin­bert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Ástæða þess að gerð er grein fyrir framansögðu er sú að Lífeyrissjóður bankamanna er einkaaðili og fellur starfsemi sjóðsins því að jafnaði utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis.

Í ljósi framangreinds nær athugun mín á kvörtun yðar ekki til ágreinings málsins um lögmæti þeirrar skylduaðildar sem kveðið er á um í samþykktum framangreinds lífeyrissjóðs. Afmarkast athugun mín því við það hvort svör ráðuneytisins hafi verið í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar og hlutverk þess samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Af hinni óskráðu svarreglu stjórnsýsluréttarins leiðir að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Það ræðst hins vegar af nánari atvikum hvers máls hvert efni slíks svars þarf að vera. Ljóst er af kvörtun yðar að þér beinduð fyrirspurn til ráðuneytisins 14. janúar sl. þar sem þér gerðuð athugasemdir við skylduaðild samkvæmt 3. gr. fyrrnefndra samþykkta þar sem ákvæðið samrýmdist m.a. ekki 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Í því ákvæði segir að um aðild að lífeyrissjóði fari eftir þeim kjarasamningi sem ákvarði lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við eigi. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velji viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfi. Aðild að lífeyrissjóði skuli taka fram í skriflegum ráðningarsamningi.

Fjármála- og efnahagsráðherra gegnir ákveðnu eftirlitshlutverki samkvæmt V. kafla laga nr. 129/1997, en í því hlutverki felst m.a. að staðfesta samþykktir lífeyrissjóða, eins og nánar greinir í 28. gr. laganna, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 24. mars 2017 í máli nr. 9057/2016. Ber ráðherra m.a. að kanna hvort ákvæði samþykkta lífeyrissjóða séu í samræmi við lög, eins og þau verða túlkuð í ljósi ákvæða stjórnarskrárinnar.

Í svari ráðuneytisins frá 3. mars sl. voru forsaga og lögskýringargögn að baki 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 rakin og m.a. tekið fram að í athugasemdum að baki ákvæðinu væri áréttað að venjur tengdust framkvæmd kjarasamninga. Þótt ekki væru t.d. skýr ákvæði í kjarasamningi um aðild að tilteknum lífeyrissjóði yrðu ákvæði um greiðslu­skyldu atvinnurekenda skýrð í samræmi við fyrri framkvæmd. Var í kjölfarið fjallað um aðild að Lífeyrissjóði bankamanna í gegnum tíðina. Lét ráðuneytið í ljós þá afstöðu að um væri að ræða venjubundna skipan mála sem ekki yrði breytt nema með kjarasamningi eða lögum og að ekki væru forsendur til að kanna nánar grundvöll samþykkta sjóðsins. Það væri þá á vettvangi aðildarfyrirtækja sjóðsins og félagsmanna þeirra eða eftir atvikum dómstóla að skera úr um álitamál um skylduaðild.

Af framansögðu má ljóst vera að í svari ráðuneytisins var gerð grein fyrir rökstuddri afstöðu ráðuneytisins til þess álitaefnis sem þér báruð undir það. Með vísan til þess sem rakið hefur verið tel ég því ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar og lýk umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.